Reykjavík bókmenntaborg UNESCO | Reykjavíkurborg

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO

Reykjavík var útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO í ágúst 2011. Titillinn er varanlegur, en í honum felst mikil viðurkenning á stöðu bókmenningar í Reykjavík og gildi orðlistar bæði í sögu og samtíð. Reykjavík var fimmta borgin í heiminum til að hljóta titilinn og sú fyrsta sem ekki tilheyrir ensku málsvæði.

Heimasíða Bókmenntaborgarinnar.

Bókmenntahefð Reykjavíkur

Í útnefningunni segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefndar sérstaklega. Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta nú.  Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af jafn miklum krafti og raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda.

Samvinna og viðburðir

Sem Bókmenntaborg UNESCO leggur Reykjavíkurborg áherslu á góða samvinnu við alla þá mörgu aðila sem koma að bókmenningu í borginni, því Bókmenntaborgin Reykjavík er fyrst og fremst sameign þeirra allra svo og íbúa borgarinnar.

Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur hýsir verkefnið Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og er skrifstofa Bókmenntaborgarinnar á skrifstofu sviðsins á Vesturgötu 1.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 0 =