Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu skáldsins Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð þremur einstaklingum sem les öll innsend handrit og velur verðlaunahafa. Skrifstofa Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO hefur umsjón með verðlaununum.
Í ár bárust 111 handrit. Dómnefnd hefur nú lokið störfum og hefur verið haft samband við höfund þess handrits sem hlýtur verðlaunin í ár. Öllum handritum sem bárust verður eytt, í samræmi við verklag og persónuverndarsjónarmið.
Verðlaunin verða veitt í Höfða í október og verður þá gert opinbert hver hlýtur verðlaunin árið 2025.
Hvernig tek ég þátt?
Handritum skal skilað rafrænt á .pdf-formi hér á síðunni og verður það hægt til 1. maí 2025. Handritin eru geymd á læstu svæði og eytt tveimur vikum eftir að dómnefnd hefur komist að niðurstöðu. Nafnleynd höfunda verður eftir sem áður tryggð í þessu ferli, þar sem innsendingarnar verða unnar í aðgangsstýrðu kerfi sem tryggir að dómnefnd fær handritin einungis merkt dulnefnum, rétt eins og áður.
Hver á útgáfuréttinn?
Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með.
Hver eru verðlaunin?
Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé ásamt viðurkenningunni sjálfri. Það er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega í vetrarbyrjun. Árið 2025 verður upphæð verðlaunanna 1.000.000 krónur.
Hvernig er dómnefnd skipuð?
Dómnefnd verðlaunanna er skipuð af menningar-, íþrótta- og tómstundaráði til eins árs í senn. Hana skipa þrír fulltrúar, þar af einn samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, annar samkvæmt tilskipun Félags íslenskra bókaútgefenda og þriðji samkvæmt skipun Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO, sem jafnframt skipar formann.
Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert þeirra verka sem borist hafa fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka, má fella verðlaunaafhendinguna niður það ár.