Fleiri konur kjósa í rafrænum íbúakosningum

Betri hverfi

""

Talsvert fleiri konur en karlar tóku þátt í rafrænu íbúakosningunum Betri hverfi 2015. Hlutfall kvenna sem kaus er 56% á móti 44% karla og er mynstrið svipað í öllum hverfum borgarinnar.
Þátttaka meðal kvenna á aldrinum 36 – 40 ára var áberandi mest í kosningunum samkvæmt tölfræði sem Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman eða 14%.

Alls auðkenndu sig 7.103 til þátttöku í kosningunum sem er 7,3% og hækkar úr 5,7% árið 2014 þegar fjöldi þátttakenda var 5.272.

Gild atkvæði voru 6.496 eða 91,5% þeirra sem auðkenndu sig. Það er 23,2% aukning frá því í fyrra.

Kosningaþátttaka eftir hverfum

Þátttaka var mest í Grafarholti og Úlfarsárdal en þar var hún 9,1% en næstmest í Vesturbæ, Hlíðum og Laugardal en í þessum hverfum tóku 8% þátt. Minnst var kosningaþátttakan í Breiðholti þar sem 5,7% tóku þátt.

Alls voru 107 hugmyndir að verkefnum í hverfum borgarinnar kosnar. Sum verkefnin eru smá og kosta lítið en önnur stærri og kostnaðarsamari. Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að framkvæma kosin verkefni.

Hugmyndirnar að verkefnunum koma frá íbúum í hverfum borgarinnar.

Betri hverfi 2015  - niðurstöður kosninga

Skýrsla – Betri hverfi 2015