Fyrirmyndarstjórnandi hjá Reykjavíkurborg

Atvinnumál Skóli og frístund

""
Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóls, varð í vikunni þess heiðurs aðnjótandi að fá stjórnunarverðlaun Stjórnvísi í flokknum millistjórnandi ársins 2016.  Einnig voru veitt verðlaun í flokknum frumkvöðull ársins, en þau hlaut Þorbjörg Jensdóttir, framkvæmdastjóri IceMedico ehf., og viðurkenningu í flokki yfirstjórnenda hlaut Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja. 
 
Yfir 70 stjórnendur voru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi og meðal þeirra voru tveir aðrir stjórnendur hjá Reykjavíkurborg, þau Stefán Eiríksson sviðsstjóri Velferðarsviðs og Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs.

Þakkar samstarfsmönnum fyrir árangurinn

Guðrún Kaldal var að vonum ánægð með viðurkenninguna og þakkaði sérstaklega öflugum samstarfsfélögum fyrir árangurinn. Hún hefur verið í starfi sínu frá árinu 1997 og á þeim árum hefur samfélagið tekið miklum breytingum. Reksturinn sem um ræðir hefur farið úr því að vera félagsmiðstöð fyrir unglinga í að verða frístundamiðstöð með margar starfseiningar. Frostaskjól var brautryðjandi í að breyta því sem áður var kallað „heilsdagsskóli“ yfir í að verða frístundaheimili. Við þetta breyttist innra starf mjög mikið og samstarf við tómstundaðila í hverfinu var stóraukið til að samþætta vinnudag barna með því að færa tómstundir inn í vinnudaginn. Frostaskjól hefur náð mjög góðum árangri í vinnustaðakönnun Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og hefur hlotið titilinn ,,Stofnun ársins“ árið 2015 og 2013 og var í 2. sæti 2014. Einnig hefur Frostaskjól verið ,,Fyrirmyndarstofnun“ í fjögur skipti.
 
 
Samstarfsmenn Guðrúnar samglöddust henni á verðlaunaafhendingunni.

Hvetur og aðstoðar starfsmenn að fylgja hugmyndum sínum eftir

Undir stjórn  Guðrúnar var árið 2010 stofnað það sem kallað er „safnfrístundaheimili“, en í því felst meiri stígandi og aldursskipting. Nú eru önnur hverfi að taka upp sambærilegt kerfi.  Hún var einnig í forystu fyrir Vesturbæjarfléttuna, sem er samráð grunnskóla, leikskóla og frístundmiðstöðva í Vesturbæ. Í þessu felst m.a. sameiginlegur starfsdagur og  stóraukið samstarf þeirra er koma að uppeldisumhverfi barna í Vesturbæ. Verkefnið hefur hlotið athygli annarra sveitafélaga og verið kynnt á samnorrænum ráðstefnum.
 
Í dómnefndaráliti segir um verðlaunahafann Guðrúnu Kaldal: „Hún er fyrirmyndar stjórnandi. Hún hvetur og aðstoðar starfsmenn til að fylgja hugmyndum sínum eftir og láta góðar hugmyndir verða að veruleika“.  Í tilnefningu frá samstarfsmönnum sagði orðrétt: „Við starfsmenn höfum oft staðið frammi fyrir erfiðum málum sem þarfnast skjótrar úrlausnar við og hefur hún ávallt aðstoðað og hvatt okkur áfram og komið með góðar hugmyndir.“  

Allir starfsmenn Reykjavíkurborgar geta tekið þátt í Stjórnvísi

Stjórnvísi, sem er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með 3.000 virka félagsmenn og yfir 300 fyrirtæki og stofnanir innan sinna raða, fagnar í ár þrjátíu ára starfsafmæli.  Reykjavíkurborg er aðili að Stjórnvísi og þar með þátttaka í starfi félagsins starfsmönnum að kostnaðarlausu. Margir starfsmenn hafa í gegnum árin nýtt sér að sækja fyrirlestra og aðra fræðslu á vegum Stjórnvísi , auk þess sem margir eru virkir í faghópum. Nánar um starfsemi Stjórnvísi er á vef þess og þar er hægt að skrá sig í faghópa.  
 
Nánari upplýsingar: