Skólaþjónusta

Börn eru eins ólík og þau eru mörg. Sum börn þurfa á stuðningi að halda til að líða betur og nýta styrkleika sína sem best. Hjá Reykjavíkurborg starfar hópur fagaðila við skóla- og velferðarþjónustu sem veitir börnum og fjölskyldum þeirra markvissa ráðgjöf og stuðning.

Hvaða þjónusta er í boði?

Það er ýmis þjónusta í boði fyrir fjölskyldur sem þurfa á auknum stuðningi að halda. Þjónustan tekur mið af þörfum hvers og eins og getur verið í formi viðtala, funda eða námskeiða fyrir foreldra og börn. Dæmi um hluti sem getur verið gott að fá ráðgjöf og stuðning við eru:

  • Áhættuhegðun
  • Einbeitingarvandi
  • Hegðunarvandi
  • Samskiptavandi
  • Krefjandi heimilisaðstæður
  • Þroski, til dæmis mál- og hreyfiþroski
  • Nám og skólasókn
  • Andlegir erfiðleikar, til dæmis kvíði og depurð

Á ég rétt á skólaþjónustu?

Öll börn sem ganga í leik- og grunnskóla í Reykjavík eiga rétt skólaþjónustu ef þau uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Lögheimili barnsins er í Reykjavík.  
  • Forsjáraðilar og starfsfólk skóla barnsins telja að barnið þurfi á stuðningi að halda til að geta notið leik- eða grunnskólagöngu sem best.

Hvernig sæki ég um skólaþjónustu?

Þú getur óskað eftir skólaþjónustu með því að ræða við deildarstjóra barnsins í leikskóla eða umsjónarkennara barnsins í grunnskóla. Þú getur líka talað beint við aðila úr skólaþjónustu á miðstöð barnsins. Þú getur bókað viðtal hjá ráðgjafa á miðstöð á Mínum síðum borgarinnar.

Hvar fer skólaþjónustan fram?

Markmiðið er að börn fái sem mest af þjónustu í nærumhverfi sínu. Það getur verið bæði innan leik- eða grunnskólans, í formi ráðgjafar og stuðnings á miðstöð og í einhverjum tifellum inni á heimili barnsins. 

Þarf greiningu til að fá ráðgjöf?

Nei. Nánari skoðun getur aukið skilning þinn og skólans á því hvernig sé hægt að mæta þörfum barnsins þíns. Að því sögðu þarf ekki formlega greiningu til þess að barn fái aðstoð í skólanum, heldur á skólinn að leitast við að mæta þörfum allra barna. Greining getur hinsvegar verið forsenda sérhæfðrar þjónustu, lyfjagjafar og umönnunargreiðslna.
 

""

Stuðningsþjónusta

Stuðningsþjónusta er útfærð eftir þörfum hvers og eins. Foreldrar fá stuðning við uppeldishlutverkið og börn fá stuðning til að auka virkni, bæta samskipti og efla sjálfstraust sitt. 

""

Betri borg fyrir börn

Verkefni á vegum skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Markmiðið er að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi og færa þjónustuna í auknum mæli í nærumhverfi þeirra. 

""

Atvinnutengt nám

Fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla sem, vegna sértækra örðugleika annarra en fötlunar, glíma við verulegar áskoranir í námi eða mikla vanlíðan í skóla. Verkefninu er ætlað að bæta líðan nemenda og gefa þeim tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr. 

Getum við aðstoðað?

Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að?

 

Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað þig í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið upplysingar@reykjavik.is.

 

Skólaþjónusta er veitt á grundvelli eftirfarandi laga og reglna:

Svör við algengum spurningum er að finna á Spurt og svarað um skólaþjónustu.