Nýjar körfur og betra skipulag vallarins er meðal endurbóta á 18 brauta frisbígolfvellinum við Gufunesbæinn í Grafarvogi. Endurbæturnar eru meðal verkefna sem íbúar völdu í íbúakosningunum „Betri hverfi”.
Búið er að koma nýju körfunum fyrir og merkja teiga sem hæfa mismunandi styrk þátttakenda. Rauðir teigar eru léttastir, hvítir miðlungs og bláir erfiðastir fyrir þá sem lengst eru komnir í þessari íþrótt.
Frítt er að spila á öllum frisbígolfvöllum og er íþróttin öllum aðgengileg. Hægt er að fá leigða sérstaka diska í frístundamiðstöðinni Gufunesi.
Á næstu vikum verða opnaðir þrír nýir vellir í Reykjavík. Þeir verða í Laugardal, Fossvogsdal og efst í Elliðaárdal. Tillögur um vellina hlutu brautargengi í íbúakosningunum„Betri hverfi” í byrjun ársins.
Nánari upplýsingar um íþróttina er að finna á vefnum www.folf.is