Afsláttur af leikskólagjaldi | Reykjavíkurborg

Afsláttur af leikskólagjaldi

Afsláttur er veittur af leikskólagjaldi vegna ýmissa ástæðna. Einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar eiga til að mynda rétt á afslætti. Eins er veittur afsláttur vegna veikinda barna og systkinaafsláttur.

Hversu mikill er afslátturinn?

Þeir sem eiga rétt á afslætti greiða samkvæmt gjaldflokki II. Skoða má gjaldskrá leikskólanna hér. Ef barn er veikt í fjórar vikur eða lengur getur foreldri átt rétt á 50% afslætti af leikskólagjaldi.

Námsmannaafsláttur

Afslátt af námsgjaldi fá hjón og sambúðarfólk sem bæði uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • eru í háskólanámi og skráð í að lágmarki 22 ECTS einingar á önn. Taka þarf fram á vottorði frá skóla að um fullt nám sé að ræða;
  • eru í framhaldsskóla og skráð í fullt nám að lágmarki 15 einingar á önn. Skila skal skólavottorði fyrirfram fyrir hverja önn þar sem fram koma upplýsingar um einingafjölda og staðfesting á því að um fullt nám sé að ræða.
  • Nám sem tekið er gilt er það sama og nám sem lánshæft er hjá LÍN.

Eignist hjón eða sambúðarfólk, sem notið hafa námsmannaafsláttar, barn, geta þau sótt um að fá námsmannaafslátt á meðan fæðingarorlof stendur, þó að hámarki í níu mánuði þrátt fyrir að annað foreldrið uppfylli ekki framangreind skilyrði um lágmarksfjölda eininga á önn enda fylgi umsókn staðfesting frá fæðingarorlofssjóði um að það foreldri sem ekki uppfyllir skilyrði námsmannaafsláttar sé í fæðingarorlofi. Afsláttur reiknast frá þeim degi sem skólavottorðum er skilað til leikskólastjóra leikskóla barnsins. Þetta á einnig við um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla vegna vistunar reykvískra barna.

Afsláttur til einstæðra foreldra

Ef foreldri  er skráð sem einstætt í þjóðskrá á það rétt á afslætti. Skóla- og frístundasvið getur óskað eftir frekari staðfestingu á því að foreldrar séu  einstæðir, svo sem að þeir undirriti staðfestingu þess efnis. Ef foreldrar skilja/slíta sambúð er afsláttur veittur frá þeim degi sem umsókn berst leikskólastjóra svo lengi sem upplýsingar um breytta hjúskaparstöðu komi jafnframt fram í þjóðskrá.

Afsláttur er veittur að fenginni umsókn foreldris. Umsókn skal endurnýjuð árlega, fyrir 15. ágúst og afhent leikskólastjóra. Umsóknareyðublað fæst eingöngu hjá leikskólastjóra. Foreldri sem greiðir námsgjald sem einstætt foreldri þarf að vera skráður einstæður í þjóðskrá.   

Afsláttur vegna örorku

Foreldri sem er 75% öryrki eða getur framvísað gildu endurhæfingarlífeyrisskírteini fær afslátt af námsgjaldi. Umsókn skal fylgja afrit af örorkuskírteini sem staðfestir að lágmarki 75% örorku eða endurhæfingarlífeyrisskírteini.

Afsláttur reiknast frá þeim degi sem afrit örorkuskírteinis berst leikskólastjóra í leikskóla barnsins . Afsláttur er ekki veittur afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr. Þetta á einnig við um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla vegna vistunar reykvískra barna.

Systkinaafsláttur

Ef tvö systkini eða fleiri eru í vistun í leikskólum borgarinnar, eða skóla- og frístundasvið greiðir framlag vegna dvalar barns hjá dagforeldri eða í sjálfstætt starfandi leikskóla, er veittur 75% afsláttur vegna annars barns en 100% vegna þriðja og fjórða barns af námsgjaldi fyrir sama fjölda dvalarstunda yngra/yngsta barnsins fyrir eldra/eldri systkini sem eru með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í þjóðskrá og yngra systkini. Foreldrar greiða fullt fæðisgjald fyrir öll börnin.
Systkinaafsláttur reiknast sjálfkrafa. Ekki er þörf á að sækja sérstaklega um hann. 

Frá og með 1. janúar 2015 er veittur systkinaafsláttur milli dagforeldra, leikskóla og frístundaheimila/frístundaklúbba þannig að 50% afsláttur er á gjöldum á frístundaheimili/frístundaklúbbs ef barnið á systkini á leikskóla eða hjá dagforeldri. 

Afsláttur fyrir starfsmenn leikskóla Reykjavíkurborgar

Afslátt af námsgjaldi fá starfsmenn leikskóla Reykjavíkurborgar sem:

  • sækja um afslátt á þar til gerðu eyðublaði;
  • eru að lágmarki í 70% starfi til að fá afslátt fyrir barn í heilsdagsvistun;
  • eru að lágmarki í 50% starfi til að fá afslátt fyrir barn í hálfsdagsvistun;
  • hafa fengið staðfestingu frá leikskólastjóra í leikskóla starfsmanns um réttmæti umsóknar.

Afsláttur fellur niður þegar starfsmaður hættir störfum í leikskóla Reykjavíkurborgar eða fer í launalaust leyfi. Þegar framangreint á við ber viðkomandi að tilkynna skóla- og frístundasviði með útfyllingu þar til gerðs eyðublaðs. Þegar starfsmaður kemur úr launalausu leyfi ber að sækja um að fá afslátt að nýju. Starfsmanni ber einnig að tilkynna leikskólastjóra í leikskóla barnsins ef starfshlutfall breytist þannig að áhrif hafi á afslátt af leikskólagjöldum. Þetta á einnig við um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla vegna vistunar reykvískra barna starfsmanna í leikskólum Reykjavíkurborgar. 

Starfsmenn leikskóla Reykjavíkurborgar með lögheimili utan Reykjavíkur með börn í leikskólum utan borgarinnar eða í sjálfstætt starfandi leikskólum fá framlag til lækkunar á leikskólagjöldum enda uppfylli starfsmaður skilyrði starfsmannaafsláttar og sæki um afsláttinn. Fjárhæð afsláttar er sú sama og vegna barna starfsmanna leikskóla Reykjavíkur í leikskólum Reykjavíkurborgar. Afsláttur gildir frá því umsókn berst skóla- og frístundasviði en greiðist gegn framvísun reikninga vegna leikskólagjalda eða staðfestingar frá sveitarfélagi þar sem fram koma upplýsingar um vistunartíma og dvalartímabil. Starfsmaður skal skila gögnum að lágmarki einu sinni á ári. Afsláttur er ekki veittur afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr.4. Hafi starfsmaður fengið afslátt af leikskólagjöldum þegar ekki var réttur til afsláttar áskilur skóla- og frístundasvið sér rétt til að krefjast greiðslu vangreiddra leikskólagjalda afturvirkt.

Veikindi barns

Geti barn ekki sótt leikskóla vegna veikinda í fjórar vikur samfellt eða lengur geta foreldrar sótt um allt að 50% afslátt af leikskólagjöldum. Afsláttur er veittur fyrir þann tíma þegar veikindi vara gegn framvísun læknisvottorðs sem staðfestir að barnið hafi ekki getað sótt leikskóla.

Sækja verður um afsláttinn innan þriggja mánaða frá því að veikindum lýkur. Foreldrar bera ábyrgð á því að upplýsa skóla- og frístundasvið um að barnið hafi hafið leikskóladvöl að nýju. Skóla- og frístundasvið áskilur sér rétt til þess að innheimta leikskólagjöld afturvirkt komi í ljós að ekki hafi verið greitt fullt gjald eftir að barn hóf leikskólagöngu að nýju.

Hvernig er sótt um afslátt?

Hægt er að sækja um afslátt til einstæðra foreldra hjá leikskólastjóra og aðra afslætti í gegnum Rafræna Reykjavík.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Þú getur sent inn fyrirspurnir á netfangið sfs@reykjavik.is. Sótt er um þjónustuna á Rafrænni Reykjavík.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

8 + 0 =