Úrgangsforvarnir | Reykjavíkurborg

Úrgangsforvarnir

Í stefnumótun Reykjavíkurborgar er lögð rík áhersla á að koma í veg fyrir að úrgangur myndist. Með því er dregið úr óþarfa orku- og auðlindanotkun á sama tíma og kostnaður við meðhöndlun úrgangs er lágmarkaður. Úrgangur verður til vegna neysluvenja og framleiðsluferla og hann kostar samfélagið stórar fjárhæðir árlega. Töluverður umhverfislegur kostnaður fylgir einnig úrgangsmyndun. Með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs getum við sparað okkur og umhverfinu mikið álag og kostnað.

Aðgerðir til úrgangsforvarna eru að mestu tvíþættar, þær snúa að neytendum annars vegar og rekstaraðilum hins vegar. Með fræðslu og hagrænum hvötum er hægt að auka meðvitund um að neysluvenjur og framleiðsluferli hafa áhrif á myndun úrgangs.

Reykjavíkurborg hefur í sífellt ríkara mæli sinnt úrgangsforvörnum. Upplýsingaflæði og fræðsla er lykill að úrgangsforvörnum, auk þess sem mikilvægt er að sveitarfélagið sýni gott fordæmi.
 
  • Reykjavíkurborg styrkti Landvernd til að vinna forrannsókn á matarsóun í Reykjavík og lágu niðurstöðurnar fyrir í desember 2015. Þær benda til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.
  • Reykjavíkurborg er í samstarfshópi um matarsóun sem hefur meðal annars tekið saman upplýsingar um matarsóun á heimasíðunni matarsoun.is.
  • Reykjavíkurborg tók m.a. upp Evrópsku nýtnivikuna á Íslandi árið 2011 og hefur tekið þátt síðan. Nýtnivikan er samevrópskt verkefni sem hefur það að markmiði að lágmarka sóun og koma í veg fyrir myndun úrgangs. Verkefnið hefur vaxið ár frá ári og sífellt fleiri aðilar taka þátt en borgin hefur haldið utan um dagskrána.
  • Reykjavíkurborg setti á laggirnar Gæn skref fyrir stofnanir borgarinnar árið 2011 þar sem áhersla er m.a. lögð á að lágmarka úrgang frá stofnunum borgarinnar og flokka úrgang sem til fellur. Ríkið tók upp Grænu skrefin að fyrirmynd Reykjavíkurborgar árið 2013.
  • Álagning gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs er sett þannig upp að sá sem veldur geldur eða samkvæmt mengunarbótareglunni. Íbúar geta valið um fjölda og stærð úrgangsíláta við heimili sitt og gjöldin miðast við það. Þannig verður til hvati fyrir íbúa að minnka magnið sem fellur til og flokka meira og skila til endurvinnslu.

Hafa samband

Tekið er við fyrirspurnum og pöntunum í síma 4 11 11 11 eða á netfangið sorphirda@reykjavik.is. Athugið að hússtjórn fjöleignarhúsa þarf að óska eftir breytingum sem hefur áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Símatími er milli kl. 8:30-9:00 og 13:00-14:00.
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

15 + 3 =