Leyfi til afnota af borgarlandi, Afnotaleyfi | Reykjavíkurborg

Leyfi til afnota af borgarlandi, Afnotaleyfi

Sækja verður um leyfi til afnota af borgarlandi, en til þess teljast allar götur, gangstéttar, stígar, opin svæði, almenningsgarðar og torg.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar vandlega og leita nánari upplýsinga ef eitthvað er óljóst.
 
Verið er að innleiða tölvukerfi sem heldur utan um öll afnotaleyfi á borgarlandinu. Innleiðingin er gerð í tveimur áföngum og er fyrsta áfanga að ljúka. 
 
NÝTT - Sækja þarf um afnotaleyfi ef það þarf að grafa í borgarlandið sem og fyrir öllum byggingaframkvæmdum sem rjúfa yfirborð, þ.e.a.s. allt sem lýtur að greftri, fræsingu, borun, fleygun eða endurgerð yfirborðs í gegnum rafrænt umsóknar og afgreiðsluferli, sjá nánari upplýsingar hér fyrir neðan. 
 
Sækja þarf um afnotaleyfi fyrir vinnupöllum, vinnulyftum, gámum, kvikmyndatökum og viðburðum eins og keppnum, göngum, tónleikum og öðrum skemmtunum með því að senda tölvupóst. Rafrænt umsóknarferli er ekki hafið fyrir þessi leyfi, sjá allar nánari upplýsingar hér fyrir neðan. 

 

Afnotaleyfi fyrir rofi á yfirborði borgarlands (áður Graftrarleyfi). 

Sækja þarf rafrænt um afnotaleyfi ef rjúfa þarf yfirborð borgalandsins. Þetta á við um allar viðgerðir og framkvæmdir þar sem þarf að grafa og síðan endurgera yfirborð á götum, gangstéttum, stígum og á opnum/grænum svæðum.

Áður en sótt er um afnotaleyfi til að rjúfa yfirborð þurfa eftirfarandi gögn að liggja fyrir (ef við á) - leyfin eru ekki afgreidd nema þau gögn sem eiga við fylgi umsókn. Umsækjendur þurfa sjálfir að afla sér gagnanna. 

 • Lagnateikningar: Hægt er að sækja um lagnateikningar á mjög auðveldan og fljótlegan hátt á heimsíðu Veitna og Mílu 
 • Panta lagnateikningar frá Veitum 
 • Panta lagnateikningar frá Mílu 
 • Merkingaráætlun er varðar afmörkun vinnusvæðis - ef loka eða skerða þarf aðgengi á götum eða á gangstéttum/stígum. Sjá nánari útskýringar hér að neðan.
 • Dagsett ljósmynd sem sýnir yfirlit og yfirborð borgarlands af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði
 • Leyfi bílastæðasjóðs ef um afnot af gjaldskyldum stæðum er að ræða. Sækja skal um afnot bílastæða á netfanginu: bilastaedasjodur@bilastaedasjodur.is 
 • Framkvæmdaleyfi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur ef við á. Sjá nánar hér
 • Greinargerð vegna byggingaframkvæmda sem krefjast afnota af borgarlandi, sbr. málsettar teikningar af framkvæmdasvæði og framkvæmdaáætlun ef um áfangaskiptingu er að ræða

Þegar sótt er rafrænt um afnotaleyfi hefur umsækjandi samþykkt skilmála, þá má finna hér.   

Öll vinnusvæði/framkvæmdir sem vara lengur en í sjö daga verða að uppfylla ákvæði um upplýsingaskilti og útlit vinnusvæðagirðinga. Hér er að finna skapalón fyrir eitt skilti og tvö skilti. Fjöldi upplýsingaskilta fer eftir stærð vinnusvæðis. 

Leyfishafi skal ávallt tilkynna lok framkvæmda og öllum yfirborðsfrágangi borgarlands skal vera hagað í samræmi við kröfur leyfisveitanda. Framkvæmd skal vera botnfyllt og tilbúin til yfirborðsfrágangs sem alfarið er í umsjón Reykjavíkurborgar. Leyfishafi ber allan kostnað af yfirborðsfrágangi - upplýsingar um viðmiðunareiningaverð vegna yfirborðsfrágangs er að finna hér

Sækja um afnotaleyfi fyrir rofi á yfirborði 

Önnur afnotaleyfi af borgarlandi

Rafrænt umsóknarferli fyrir önnur afnotaleyfi en er varða gröft og framkvæmdir er ekki hafið. Sækja þarf um afnotaleyfi vegna viðburða eða annarrar notkunar á borgarlandi með því að senda tölvupóst  á afnotaleyfi@reykjavik.is  Allar nánari upplýsingar er að finna hér fyrir neðan. 
 
Þetta á við um:
 • staðsetningu á vinnupöllum og vinnulyftum
 • staðsetningu á krönum og stærri vinnutækjum
 • staðsetningu á gámum
 • samkomur
 • útifundi
 • útitónleika
 • fjöldagöngur og aðra viðburði 
 • kvikmyndatöku
 • Útiveitingasvæði

Upplýsingar í umsókn

Mjög mikilvægt er að eftirfarandi upplýsingar fylgi með í umsókn um afnotaleyfi:

 • Nafn á leyfishafa og kennitala, sími og netfang (þetta getur verið einstaklingur, fyrirtæki, félag eða stofnun)
 • Nafn ábyrgðarmanns og kennitala, sími og netfang (Einstaklingur sem ber ábyrgð fyrir hönd leyfishafa. Getur verið sá sami og leyfishafi).
 • Staðsetning – landnotkun (Götunafn eða nöfn eða önnur kennileiti)
 • Lýsing (Greinargóð lýsing á tilefni umsóknar og eðli hennar)
 • Merkingaráætlun (Ef loka þarf götu og/eða gangstétt eða skerða umferð þarf að skila inn merkingaráætlun) 
 • Fylgiskjöl (Afstöðumynd eða kort, tímasett áætlun og önnur gögn er varða leyfisumsókn)
 • Gildistími (Tímasetning framkvæmdar eða óskar um landnotkun)

Sótt er um með tölvupósti á netfangið afnotaleyfi@reykjavik.is - mikilvægt er að upplýsingarnar hér að ofan fylgi umsókn - ef ófullnægjandi upplýsingar fylgja með umsókninni getur það tafið afgreiðslu leyfisins.  

Símaviðtalstímar afnotaleyfa

Símaviðtalstímar varðandi afnotaleyfi eru eftirfarandi:
• Mánudaga kl. 11:00 – 12:00
• Þriðjudaga kl. 13:00 – 14:00
• Miðvikudaga kl. 11:00 – 12:00
• Fimmtudaga kl. 13:00-14:00

Ef nauðsynlega þarf að ná tali af starfsfólki sem sér um afnotaleyfi utan símatíma er hægt að hringja í þjónustuver í síma 411-1111 og skilja eftir skilaboð eða senda fyrirspurn á afnotaleyfi@reykjavik.is 

Hvað kostar að fá leyfi fyrir afnotum af borgarlandi?

Fyrir útgáfu afnotaleyfis er innheimt sérstakt gjald samkvæmt gjaldskrá sem borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir.

Gjaldið skal standa undir þeim kostnaði sem verður til vegna útgáfu afnotaleyfis og fer því eftir umfangi. Almennt gjald er 21.050 kr. en heimilt að lækka það niður í 5.100 kr ef umfang er lítið (gjaldskrá 2018). Að sama skapi er heimilt að taka aukagjald sé útgáfa leyfis umfangsmeiri en nemur almennu gjaldi.

Í gjaldskrá fyrir afnotaleyfi segir m.a.:

 • 3. gr. Við útgáfu afnotaleyfis í borgarlandinu skal innheimta viðmiðunargjald sem nemur kr. 21.050.- fyrir hvert útgefið leyfi. Sé útgáfa afnotaleyfis umfangsminni en sem nemur gjaldinu er skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins heimilt að lækka gjaldið í allt að kr. 5.100 og að sama skapi taka aukagjald, samkvæmt gjaldskrá útseldrar vinnu umhverfis- og skipulagsviðs Reykjavíkur, sé útgáfa afnotaleyfis umfangsmeiri en sem nemur viðmiðunargjaldinu.
   
 • 4. gr. Lækkun gjalds er heimil þegar vinna að útgáfu afnotaleyfis er sannarlega undir viðmiðunargjaldi kr. 21.050. Í þeim tilfellum er um að ræða minniháttar afnot, t.d. búslóðaflutningar, litlar hverfahátíðar, góðgerðarsölur og viðhald húseigna.

Skoða gjaldskrá 

Hvað tekur afgreiðsla umsóknar langan tíma? 

Umsækjendur verða að hafa í huga að leita getur þurft umsagnar annarra sem málið varðar, svo sem hjá lögreglu, Strætó bs., Bílastæðasjóði, næstu nágrönnum og hagsmunaaðilum. Slíkt getur tekið tíma og má því gera ráð fyrir að afgreiðsla erindis geti tekið allt 3 - 8 virkum dögum þegar erindi er minniháttar upp í mánuð ef gera má ráð fyrir miklum inngripum í umferð og áhrifum á nærumhverfið.  Stórviðburðir kalla á sérstakt samráð og lengri afgreiðslutíma. 

1. Almenn afnotaleyfi – minni framkvæmdir og viðburðir
Þegar breyting eða inngrip í umferð sem felur í sér lokun og/eða þrengingu götu, göngu- eða hjólastígs og/eða afnot af borgarlandi í skemmri tíma en einn dag, má gera ráð fyrir að afgreiðsla umsóknar taki 3 - 8 virka daga frá því gild umsókn berst.

2. Aukin inngrip í umferð og áhrif á nærumhverfið
Þegar umsókn felur í sér breytingu eða inngrip á umferð sem felur í sér lokun og/eða þrengingu götu, göngu- eða hjólastígs og/eða afnot af borgarlandi frá 1 degi og lengur, má gera ráð fyrir að afgreiðsla umsóknar taki 9 - 30 virka daga frá því gild umsókn berst.
Gerð er krafa um ítarlega vinnusvæðateikningar, tímasetta framkvæmdaáætlun og samráðsfund eftir atvikum o.fl.

3. Stærstu framkvæmdir og viðburðir
Þegar sótt er um stórar svæðisbundnar framkvæmdir samkvæmt aðalskipulagi eða stærstu viðburði í borgarlandinu eða sambærilegt sem hefur meiriháttar áhrif í borgarlandinu og umferð vegfarenda kallar það á sérstakt samráðsferli við skrifstofu reksturs og umhirðu. Hér er mikilvægt að láta vita með góðum fyrirvara svo hægt sé að meta umfang viðburðar og gera ráðstafanir

Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem fá heimild til afnota af borgarlandi? 

Þegar heimiluð eru afnot af borgarlandi í margvíslegum tilgangi getur það haft í för með sér ýmsar hættur. Viðkomandi leyfishafa eru því sett skilyrði sem ætlað er að tryggja öryggi og að umferð gangandi, akandi og hjólandi vegfarenda við framkvæmdasvæðið og borgarlandið sjálft raskist sem minnst. Auk þess er lögð áhersla á að vegfarendur og íbúar séu upplýstir um framkvæmdina og verklok hennar með greinargóðum merkingum á framkvæmdasvæðinu. Sjá nánar í skilmálum afnotaleyfa hér að ofan. 
 

Merkingaráætlun er varðar afmörkun á vinnusvæði

Ef framkvæmd getur valdið tímabundinni röskun og hættu á því svæði sem unnið er á eða við veg þá skal leyfishafi skila inn Merkingaráætlun er varðar afmörkun á vinnusvæði, þ.e. hvernig merkingum á og við svæðið skuli háttað og hvort og hvernig skipuleggja skuli hjáleiðir, Merkingaráætlun skal unnin af aðila með gild réttindi.
 
Ávallt skal uppfylla kröfur um umferðarmerkingar við framkvæmdasvæði eða viðburð. Sjá reglur Reykjavíkurborgar: Merkingar á vinnusvæðum og vegna viðburða.

Gott er að hafa í huga . . .

 • Að þeir sem vilja fá afnot af almenningsgörðum og torgum, svo sem Hljómskálagarðinum, Arnarhól, Austurvelli, Lækjartorgi, Ingólfstorgi og skrúðgörðum í Laugardal, verða einnig að sækja um afnotaleyfi.
 • Að þeir sem vilja fá leyfi til veitinga utanhúss og staðsetningar veitingaborða á gangstétt verða að sækja um slíkt hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík.
 • Reykjavíkurborg hvetur framkvæmdaaðila til að flokka endurvinnsluefni frá blönduðum úrgangi á framkvæmdasvæðum, svo sem plast, timbur, málma og pappírsefni. Bent skal á að það er hagkvæmara svo ekki sé minnst á umhverfið.

Hvaða afnotaleyfi eru algengust og hvað einkennir þau?

BYGGINGAFRAMKVÆMDIR
Byggingarframkvæmdir eru ein algengasta ástæða þess að sækja þurfi um afnot af borgarlandinu. Þá er átt við byggingaframkvæmdir eða annarskonar mannvirkjagerð sem lóðarhafar og/eða fasteignaeigendur standa fyrir auk margvíslegra viðhaldsverkefna.
 
GRÖFTUR OG ÖNNUR JARÐVINNA
Allt sem lýtur að rofi á yfirborði, s.s. gröftur, fræsing, borun, sögun, fleygun, plæging, endurgerð jarðlaga og frágangur yfirborðs.
 
VIÐBURÐIR
Reykjavíkurborg leggur áherslu á að glæða borgina lífi og auka við margskonar starfsemi og þjónustu. Markmiðið er að gera Reykjavík áhugaverðari, litríkari og sjálfbærari. Einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum er veitt leyfi fyrir margvíslegum afnotum af borgarlandi til að standa fyrir viðburðum og uppákomum.
 
GÖTU- OG TORGSALA
 • Útiveitingar. Þjónustusvæði fyrir útiveitingar skal afmarkað og skilgreint. Gera þarf grein fyrir veitingaborðum, stólum og öðrum tengdum búnaði. Sérstök áhersla er lögð á að hreyfihamlaðir, sjóndaprir og fólk með börn í kerru eigi greiða og óhindraða leið framhjá þjónustusvæðum.
 • Markaðir, dag- og nætursala. Um getur verið að ræða útimarkað, sölu veitinga úr vögnum og sölubifreiðum eða einstaklinga sem óska eftir að selja vörur sínar og varning í borgarlandinu.
ÖNNUR NOTKUN Á BORGARLANDINU
Hægt er að fá tímabundinn ráðstöfunarrétt á borgarlandi til þess að staðsetja gám, fataslá, sólhlíf, borð og þess háttar. Sama á við ef staðsetja á fána, hvort sem um er að ræða hátíðarfána eða kynningarfána. Ef staðsetja á skilti gildir samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur.
Enn önnur notkun á borgarlandinu er kvikmyndataka. Kvikmyndaiðnaðurinn er sífellt sýnilegri og innan hans þarf oft að notast við umferðarmannvirki og aðra hluta borgarlandsins.

Hver sér um útgáfu afnotaleyfa?

Skrifstofa reksturs og umhirðu borgarlandsins á umhverfis- og skipulagssviði sér um útgáfu afnotaleyfa.

Tengiliðir eru:
 • Helga Rún Guðmundsdóttir, verkefnastjóri leyfisveitinga borgarlands
 • Guðrún Soffía Björnsdóttir, verkefnastjóri leyfisveitinga borgarlands
 • Arnar Þór Hjaltested, yfirverkfræðingur leyfisveitinga og sérverkefna
Umsóknir og samskipti eru um netfangið  afnotaleyfi@reykjavik.is

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að senda fyrirspurnir og ábendingar með tölvupósti á netfangið afnotaleyfi@reykjavik.is

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

8 + 0 =