Uppbyggingaráætlun | Reykjavíkurborg

Þann 14. október 2013 voru lagðar fram og samþykktar sautján útfærðar tillögur stýrihóps Reykjavíkurborgar um innleiðingu húsnæðisstefnu. Helstu áherslur stýrihópsins voru bygging 2.500-3.000 nýrra leigu- og búseturéttaríbúða á næstu 3 – 5 árum með áherslu á samvinnu við traust bygginga- og húsnæðissamvinnufélög, á að nýta reynslu og þekkingu Félagsbústaða og á nýjar lausnir í hönnun og hugsun um íbúðarhúsnæði í þéttri byggð.

Í gildi er húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar og ákvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um fjöl­breytt framboð húsnæðiskosta og aukið framboð húsnæðis fyrir alla félagshópa og félagslega fjöl­breytni innan hverfa. Stuðlað skal að félagslegri blöndun íbúa og uppbyggingu leigumarkaðar. Stefnt verði að því að um 25% íbúða í hverfum verði leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, félagslegar leiguíbúðir, íbúðir fyrir aldraða og sértæk búsetuúrræði.

Uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar var lögð fyrir borgarráð 12. október 2017. Fyrri  húsnæðisáætlun Reykjavíkur var samþykkt í borgarstjórn þann 6. júní 2017 ásamt tillögum í húsnæðismálum. Samkvæmt henni er stefnt að því að hafin verði uppbygging á um 7.000 íbúðum fram til ársloka 2020. Þar af er gert ráð fyrir vel yfir 3.000 íbúðum á vegum leigu- og húsnæðisfélaga.

Uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík voru gerð skil á sem borgarstjórinn í Reykjavík bauð til á málþingi þann 13. október 2017.

Hér má sjá yfirlit yfir stöðu íbúðauppbyggingar í Reykjavík. Í yfirlitinu má sjá uppbyggingarreiti á vegum Reykjavíkurborgar og aðra reiti sem borgin hlutast til með beinum hætti um gerð íbúða. Einnig reitir einkaaðila, bæði á skipulagi, í skipulagsferli og þróunarsvæði.

Á fundi borgarráðs þann 31. ágúst 2017 var samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að leita tímabundinna lausna til aukningar á félagslegu húsnæði í Reykjavík, í samræmi við samþykkt velferðarráðs og húsnæðisáætlun borgarinnar. Að höfðu samráði við velferðarsvið og umhverfis- og skipulagssvið skal skrifstofan gera tillögur til borgarráðs um að taka húsnæði á leigu í þrjú til fimm ár. Ennfremur að kaupa húsnæði til að nota um lengri eða skemmri tíma sem félagslegt húsnæði. Þegar ekki verða lengur not fyrir það má selja það aftur, byggja nýtt í kjölfar breytinga á skipulagi eða breyta húsnæði til annarra nota. Þessu húsnæði verður úthlutað til umsækjenda af biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Um verður að ræða tímabundna lausn þar til viðkomandi einstaklingar og fjölskyldur fá úthlutað húsnæði á vegum Félagsbústaða Reykjavíkurborgar. 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

13 + 6 =