Stytting vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg | Reykjavíkurborg

Stytting vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg

Frá því í mars 2015 hefur Reykjavikurborg staðið fyrir tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Um 2000 borgarstarfsmenn taka nú þátt í verkefninu sem lýkur árið 2019.

  • Mosaveggur á Ráðhúsi.

Vorið 2014 samþykkti borgarstjórn að stofna starfshóp sem útfæra ætti tilraunaverkefni um styttingu vinnudags hjá starfsfólki borgarinnar án launaskerðingar. Ákveðið var að velja starfsstaði á sviði velferðar eða fræðslu þar sem kannanir hafa sýnt að starfsfólk í þeim geira upplifir mikið álag í starfi.

Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og skrifstofa Barnaverndar voru fyrstu tveir vinnustaðirnir sem þátt tóku í tilraun um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg. Hver virkur starfsdagur var um klukkustund styttri á Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts en á skrifstofu Barnaverndar lauk vinnuvikunni um hádegi hvern föstudag, en starfsmaður á bakvakt tók við brýnum verkefnum.

Skipaður var stýrihópur um verkefnið 23. janúar 2015 en hlutverk hans er að halda utan um verkefnið og hafa yfirumsjón með því. Hópinn skipa þrír kjörnir fulltrúar en með stýrihópnum starfa fulltrúar frá BSRB, ASÍ, Kennarasambandinu og BHM auk fulltrúa frá öllum sviðum borgarinnar. Núverandi formaður hópsins er Magnús Már Guðmundsson.

Verkefninu var ýtt úr vör mánudaginn 2. mars 2015 og var ákveðið að það stæði yfir í eitt ár. Flest benti til þess að verkefnið hefði gengið mjög vel og í stað þess að draga í land ákvað borgin að fjölga vinnustöðum i styttingu vinnuvikunnar. Haustið 2016 bættust sex starfsstaðir í hópinn. Þar með var fjöldi vinnustaða og fjölbreytni orðin meiri, meðal annars tók nú einn vaktavinnustaður þátt: Heimaþjónusta og heimahjúkrun í efri byggðum. Sundlaugin í Laugardal bættust í hópinn en verkefnið náði ekki til allra starfsmanna og laugin sagði sig svo síðar frá verkefninu. Hverfastöð austur, hverfastöð vestur, Leikskólinn Hof og Þjónustumiðstöð borgarlandsins bættust í hópinn.

Nýjasti kaflinn um styttingu vinnuvikunnar hófst svo vorið 2018 en nú taka um það bil 100 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar með um 2000 starfsmenn þátt. Verkefnið nær því nú til tæplega 25% starfsmanna borgarinnar. Styttingin er þó ekki eins mikil og hjá upphaflegu starfsstöðunum, heldur 1-3 klukkustundir á viku.

Talsvert hefur verið fylgst með árangrinum af verkefninu og hvaða áhrif það hefur á langtíma- og skammtímaveikindi starfsmanna, fjölda afgreiddra mála, streitu og ýmislegt fleira. Hér á síðunni má nálgast sumt af þessu efni.

Tilraunaverkefninu lýkur árið 2019.

Upptökur/streymi frá fundum

Háskólaverkefni um styttingu vinnuvikunnar

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 1 =