Umhverfisfræðsla

Fræðsla um náttúrufar Reykjavíkur, umhverfismál, útikennslu og fleira er mikilvægur hluti af fræðslustarfi Reykjavíkurborgar og koma margir aðilar og stofnanir innan borgarinnar að umhverfisfræðslu. 

  • ""

Fjögur svið borgarinnar koma að umhverfisfræðslu með einu eða öðru móti:  Skóla- og frístundasvið, Umhverfis- og skipulagssvið, Menningar- og ferðamálasvið og Íþrótta- og tómstundasvið.

Fjölbreytt fræðslustarf um náttúru Reykjavíkur og umhverfismál  fer fram  í grunn- og leikskólum borgarinnar sem eru á vegum Skóla- og frístundasviðs en auk þess stýrir sviðið starfsemi Náttúruskóla Reykjavíkur og kemur að fræðsluverkefninu Lesið í skóginn. Umhverfis- og skipulagssvið fer með umsjón með stefnumótun Reykjavíkur í umhverfismálum, stýrir umhirðu borgarlandsins og sinnir eftirliti með náttúrufari borgarinnar. Því er fræðsla um störf sviðsins að nær öllu leyti umhverfisfræðsla en einnig sinnir sviðið sérstökum fræðsluverkefnum um náttúru Reykjavíkur og umhverfismál fyrir almenning og sérstaka markhópa eins og skólabörn og sumarstarfsfólk Vinnuskólans. Íþrótta- og tómstundasvið hefur umsjón með starfi Fjölskyldu- og húsdýragarðsins en þar fer fram fjölbreytt fræðsla. Fræðsla um náttúrufar er reglulegur hluti af fræðsludagskrá í Viðey en Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur hefur umsjón með allri helstu starfsemi í Viðey.

Náttúruskóli Reykjavíkur

Náttúruskólinn hefur það að markmiði styðja við menntun til sjálfbærni og að efla útinám og umhverfismennt í leik- og grunnskólum og frístundastarfi. Í því tilliti býður skólinn upp á fjölbreytta fræðslu og ráðgjöf um menntun til sjálfbærni, útinám og umhverfismennt.
Náttúruskóli Reykjavíkur er samstarfsverkefni Umhverfis- og skipulagssviðs og Skóla- og frístundasviðs.

Lesið í skóginn

Lesið í skóginn er fræðsluverkefni sem Skógrækt Ríkisins stjórnar í samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, Náttúruskóla Reykjavíkur, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og ýmsum leik- og grunnskólum. +

Verkefnið skiptist í tvo hluta: Annars vegar er um að ræða námskeiðin Lesið í skóginn - tálgað í tré sem eru almenn námskeið um samþætt verkefni í ferskum skógarnytjum, skógarhirðu og tálgutækni. Hins vegar Lesið í skóginn með skólum sem miða að því að þróa verkefni í samþættu útinámi sem tengjast öllum námsgreinum í skólastarfi.

Reykjavík - iðandi af lífi

Reykjavík - iðandi af lífi er fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík. Fræðsluátakið samanstendur af fræðsluviðburðum og útgáfu á fræðsluefni fyrir almenning með áherslu á hið fjölbreytta lífríki og margvíslegu vistkerfi sem finnast í Reykjavík.

Fræðslustarf Grasagarðs Reykjavíkur

Grasagarður Reykjavíkur stendur fyrir öflugu fræðslustarfi allt árið um kring fyrir almenning og skólahópa. Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.

Umhverfisfræðsla Vinnuskóla Reykjavíkur

Vinnuskólinn er þátttakandi í alþjóðlega verkefninu Skólar á grænni grein sem Landvernd heldur utan um hér á Íslandi. Verkefninu er ætlað að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Grænir fræðsluleiðbeinendur starfa í hverju hverfi og fara á milli hópa og kynna nemendum umhverfsmál með fjölbreyttum hætti.

Fræðslustarf Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn stendur fyrir fjölbreytilegri fræðslu fyrir alla fjölskylduna um dýrin í Húsdýragarðinum og tengsl manna og dýra í ljósi sjálfbærar þróunar. Boðið er upp á fjölbreytileg námskeið fyrir ólíka aldurshópa.

Umhverfisfræðsla í Viðey

Í Viðey fer fram fjölbreytilegt fræðslustarf sem nær hámarki á sumrin með þriðjudagskvöldgöngum sem meðal annars hafa varpað ljósi á náttúrufar eyjarinnar og Reykjavíkur allrar. 

Útgefið fræðsluefni

Árlegir fræðsluviðburðir

Reykjavík er reglulegur þátttakandi í árlegum viðburðum tengdum umhverfismálum svo sem Degi íslenskrar náttúru, Nýtniviku og Samgönguviku.

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 0 =