Aðgerðaáætlun um sparnað í rekstri borgarinnar – staðið vörð um grunnþjónustu

Fjármál

""

Borgarráð hefur samþykkt tveggja ára aðgerðaáætlun til að ná fram hagræðingu í rekstri borgarinnar. Samkvæmt áætluninni á miðlæg stjórnsýsla og stjórnsýsla á fagsviðum að taka á sig 5% hagræðingu á útgjöld samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun 2016 og þjónusta fagsviða á að hagræða um 1,5% að jafnaði í útgjöldum og annarri þjónustu. Alls nemur hagræðingin 1.780 milljónum í stjórnsýslu borgarinnar á næsta fjárhagsári.

 
Skipting hagræðingar 2016 Samtals hagræðing
Íþrótta- og tómstundasvið    127.384
Menningar- og ferðmálasvið      72.861
Skóla- og frístundasvið    669.760
Umhverfis og skipulagssvið    172.459
Velferðarsvið    412.418
Ráhús og miðlæg stjórnsýsla    325.119
                           1.780.001
 

Í frumvarpi að fjárhagsáætlun er jafnframt gert ráð fyrir að brugðist verði við horfum á hallarekstri A-hluta með aðgerðaáætlun til ársins 2018 sem felur í sér að:

 

  • Útgjöld dragist saman á föstu verðlagi  til ársins 2018.
  • Jafnvægi verði í rekstri A-hluta árin 2016-2018 og jafnvægi verði í grunnrekstri árið 2018, þ.e.   reglulegar tekjur standi undir rekstrarútgjöldum.
  • Veltufé frá rekstri verði a.m.k. 9% af tekjum árið 2018.
  • Markmið verði sett um hlutfall hreinna vaxtaberandi skulda af tekjum.

Við mótun aðgerðaáætlunar á fagsviðum borgarinnar vegna A-hluta árin 2016-2018 verði byggt almennt á stefnumótun borgarstjórnar, gætt að kynjasjónarmiðlum og mannréttindastefnu og leikreglum um gerð fjárhagsáætlunar.

Leiðarljós í hagræðingu fagsviða er:

  • Grunnþjónusta: Staðinn verður vörður um grunnþjónustu  við íbúa en leitað hagkvæmari leiða til að veita hana.
  • Gjaldskrár: Staðinn verður vörður um hagsmuni barnafjölskyldna. Gjaldskrám vegna þjónustu leikskóla, grunnskóla og frístund verður áfram stillt   í hóf.
  • Starfsmenn: Fjöldi stöðugilda verði takmarkaður og hægt á nýráðningum eftir því sem kostur er.
  • Húsnæði: Stefnt verði að því að nýta betur húsnæði, og samnýta fyrir starfsemi og þjónustu  borgarinnar, með uppsögn leigusamninga og fækkun   fermetra í notkun borgarinnar.
  • Innkaup: Stefnt verði að aukinni hagkvæmni í innkaupum, með aukinni samræmingu,  rammasamningum og notkun örútboða þvert á svið og stofnanir borgarinnar í þeim vöru- og þjónustuflokkum þar sem tækifæri eru til að ná fram sparnaði.

Til að styðja við aðgerðaáætlun verður  stofnaður stýrihópur  samhliða því að hagræðingarhópar taka til starfa á fagsviðunum og í miðlægri þjónustu. Starfstími stýrihóps og hagræðingarhópa er frá 1. desember 2015 til 31. desember 2017.  Í stýrihópi eiga sæti oddvitar allra flokka í borgarstjórn, borgarritari, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og skrifstofustjóri SEA.

Í hagræðingarhópum eigi sæti sviðsstjórar, fjármálastjórar fagsviða, skrifstofustjórar fagskrifstofa, fulltrúar fjármálaskrifstofu ráðhúss, auk annarra.