Borgarstjóri afhjúpar veggmynd Söru Riel í Asparfelli

Betri hverfi Umhverfi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði vegglistaverkið Fjöðrina eftir Söru Riel sem er á fjölbýlishúsinu Asparfelli 2-12. Fjöldi fólks var samankominn til að virða fyrir sér listaverkið og sagði borgarstjóri Fjöðrina vera stórkostlegt verk sem væri til prýði í hverfinu.

Veggmyndin Fjöðrin er samsett úr 43 fuglum af 23 tegundum sem skapa eina heild. Listakonan Sara Riel segir að verkið vera m.a. tilvísun í umhverfið þar sem ólíkir einstaklingar skapa eina heild og samfélag. Hún segir að það hafi verið stórkostlegt að kynnast hinu alþjóðlega samfélagi í Efra-Breiðholti og eiga samtal við íbúa um verkið. Það hafi jafnframt komið sér ánægjulega á óvart hversu margir fuglar voru í nágrenni við hana þegar hún vann að verkinu.  
 
Borgarráð ákvað á síðasta ári að fjölga listaverkum í opinberu rými í Breiðholti og er verkið hluti af því átaki sem hefur fengið nafnið Vegglist í Breiðholti. Verkefninu er ætlað að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra hverfið og skapa umræðu. Alls verða fimm veggmyndir eftir fjóra listamenn komnar í Breiðholtið á næstu mánuðum og átta veggmyndir eftir ungmenni á aldrinum 17-20 ára. 
 
Verk Söru Riel er önnur veggmyndin sem verður afhjúpuð í Breiðholti en síðasta haust var veggmynd eftir Theresu Himmer afhjúpuð á Jórufelli 2-12.  Tvö verk eftir Erró verða sett upp í Breiðholti á næstunni og fjórði listamaðurinn hefur verið valinn  til að gera veggmynd í Efra-Breiðholti og verður nafn hans tilkynnt í næstu viku.  Átta ungmenni voru jafnframt valin í sumar til að gera veggmyndir í Breiðholti undir handleiðslu listamanna og birtast þau í hverfinu á næstu vikum. 
 
Listasafn Reykjavíkur hefur haft umsjón með verkefninu sem hefur verið unnið í samráði við íbúa í Breiðholti og hverfisráð.  Listasafnið er einnig að setja upp tvö verk eftir Ásmund Sveinsson í Seljahverfi. Verkið Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund verður staðsett við Seljakirkju og verkið Móðir mín í kví kví verður sett upp við Seljatjörn.  
 
Boðið var upp á léttar veitingar við athöfnina og skemmtiatriði. Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson fluttu tónlist og Stefán Halldór Egilsson sýndi popping dans.