Aukinn stuðningur við kennara og úrbætur á starfsumhverfi

Skóli og frístund

""

Starfshópur kynnti í dag 31 tillögur að aðgerðum til að auka nýliðun og bæta starfsumhverfi grunnskólakennara í Reykjavík. Tillögurnar tengjast fjórum meginflokkum; bættu starfsumhverfi, breytingum á inntaki og skipulagi kennaranáms, aukinni nýliðun kennara samhliða fjölgun kennaranema og loks öflugri starfsþróun.

Helstu niðurstöður

  • Reykjavíkurborg hefur þegar samþykkt að verja um 627 milljónum króna til að hrinda fyrstu tillögum starfshópsins í framkvæmd á næsta ári til viðbótar þeim ríflega 670 milljónum sem varið var til að bæta stöðu grunnskólanna á árinu 2017.
  • Aðsókn að kennaranámi í Háskóla Íslands hefur dregist saman um 75% frá árinu 2002 og stefnir í verulegan kennaraskort að óbreyttu.  Ný spá gerir ráð fyrir að það muni skorta allt að 700 grunnskólakennara í Reykjavík fram til 2030 til viðbótar við þann fjölda sem líklegur er til að útskrifast úr kennaranámi að óbreyttu.  Lagt er til að ríki, sveitarfélög, háskólar og kennaraforystan taki höndum saman um að leiða vitundarvakningu til að auka veg og virðingu kennarastarfsins í samfélaginu.
  • Stór hluti þeirra sem eru með leyfisbréf eru að störfum í menntakerfinu þó þeir kenni ekki í grunnskólum skv. rannsókn Helga Eiríks Eyjólfssonar og Stefáns Hrafns Jónssonar í Háskóla Íslands.

Aukinn stuðningur við kennara, öflugra vettvangsnám og bætt starfsumhverfi

Mikill kennaraskortur er framundan verði ekkert að gert þar sem verulega hefur dregið úr aðsókn í kennaranám undanfarin ár. Skóla – og frístundaráð Reykjavíkurborgar skipaði starfshóp haustið 2016 um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara til að leita lausna á  yfirvofandi kennaraskorti og hefur hann nú skilað 31 tillögu sem lúta að því að bæta starfsumhverfi kennara, fjölga kennaranemum og efla starfsþróun. Hópurinn var skipaður fulltrúum hagsmunasamtaka kennara, Háskóla Íslands, foreldrasamtaka, Sambands íslenskra sveitarfélaga, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og kjörnum fulltrúum.

Fagfólk við hlið kennara, kennararáðgjafar og betra aðgengi að upplýsingatækni

Meðal tillagna hópsins er að fjölgað verði fagfólki sem starfi við hlið kennara í grunnskólum Reykjavíkurborgar til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Þar með eru taldir hegðunarráðgjafar með sérhæfingu í atferlismótun, talmeinafræðingar, sálfræðingar, þroskaþjálfar, félagsráðgjafar, náms- og starfsráðgjafar og svokallaðir brúarsmiðir sem þjóna börnum af erlendum uppruna.

Þá er lagt til að mótuð verði ný úrræði til að styðja við börn í fjölþættum vanda og að stofnað verði til starfs kennararáðgjafa við hvern skóla sem verði kennurum og kennaranemum til halds og trausts, jafnt nýjum sem og þeim sem hafa öðlast starfsreynslu. Einnig er lagt til að tekin verði upp kennsluráðgjöf í upplýsingatækni og að allir nýir kennari fái leiðsagnarkennara (mentor) með það að markmiði að draga úr brotthvarfi ungra kennara úr starfi. 

Aðrar tillögur sem snúa að því að bæta starfsumhverfi kennara fjalla m.a. um að skólastjórnendur fái aukið svigrúm til að sinna hlutverki sínu sem faglegir leiðtogar, að skólaþjónusta sem í dag er starfrækt á þjónustumiðstöðvum færist í meira mæli beint út í skólana og að bæta verulega aðgengi kennara og nemenda að tölvubúnaði svo upplýsingatæknin nýtist sem best í skólastarfinu. Þá er lagt til að mótuð verði áætlun til fimm ára um endurbætur á húsnæði og starfsaðstæðum kennara í grunnskólum borgarinnar. 

Aukin nýliðun í kennaranámi

Meðal tillagna til að auka nýliðun í kennarastéttinni er að ríkisvaldið grípi til ívilnandi aðgerða m.a. í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna til að hvetja ungt fólk til að afla sér kennaramenntunar. Lag er til að hluti námslána kennaranema breytist í styrk; eftirstöðvar námslána falli niður eftir að kennari hefur verið 25 ár í starfi o.s.frv. Einnig er lagt til að búnir verði til hvatar til að draga úr brottfalli úr kennaranámi, s.s. með því að veita þeim starfsmönnum sem vilja stunda meistaranám til kennsluréttinda svigrúm til þess meðfram starfi.

Breytingar á inntaki kennaramenntunar
Starfshópurinn hvetur einnig til að háskólar geri nauðsynlegar breytingar á inntaki kennaramenntunar til að mæta betur þörfum kennara á vettvangi.  Sérstaklega verði hugað að því að auka áherslu í skyldunámi á námskeið sem tengjast kennslu barna með sérþarfir og kennslu barna af erlendum uppruna með það í huga að kennaranemar öðlist þekkingu og færni til að beita mismunandi kennsluaðferðum sem skila nemendum framförum í námi.  Þá er lagt til að hlutur vettvangsnáms verði aukinn með breyttu skipulagi kennaranámsins. Stefnt verði að því að nemendur verji heilu ári, fjórða eða fimmta, í að starfa á vettvangi í grunnskóla borgarinnar sem launaðir starfsmenn undir handleiðslu grunnskóla- og háskólakennara

Starfsþróun
Í tillögum um úrbætur hvað varðar starfsþróun er m.a. lagt til að útskrifaðir nemendur, sem hafa aflað sér kennsluréttinda sem grunnskólakennarar en starfa við annað, bjóðist tækifæri til símenntunar svo þeir geti snúið aftur til kennslu. Þá er lagt til að gerð verði úttekt á nýtingu starfsþróunarstunda, skv. kjarasamningum meðal grunnskólakennara í Reykjavík m.t.t. gæða og nýtingu í starfi.  Einnig að fjölgað verði styttri námsleyfum með áherslu á að kennarar geti sótt sér framhaldsmenntun meðfram starfi.

Starfshópurinn, sem tók til starfa fyrir rösku ári, var svo skipaður:

  • Skúli Helgason, fulltrúi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, formaður
  • Rósa Ingvarsdóttir, fulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur
  • Ólafur Loftsson, fulltrúi Félags grunnskólakennara
  • Hildur Ingólfsdóttir, fulltrúi rektors Háskóla Íslands
  • Jónína Vala Kristinsdóttir, fulltrúi menntavísindasviðs Háskóla Íslands
  • Eygló Friðriksdóttir, fulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur fyrir hönd SÍ
  • Birgitta Bára Hassenstein, fulltrúi SAMFOK
  • Guðlaug Sturlaugsdóttir, fulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur
  • Marta Guðjónsdóttir, fulltrúi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur
  • Svandís Ingimundardóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Sjá skýrslu starfshópsins.

Sjá kynningu með niðurstöðum starfshóps.