Vistvænni samgöngur

Mikil áhersla er lögð á að bæta aðstæður fyrir vistvænar samgöngur í hverfisskipulagi og draga úr ónæði af akandi umferð. Aukin notkun vistvænna ferðamáta helst í hendur við markmið um sjálfbær hverfi með aukinni verslun og þjónustu í blandaðri og þéttri byggð.

Öruggar tengingar

Eitt helsta markmið hverfisskipulags er að bæta aðstæður fyrir virka samgöngumáta, það er að segja gangandi og hjólandi vegfarendur og notendur strætó. Til að fjölga þeim sem fara um gangandi og hjólandi þarf að skilgreina öruggar og þægilegar leiðir og draga eins og kostur er úr ónæði frá umferðarþungum götum. Þess vegna er í hverfisskipulagi skilgreint hvar eru mikilvægar tengingar á milli hverfa fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem leggja þarf áherslu á að séu öruggar og góðar.

Göngu- og hjólastígar

Á hverfisskipulagsuppdrætti er sýnd lega göngu- og hjólastíga. Skipulagið skilgreinir auk þess mikilvægustu göngu- og hjólastígatengingar innan hverfis og hvar þörf er á uppbyggingu nýrra stíga. Almennt eru stígar samnýttir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en á tilteknum svæðum getur verið þörf á að aðskilja þessa samgöngumáta til að tryggja öryggi, ekki síst á þeim leiðum sem skilgreindar eru sem stofnleiðir hjólreiða í borginni.

 

Til að hvetja til notkunar á vistvænum ferðamátum er í hverfisskipulagi lögð áhersla á að við skólabyggingar sé góð aðstaða til að geyma hjól. Í Reykjavík er í gildi bíla- og hjólastæðastefna sem segir til um hversu mörg hjólastæði eigi að vera að lágmarki við skólabyggingar og atvinnuhúsnæði.

Almenningssamgöngur

Þó útfærsla á leiðaneti Strætó sé ekki verkefni hverfisskipulags eru mikilvægustu biðstöðvar og leiðir almenningssamgangna í hverju hverfi kortlagðar og merktar í skipulaginu. Heildstætt leiðanet Strætó og Borgarlínu mun eiga mikinn þátt í þróun skipulags og uppbyggingar í borginni á næstu árum og gegna lykilhlutverki í að minnka hlutfall ferða sem farnar eru á einkabíl. Í hverfisskipulagi er jafnframt lögð höfuðáhersla á að aðgengi að biðstöðvum sé tryggt fyrir alla, óháð hreyfigetu.

Borgargötur

Í hverju hverfi eru skilgreindar sérstakar borgargötur. Borgargötur eru lykilgötur innan hvers hverfis, við þær eru gjarnan verslunar- og þjónustukjarnar og jafnvel aðkoma að skólum og öðrum mikilvægum stofnunum í hverfinu. Borgargötur geta sömuleiðis verið mikilvæg tenging milli hverfa og hverfishluta.

 

Í hverfisskipulagi er lögð sérstök áhersla á að umhverfi borgargatna verði fegrað og að gert sé ráð fyrir öllum samgöngumátum við þær en að gangandi vegfarendur séu í forgangi. 

Bílastæði

Með því að halda aftur af fjölgun bílastæða og stækkun gatnakerfis má minnka hvatann fyrir því að bíllinn verði fyrir valinu við flestar ferðir og um leið verður betra og meira aðlaðandi að fara um gangandi og hjólandi. 

 

Heimildir lóðarhafa fyrir bílastæðum færast yfir í hverfisskipulag. Hins vegar er lögð áhersla á það í skipulaginu að halda aftur af fjölgun nýrra bílastæða og að auka samnýtingu þeirra. Þar sem umfangsmikil uppbygging er heimiluð fyrir nýjar íbúðir eða atvinnurými, svo sem á lóðum fjölbýlishúsa eða hverfiskjarna, skal fjöldi bílastæða vera samkvæmt bíla- og hjólastæðareglum sem eru í gildi í Reykjavík