Frú Ragnheiður fær Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Mannréttindi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Svölu Jóhannesdóttur, verkefnastjóra  Frú Ragnheiðar, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Athöfnina ber að venju upp á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar.

Frú Ragnheiður er heilsugæsla á hjólum fyrir þá borgarbúa sem eiga erfitt með að leita sér aðstoðar hjá almennri heilsugæslu.  Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar eru flestir útigangsfólk og fíklar og er þjónustan innt að hendi samkvæmt hugmyndafræði skaðaminnkunar.  Hún felur í sér að veita aðstoð á forsendum hvers og eins og á heimavelli notenda án þess að dæma líferni þeirra og þjóðfélagsstöðu. Reykjavíkurdeild Rauða krossins rekur Frú Ragnheiði.

Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum og stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi. Markmiðið með því að halda mannréttindadag er að vekja athygli á því að tryggja beri mannréttindi borgarbúa, svo og að minna á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Dagur borgarstjóri sagði við afhendingu verðlaunanna í dag að starfsemi Frú Ragnheiðar byggðist á óeigingjarnri sjálfboðavinnu og að með verðlaununum vildi Reykjavíkurborg vekja athygli á því merkilega framlagi. Frú Ragnheiður þjónustaði hóp sem sjaldan gerði kröfur eða leitaði sér hjálpar.

Mannréttindaverðlaunin eru að þessu sinni peningaverðlaun og fær Frú Ragnheiður 600 þúsund krónur. Ragnar Hansson, formaður mannréttindaráðs, úthlutaði einnig í dag styrkjum mannréttindaráðs til 12 verkefna fyrir alls 4,9 milljónir króna.

Listi yfir styrkþega og verkefni.