Listhópar Hins hússins | Reykjavíkurborg

Listhópar Hins hússins

Listhópar Hins hússins eru starfræktir yfir sumartímann ár hvert. Hópum eða einstaklingum býðst þá að starfa í 8 vikur við framkvæmd eigin verkefna á sviði lista. Verkefni eru afar fjölbreytt og eru sýnileg vegfarendum Reykjavíkurborgar yfir sumarið. Störfin eru einungis fyrir fólk á aldrinum 17 - 25 ára með lögheimili í Reykjavík.

Heimasíða Hins hússins.
Listhóparnir á Facebook.

Hvað eru Listhópar Hins hússins?

Listhópar Hins hússins eru starfræktir yfir sumartímann ár hvert. Ungu fólki gefst kostur á að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi verkefnum og valdir hópar eða einstaklingar fá síðan tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum í 8 vikur. Þessi verkefni eru afar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg og eru sýnileg vegfarendum Reykjavíkurborgar yfir sumartímann.

Listafólkið stundar margt hvert nám við Listaháskóla Íslands eða við aðra listaskóla á háskólastigi og má því segja að margir séu komnir vel á veg með að gerast fagfólk í listum. Suma hópa skipar yngra fólk sem er að feta sig áfram á listbrautinni og eru verkefni þeirra ekki síður hugmyndarík og áhugaverð.

Hvernig er sótt um hjá Listhópunum?

Árlega er auglýst eftir þátttakendum í Listhópunum ásamt öðrum sumarstörfum Reykjavíkurborgar. Störfin eru einungis fyrir aðila á aldrinum 17 - 25 ára með lögheimili í Reykjavík.

Hópum eða einstaklingum býðst að starfa í 8 vikur við framkvæmd eigin verkefna á sviði lista. Skila þarf inn útprentuðum umsóknum til Hins hússins í Pósthússtræti 3 - 5, 101 Reykjavík. Einnig þarf að sækja um rafrænt á www.reykjavik.is/sumarstorf. Umsóknum þarf að fylgja:

 • greinargóð lýsing á verkefninu, umfangi þess og markmiðum;
 • tíma- og verkáætlun verkefnisins;
 • fjárhagsáætlun;
 • upplýsingar um aðstandendur verkefnisins og tilgreina þarf einn aðila sem tengilið verkefnisins.

Athugið að eingöngu eru laun greidd til einstaklinga en ekki er um að ræða aðra fjármögnun á verkefninu sjálfu. 

Afgreiðsla umsókna

Fjögurra manna nefnd skipuð forstöðumanni Hins hússins, deildarstjóra menningarmála Hins hússins, fulltrúa frá LHÍ og einum utankomandi aðila tengdum menningu og listum fer yfir umsóknirnar og velur ákjósanleg verkefni. Þættir sem nefndin hefur meðal annars til hliðsjónar við verkefnaval eru sem hér segir:

 • Markmið, verkáætlun og framkvæmd.
 • Frumleiki hugmyndarinnar.
 • Samfélagsleg vídd verkefnisins.
 • Reynsla umsækjenda.
 • Fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins sé tryggður.
 • Fjölbreytni í verkefnavali/ vægi á milli listgreina - málaflokka.
 • Kynjahlutfall umsækjenda.
 • Gæði umsóknarinnar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Nánari upplýsingar varðandi Listhópa Hins hússins má fá hjá menningardeild Hins hússins í síma 411 5526.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

7 + 6 =