Fjölbreytt byggðamynstur á Kirkjusandi

Skipulagsmál

""
Nýtt hverfi með allt að 300 íbúðum og fjölbreyttri þjónustu og atvinnustarfsemi mun rísa á Kirkjusandi. 
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að setja nýtt deiliskipulag fyrir Kirkjusand í auglýsingu. 
 
Myndað verður heildstætt, þétt hverfi á Kirkjusandi með allt að 300 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis. Þar af verða 150 íbúðir sem Reykjavíkurborg ráðstafar en hluti af þeim verða leiguíbúðir en stefnt er að fjölbreyttri íbúasamsetningu á svæðinu.
 
Vandað verður til allrar hönnunar og stefnt er að fjölbreytilegri hönnun húsa og yfirbragði á uppbyggingarreitnum.   Íbúðir verða misstórar og henta jafnt einstaklingum sem stærri fjölskyldum. Gott aðgengi verður tryggt til að fólk með skerta hreyfigetu geti búið á og ferðast um svæðið.
 
Útivistargildi Kirkjusands er ótvírætt með góðu aðgengi að strandlengjunni og Laugardal.
 
Skipulagssvæðið spannar nú tvær lóðir, Kirkjusand 2 og Borgartún 41  en með breyttu deiliskipulagi verða til níu lóðir á svæðinu. 
 
Öll hönnun svæðisins er í samræmi við áherslur Aðalskipulags Reykjavíkur sem hefur það að meginmarkmiði að bæta borgarumhverfið, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænum samgöngum.  Reykjavíkurborg mun sjá um gatnaframkvæmdir, stíga og gróðursetningu í almenningsrýmum.
 
Gert er ráð fyrir góðri aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi. Lögð er áhersla á að hjólastæði verði vel staðsett ofanjarðar, sem næst inngöngum.  Almenn bílastæði í götum verða gjaldskyld, en bílastæði íbúða og atvinnustarfsemi að mestu í bílageymslum en kjallarar eru undir öllum lóðum, með sameiginlega aðkomu og samnýtanlegum bílastæðum að hluta. 
 
Samkvæmt samkomulagi Reykjavíkurborgar og Íslandsbanka er gert ráð fyrir að efnt verði til samkeppni um gerð listaverks sem komið verði fyrir í almenningsrými í hverfinu.
 

Kirkjusandur greinargerð