Hreinsun og umhirða | Reykjavíkurborg

Hreinsun og umhirða

Reykjavíkurborg sér um hreinsun og þvott á götum, bílastæðum við götur og skóla, og á gönguleiðum. Jafnframt hreinsun á rusli á hluta skólalóða og grassvæðum í götunánd.

Hreinsun allt árið

Vorhreinsun fer fram í öllum hverfum þegar svæði koma forug undan snjó eftir hálkueyðingu vetrarins. Farin er ein yfirferð, þvottur og sópun, á húsagötum, stofnbrautum, tengi- og safngötum og gönguleiðum.

Við sumarhreinsun eru hverfi hreinsuð með meiri natni. Farnar eru tvær yfirferðir á sópun á götum og gönguleiðum og einn þvottur á götum.

Að hausti fer fram ein umferð af sópun á götum og gönguleiðum til að viðhalda góðu ástandi eftir að laufblöð eru byrjuð að falla.

Á veturna fer fram sópun eftir þörf og aðstæðum.

Miðbæjarhreinsun

Á tímabilinu 15. apríl - 15. nóvember er miðbærinn hreinsaður að morgni frá kl. 4:00 til 8:00 alla virka daga og frá kl. 6:00 til 9:00 um helgar. Miðbærinn er sápuþveginn að meðaltali aðra hverja viku. Tjarnarbakki er hreinsaður vikulega. Sápuþvottur er framkvæmdur í samráði við eftirlitsmann að meðaltali aðra hverja viku með samþykktu hreinsiefni. Sápuþvottur kemur í staðinn fyrir vikulegan eða daglegan þvott eftir því sem við á.

Umferð og öryggisráðstafanir

Reynt er að hreinsa þannig að truflun á umferð sé eins lítil og hægt er. Sérstaklega er bent á hættu við hreinsun götukanta við miðeyjar, stofnbrautir og tengigötur, þar sem bílsópar þurfa að aka á móti umferð, svo og við eyjar á gatnamótum. Einnig í safngötum og húsagötum þar sem bílum er helst lagt. Í húsagötum er hreinsun skipulögð fyrirfram, til dæmis með því að setja upp merkingar sem gefa til kynna fyrirhugaða hreinsun á ákveðnum tíma, með ósk um að bílum sé ekki lagt á þeim tíma.

Tæki og búnaður

Til verksins eru notuð sérútbúin vélknúin tæki:

2 götusópar með háþrýstisugu,
4 götusópar,
6 gangstéttasópar,
2 dagsópar,
4 sugur,
4 stórir vatnsbílar,
2 litlir vatnsbílar,
1 stampalosunarbíll.

Umferðargötur skiptast í:

  • stofnbrautir sem eru þjóðvegir innan höfuðborgarinnar,
  • tengigötur sem tengja saman hverfi borgarinnar,
  • safngötur sem safna umferð innan hvers hverfis og beina út á tengigötur og stofnbrautir.
Götur   Stígar og stéttar   Stofnanalóðir - bílastæði  
  Lengd Flatarmál Lengd Flatarmál Flatarmál
Hverfi 1 10.000 70.000 18.700 58.000 1.600
Hverfi 2 119.000 835.000 207.000 596.000 70.000
Hverfi 3 115.500 810.000 182.500 438.000 79.500
Hverfi 4 101.500 711.300 169.500 390.000 90.000
Hverfi 5 107.000 754.000 155.000 373.000 87.000

Hverfi 1: Miðbær.

Hverfi 2: Vesturbær, án hverfis 1 (Miðbæjar), að Kringlumýrarbraut, sem er meðtalin. Undanskilið er: Öskjuhlíð og flugvallarsvæði, kirkjugarðar við Suðurgötu og í Fossvogi, Klambratún, Hljómskálagarður, Arnarhóll og hafnarsvæðið.

Hverfi 3: Austurbær frá Kringlumýrarbraut að Elliðaám. Reykjanesbraut að Stekkjarbakka er meðtalin. Undanskilið er: Laugardalur og hafnarsvæðin.

Hverfi 4: Breiðholt, Reykjanesbraut frá Stekkjarbakka að Breiðholtsbraut, Ártúnsholt, Árbær, Selás og Norðlingaholt.

Hverfi 5: Grafarvogur, Borgarholt, Staðahverfi og Grafarholt, auk iðnaðarhverfis á Ártúnshöfða og Rauðavatnssvæði. Einnig Gufuneskirkjugarður og nýtt hverfi við Úlfarsfell.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Við viljum gjarnan fá ábendingar um það sem betur má fara. Þú getur sett inn ábendingu og upplýsingar í ábendingakerfið okkar >>> SETJA INN ÁBENDINGU <<< eða hringt í þjónustuver Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 - 14,  í síma 4 11 11 11. Starfsmenn þar færa þá ábendingu inn í kerfið.  Opið kl. 8:20 - 16:15 alla virka daga. Netfang: upplysingar@reykjavik.isHverfastöðin að Stórhöfða 9 hefur umsjón með hreinsun gatna og göngustíga.

 

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 0 =