Veggjakrot er skemmdarverk | Reykjavíkurborg

Veggjakrot er skemmdarverk

Veggjakrot er alþjóðlegt vandamál og þarf að nálgast sem slíkt í samvinnu og samstarfi fjölda hagsmunaaðila. Markmiðið er að standa sameiginlega að hreinni borg, bættu viðhaldi og góðri umgengni.

 

Veggjakrot í borginni

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar sér um hreinsun veggjakrots á:

● fasteignum borgarinnar, þar á meðal grunn- og leikskólum;
● umferðarmannvirkjum, þar á meðal undirgöngum, umferðarbrúm og hljóðmönum;
● götugögnum, en það eru bekkir, ruslastampar, ljósastaurar, stöðumælar og umferðarskilti;
● leiktækjum, utanhúss við leikskóla og á gæsluvöllum og opnum leiksvæðum í eigu borgarinnar;
● ýmsum mannvirkjum á opnum svæðum í alfaraleið;
● útilistaverkum á opnum svæðum og á lóðum stofnana borgarinnar.

Umhverfis- og skipulagssvið vinnur einnig náið með rekstareigendum og húseigendum við að bregðast við og mála yfir skemmdarverk af völdum veggjakrots. Mikilvægt er þó að hafa í huga að í öllum tilfellum þarf samþykki og samvinnu eiganda húsnæðisins.

Skemmdarverk af völdum veggjakrots er kostnaðarsamt fyrir alla!

Veggjakrot kostar borgina og íbúa milljónir á ári hverju. Árið 2016 var kostnaðurinn sem hér segir:

Kostnaður við hreinsun veggjakrots 2016  
Hreinsun á borgarlandi og mannvirkjum Reykjavíkurborgar 15.306.374,-
Hreinsun á mannvirkjum í einkaeigu 4.573.854,-
Samtals: 19.880.228,-

Látum okkur málin varða!

Besta ráðið gegn veggjakroti er að bregðast strax við með því að hreinsa og/eða mála yfir krotið!

Til að við getum brugðist við á skilvirkan hátt þá er mikilvægt að allir leggist á eitt og láti vita af endurteknum krotum. Betur sjá augu en auga ekki satt? Það er því vel þegið að fá senda inn tilkynningar um veggjakrot í gegnum ábendingavefinn

Skemmdarverk af völdum veggjakrots í miðborginni

Það hefur verið sérlega mikið álag á fasteignum og munum í miðborginni. Verkefnastjóri Miðborgarmála ásamt umhverfis og skipulagssviði vinna saman að því að vinna með íbúum og fasteignaeigendum í miðborginni. 

Samvinna milli borgaryfirvalda og íbúa/fasteignaeiganda er mikilvæg og lykillinn að árangri er að tekin séu fyrir ákveðin svæði í staðinn fyrir að ein og ein bygging hreinsi hjá sér. Skemmdarverk af völdum veggjakrots smitar hratt út frá sér í nærliggjandi hús.  Það er því velkomið að senda tölvupóst eða skilaboð í gegnum facebook síðu miðborgarinnar, eftir að ábending hefur verið send inn, ef óskað er eftir frekari eftirfylgni eða vinnu með svæðið. Númer ábendingar þarf að fylgja með.

Samvinna við íbúasamtök

UmHverfisgöngur Íbúasamtaka Miðborgar er tilraunaverkefni þar sem farið er í göngur um afmörkuð svæði eða götur með þeim tilgangi að auka samráð borgarinnar, íbúa, rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila. Þannig er skoðað hvernig þessir aðilar upplifi nærumhverfið og meðal annars skoðaðar leiðir til að vinna á veggjakroti á svæðinu. Þátttakendur geta auk íbúa verið kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélags á umhverfissviði og aðrir sem bera ábyrgð á hvernig nærumhverfið lítur út. Það felur í sér að fólk gengur saman um hverfið, eftir fyrirfram ákveðinni leið, og skoðar hvernig umhverfið lítur út með tilliti til öryggis og lífsgæða og ræðir hvaða úrbóta sé þörf. Gangan tekur ekki lengri tíma en 1,5 klst og er farin seinni hluta dags á virkum degi og vegalengdin má ekki vera lengri en 3 km. Reykjavíkurborg styrkir verkefnið. Dæmi um árangur af umhverfisgöngu er hreinsunin á Iðnaðarmannareit þar sem fasteignaeigendur og íbúar tóku höndum saman og borgin styrkir verkefnið að hluta.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 2 =