Erró afmæli - ókeypis í Hafnarhúsið 19. júlí

Viðamikil dagskrá verður í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi í tilefni af áttræðis afmælisdegi Errós fimmtudaginn 19. júlí. Ókeypis aðgangur verður í húsið frá kl. 10 - 20 en nú stendur yfr yfirgripsmiklil teikninga sýning Errós, sem spannar allan feril listamannsins. Auk þess verða hinir forláta postulíns tepottar, sem Erró gaf safninu nýlega til sýnis ásamt gríðarstórum málverkum sem hann vann þá út frá.

Í Hafnarhúsinu stendur einnig yfir sýningin „Sjálfstætt fólk" en á afmælisdeginum kl. 17 verður kynnt til sögunnar nýtt myndbandsverk sem er hluti af innsetningu Kling og bang hópsins. Botninn verður svo sleginn í afmælisdaginn með göngu um miðbæinn sem hefst kl. 20, en þar er sjónum beint að listamannareknum rýmum og öðrum afdrepum listamanna í miðborginni.

Erró er nú staddur á spænsku eyjunni Formentera en þann 1. september næstkomandi verður stórafmælinu fagnað að viðstöddum listamanninum. Af því tilefni verður opnuð stærsta grafík sýning á verkum Errós til þessa, en undanfarin þrjú ár hefur Danielle Kvaran sýningarstjóri unnið að undirbúningi hennar með skráningu á öllum grafíkverkum Errós. Nánar verður tilkynnt um afmælisdagskránna í september þegar nær líður.

Allir eru velkomnir í Hafnarhúsið til að fagna afmælisdegi Errós, en þar eru einnig fáanlegir minjagripir sem unnir hafa verið út frá verkum hans og fjölbreytt úrval áritaðra grafíkverka. Andvirði grafíkverkanna rennur í sjóð sem Erró stofnaði í nafni Guðmundu Kristinsdóttur, móðursystur sinnar og úthlutað er úr árlega til framúrskarandi kvenna í myndlist.