Tilraunaverkefnið „sveigjanleiki í þjónustu – frá barni til fullorðins“ | Reykjavíkurborg

Tilraunaverkefnið „sveigjanleiki í þjónustu – frá barni til fullorðins“

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar auglýsir eftir þátttakendum í tilraunaverkefnið sveigjanleiki í þjónustu –frá barni til fullorðins sem byggir á aðgerðaáætlun með stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum 2013-2024.

  • ""

Tilraunaverkefninu er ætlað að létta álagi af fjölskyldum ungmenna sem þurfa mikla þjónustu án þess að þau þurfi að flytjast af heimili sínu meðan tilraunaverkefnið stendur yfir. Með því móti er hægt að auðvelda aðlögun ungmennis og fjölskyldu þess að búsetu á eigin heimili.

Til að geta sótt um þátttöku í tilraunaverkefninu þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Eiga lögheimili í Reykjavík.
  • Vera á aldrinum 17-22ja ára þegar sótt er um.
  • Vera fatlaður í skilningi laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992.
  • Vera búsettur í foreldrahúsum.
  • Eiga gilda umsókn á biðlista um sértækt húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og þjónustuþörf hans skal vera metin í flokk III samkvæmt verklagi þar að lútandi, þ.e.a.s. metinn í þörf fyrir sólarhringsþjónustu.
  • Vera metinn til hámarksþjónustu samkvæmt reglum um félagslega heimaþjónustu í Reykjavík og reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík.

Sótt er um á sérstöku umsóknareyðublaði hjá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Við val á þátttakendum er m.a. horft til mismunandi þjónustuþarfa, húsnæðisaðstöðu og virkni umsækjenda. Jafnframt er tekið mið af þeim aðstæðum sem valda því að mikilvægt sé að umsækjandi sé í mikilli nánd við foreldra sína.

Vakin er athygli á því hjá þeim sem veljast í tilraunaverkefnið, að liðveisla, frekari liðveisla og skammtímavistun, sem veitt er á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og félagsleg heimaþjónusta sem veitt er á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 fellur niður meðan á tilraunaverkefninu stendur.

Þeir sem taka þátt í tilraunaverkefninu munu sjálfir ráða til sín starfsfólk og annast skipulag þjónustunnar. Um tilraunaverkefnið fer nánar samkvæmt reglum sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 2. febrúar 2017 og fundi borgarráðs þann 9. febrúar 2017. Hægt er að nálgast reglurnar á þjónustumiðstöðvum eða vef borgarinnar.

Umsóknarfrestur er til og með 15. mars næstkomandi

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

6 + 14 =