Barnavernd Reykjavíkur | Reykjavíkurborg

Barnavernd Reykjavíkur

Velferð barna er Reykjavíkurborg mikilvæg. Starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík, tekur við tilkynningum um börn búsett í Reykjavík. Ef grunur er um vanrækslu barns skal hafa samband við Barnavernd.

Hvað ber að tilkynna?

Allt athæfi sem getur verið hættulegt andlegri eða líkamlegri heilsu og þroska barns. Það kann að vera vanræksla, vanhæfni eða framferði foreldra gagnvart barni, áreitni eða ofbeldi af hendi annarra gagnvart barni eða hegðun þess.

Einnig skal tilkynna ef grunur er um að refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni eða af því.

Tilkynningar og fyrirspurnir

Almennum tilkynningum eða fyrirspurnum er hægt að koma á framfæri til Barnaverndar Reykjavíkur þar sem þeim er komið til viðkomandi yfirmanna. Barnavernd Reykjavíkur er að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík, sími: 4 11 11 11, netfang: barnavernd@reykjavik.is. Hægt er að tilkynna símleiðis á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur mánudaga til fimmtudaga frá kl. 13.00 - 16.00 og föstudaga frá 09.00-12.00.

Eftir lokun skrifstofu og um helgar er neyðartilvikum sinnt í síma neyðarlínunnar 112.  Einnig er hægt að tilkynna rafrænt til Barnaverndar á síðu borgarinnar.

Ferill barnaverndarmála

Eftir móttöku tilkynningar taka starfsmenn barnaverndarnefndar ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun máls (sjá nánar þjónustulýsingu um könnun máls). Er það gert innan sjö daga frá því að tilkynning berst. Sú ákvörðun er tekin á vikulegum fundum með stjórnendum nema tilefni sé talið til þess að bregðast við án tafar. Foreldrar eru ávallt látnir vita skriflega að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin í framhaldinu.

Opinberir tilkynnendur, til dæmis starfsfólk skóla, sjúkrastofnana, félagsþjónustu eða annarra barnaverndarnefnda fá einnig bréflega staðfestingu á móttöku tilkynningar.

Ákvörðun um að hefja könnun skal ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Mál telst barnaverndarmál þegar tekin hefur verið formleg ákvörðun um að hefja könnun. Ákvörðunina taka starfsmenn Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, en á þessu stigi eru málin ekki lögð formlega fyrir nefndina.

Málshraði

Starfsmenn skulu afgreiða mál svo fljótt sem auðið er. Ákvörðun um hvort hefja skuli könnun á grundvelli tilkynningar skal að jafnaði tekin innan 7 daga frá því að tilkynning berst. Móttaka tilkynninga er allan sólarhringinn alla daga ársins.

Fagfólk metur í hverju tilviki fyrir sig hvernig bregðast skal við.  Samkvæmt IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber öllum almenningi skylda að tilkynna til barnaverndarnefndar ef til staðar er grunur um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Tilkynningarskylda þeirra starfsstétta sem vegna stöðu sinnar og starfa hafa afskipti af málefnum barna, er sérstaklega tilgreind og gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Barnavernd Reykjavíkur óskar eftir því að opinberir aðilar tilkynni skriflega um óviðunandi aðstæður barna, sé þess nokkur kostur.

Ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða láta mál niður falla er hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds. Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar.

Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga er heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til úrskurðarnefndar velferðarmála eða eftir atvikum dómstóla.

Félags- og jafnréttismálaráðherra fer með yfirstjórn barnaverndarmála á Íslandi og hefur eftirlit með Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum og getur, á grundvelli kvartana eða annarra upplýsinga sem henni berast um meðferð einstakra mála og ef hún telur ástæðu til, aflað nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

5 + 3 =