Höfuðborgarstofa | Reykjavíkurborg

Hvað er Höfuðborgarstofa?

Höfuðborgarstofa ber ábyrgð á heildarkynningu Reykjavíkur á sviði ferðamála innanlands og utan. Stofan vinnur stöðugt og markvisst að því að skilgreina sóknarfæri og styrkleika Reykjavíkur á sviði ferðamála, m.a. með því að samþætta nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu og stjórnun ferðamála.Vöxtur í ferðaþjónustu heldur áfram á árinu 2018 og verður aukin áhersla lögð á að takast á við áskoranir sem fylgja því með víðtæku samráði og fjölbreyttum aðferðum.

Höfuðborgarstofa hefur frumkvæði að því að skilgreina samstarfsfleti á sviði ferðamála milli stofnana Reykjavíkurborgar, stjórnvalda, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, markaðsstofa um allt land, aðila í ferðaþjónustu, íbúa og annarra hagsmunaaðila. Markmiðið er að samhæfa aðgerðir, útfæra leiðir í samvinnu, efla upplýsingaveitu til íbúa og ferðamanna, styrkja og þróa innviði í borginni og auka nýsköpun á sviði ferðamála í Reykjavík.

Stofan leiðir einnig samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um markaðssetningu á svæðinu gagnvart erlendum ferðamönnum undir sameiginlegu vörumerki, Reykjavík loves/Reykjavík elskar.

Í samstarfi við Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála leiðir Höfuðborgarstofa vinnu að gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið. Um er að ræða heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringar þátta sem geta haft áhrif á upplifun og ánægju íbúa og ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.

Höfuðborgarstofa rekur upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem áhersla er lögð á faglega þjónustu í upplýsingaveitu um ábyrga og örugga ferðahegðun, menningu og afþreyingu í Reykjavík og sölu og bókun. Upplýsingamiðstöð ferðamanna er eina opinbera upplýsingamiðstöðin á höfuðborgarsvæðinu og þjónustar bæði höfuðborgina og landið allt.

Leiðarljós

Leiðarljós Höfuðborgarstofu er að Reykjavík sé eftirsóttur áfangastaður allt árið um kring. Höfuðborgarsvæðið er kynnt á öflugan hátt þannig að ferðamenn fái notið þeirrar menningar, afþreyingar og þjónustu sem er í boði á svæðinu í heild. Í því samhengi er sérstaða borgarinnar dregin fram, þ.e. sem hreinnar, vingjarnlegrar, öruggrar og nútímalegrar menningar- og heilsuborgar í nábýli við einstæða náttúru.
Ferðaþjónustan kemur inn á flest svið samfélagsins og því er afar mikilvægt að eiga samráð og samtal við íbúa, ferðaþjónustuna, stofnanir, fyrirtæki og aðra sem koma að ferðamálum hér á landi.

Meginmarkmið

  • Styrkja stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins í alþjóðlegri samkeppni á sviði ferðamála.
  • Gera Reykjavík að eftirsóttum áfangastað fyrir ferðamenn allt árið um kring til hagsbóta fyrir íbúa, atvinnulíf og gesti höfuðborgarinnar.
  • Stuðla að því að gestir Reykjavíkur fái framúrskarandi móttökur, góða þjónustu og jákvæða upplifun.
  • Rækta hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart landinu öllu, m.a. með traustri miðlun upplýsinga um Ísland til ferðamanna.
  • Stuðla að aukinni fagmennsku og gæðum í upplýsingamiðlun til ferðamanna um Reykjavík og Ísland.
  • Auka vægi ráðstefnuhalds og menningar í ferðamennsku í Reykjavík.
  • Virkja stjórnsýslu, stofnanir og fyrirtæki borgarinnar og aðra hagsmunaaðila til samstarfs um eflingu Reykjavíkur sem áfangastaðar.
  • Efla langtíma samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi viðburða og ferðaþjónustu og auka þannig samlegð og styrk svæðisins í alþjóðlegri samkeppni.
  • Skilgreina ákveðin markaðssvæði á höfuðborgarsvæðinu og markaðssetja með það að leiðarljósi að efla áfangastaðinn, fjölga gistinóttum, auka arðsemi ferðaþjónustunnar og dreifa álagi.

Helstu verkefni 2018

Áhersla verður lögð á að tryggja að áfangastaðurinn Reykjavík einkennist áfram af gæðum, gestrisni og einstakri upplifun. Höfuðborgarstofa mun leggja áherslu á samstarf og samráð í ferðaþjónustu og styðja við vöruþróun í afþreyingu til að laða að ferðamenn sem hafa áhuga á borgarferðum allt árið um kring. Stofan mun áfram vinna náið með skrifstofu ferðamála hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Stjórnstöð ferðamála, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og skrifstofum og stofnunum Reykjavíkurborgar og öðrum hagsmunaaðilum að farsælli þróun ferðaþjónustu í Reykjavík og á landinu öllu.

Ferðamálastefna

Á árinu 2018 verður unnið að gerð nýrrar ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg. Þar til ný stefna lítur dagsins ljós verður áfram unnið eftir grunnstoðunum fjórum í ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar, að borgin sé vetrarborg, menningarborg, heilsuborg og ráðstefnuborg. Þá verður áhersla lögð á að fylgja eftir nýlegri aðgerðaáætlun sem styður við stefnuna.

Áfangastaðaáætlun

DMP- Áfangastaðaáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið (Destination Management Plan) verður eitt af lykilverkefnum Höfuðborgarstofu á árinu 2018. Áfangastaðaráætlunin, sem unnin er fyrir hönd Ferðamálastofu, hefur það að markmiði að taka saman helstu aðgerðir er snúa að uppbyggingu innviða, stýringu og þróun ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimm ára með skilgreindum markmiðum og víðtæku samráði hagaðila. Áætlunin miðar að því að upplifun af svæðinu standist væntingar ferðamannsins í sátt við íbúa, umhverfi og atvinnurekstur.

Sjá nánar um áfangastaðaráætlun

Evrópsk ferðamálastefna í Reykjavík

Höfuðborgarstofa hélt utan um tilboð í vorráðstefnu European Cities Marketing sem eru samtök visit-skrifstofa, ráðstefnuskrifstofa og ferðamálastofa stærstu borga í Evrópu. Samtökin munu í samstarfi við Höfuðborgarstofu, CP Reykjavík og Meet in Reykjavík haldaráðstefnuna í Reykjavík í febrúar þar sem kastljósinu verður beint að áfangastaðaáætlunum undir yfirskriftinni „Hack the City!“. Verður það mikill akkur fyrir ferðaþjónustuna að fá lykilstjórnendur á sviði ferðamála í Evrópu til borgarinnar.

Ársskýrsla, greiningar og töluleg gögn

Haustið 2017 fól borgarráð og borgarstjóri Höfuðborgarstofu að gefa árlega út tölfræðilegt yfirlit yfir stöðu ferðaþjónustu í Reykjavik. Skýrslan tekur saman helstu tölur um ferðamál í borginni og á höfuðborgarsvæðinu. s.s. gistináttatölur og aðgangstölur í ýmsar stofnanir borgarinnar, og er ætlað að gefa mynd af stöðu ferðamála á svæðinu. Markvisst verður unnið að miðlun þessara upplýsinga til almennings, ferðaþjónustuaðila, stjórnsýslunnar, rekstraraðila, fjölmiðla og annarra hagsmunaaðila. Þá verða greiningar á tölulegum gögnum nýttar til stefnumarkandi  ákvarðanatöku um uppbyggingu, þróun og markaðssetningu á áfangastaðnum Reykjavík.

Rannsóknir

Höfuðborgarstofa kannar árlega viðhorf íbúa allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna og áhrifa ferðaþjónustunnar á samfélagið og þeirra nærumhverfi. Markmiðið með könnuninni er að meta þolmörk íbúa sem geta þróast yfir tíma og með auknum fjölda ferðamanna. Frá árinu 2004 hefur stofan framkvæmt könnun meðal ferðamanna í Leifsstöð árið um kring til að meta viðhorf þeirra til áfangastaðarins Reykjavíkur. Þá er árlega gerð könnun meðal íbúa í Bandaríkjunum og Kanada í samstarfi við Iceland Naturally til að meta viðhorf til Reykjavíkur sem áfangastaðar sem kynnt er með víðtækum hætti. Höfuðborgarstofa fékk á árinu 2017 einnig styrk frá Ferðamálastofu til úthlutunar vegna rannsóknar á Airbnb-markaðnum í Reykjavík og mun í samstarfi við rannsóknaraðila kynna niðurstöður hennar á árinu 2018. Þá verður áfram unnið með Rannsóknarsetri ferðaþjónustunnar að könnun á ferðavenjum ferðamanna.

Endurskoðun upplýsingaveitu

Áfram verður unnið að endurskoðun upplýsingaveitu til ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu og um land allt en verkefnið er unnið fyrir Ferðamálastofu. Sú mikla þróun sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu kallar á skipulagða uppbyggingu innviða, samþættari vinnubrögð hins opinbera og áherslu á gæði og fagmennsku þar sem öryggi ferðamanna og sjálfbær þróun eru í fyrirrúmi.  Nýtt og endurbætt kerfi opinberrar upplýsingaveitu er ætlað að líta dagsins ljós í byrjun árs 2019 en markviss og fagleg upplýsingagjöf  í upplýsingamiðstöðvum og starfrænum miðlum er ætlað að tryggja öryggi ferðamanna og stýra betur straumi þeirra milli og innan einstakra svæða.

Vörumerkið Reykjavík loves / Reykjavík elskar

Markaðsherferð Höfuðborgarstofu undir vörumerkinu Reykjavík loves hefur gengið vel og verður áfram lögð áhersla að nota vörumerkið í markaðssetningu gagnvart erlendum ferðamönnum. Vörumerkið verður jafnframt notað í auknum mæli gagnvart Íslendingum og þá á íslensku, Reykjavík elskar íbúa. Áhersla verður áfram á að efla markaðssamstarf Höfuðborgarstofu og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir merkjum Reykjavík loves (Rl) og að því að styrkja vörumerkið og auka sýnileika þess. Einnig verður unnið að mörkun vörumerkisins í samstarfi við stofnanir Reykjavíkurborgar, viðburðahaldara, ferðaþjónustu- og rekstraraðila í borginni.

Útgáfa

Áhersla verður áfram á útgáfu myndefnis og bæklinga undir áður nefndu vörumerki. Þar undir fellur áframhaldandi þróun á þemabæklingum þar sem afþreying og menning á höfuðborgarsvæðinu er gerð aðgengileg ferðamönnum og áfangastaðabæklingur. Þá verða fleiri myndbönd gerð á árinu 2018 til að kynna þjónustu og afþreyingu. Áfram verður lögð áhersla á þróun varnings undir merkjum Reykjavík loves sem m.a. verður seldur í Upplýsingamiðstöð ferðamanna. Höfuðborgarstofa leggur enn fremur áherslu á samstarf í markaðsmálum við þær stofnanir Reykjavíkur sem bjóða upp á þjónustu við ferðamenn. Þannig verður áfram auglýst sameiginlega með menningarstofnunum og sundlaugum borgarinnar undir merkjum Reykjavík loves. Þá verður lögð vinna í að merkja þær stofnanir sem það kjósa með fánum vörumerkisins.

Vefur og samfélagsmiðlar

Opinber ferðavefur Reykjavíkurborgar www.visitreykjavik.is verður áfram í þróun árið 2018, en sjónum verður bæði beint að tæknilegum hluta hans jafnt sem efni síðunnar. Vefurinn er nú þegar orðinn einn sá mest sótti á landinu og verður lögð áhersla á að fá enn fleiri innlit á síðuna, s.s. í gegnum samfélagsmiðla og leitarvélarbestun. Átak verður gert efnisinnsetningu fyrir vefinn til að mæta síbreytilegum áhuga og kröfum ferðamanna. Stöðugur vöxtur er í fylgjendum á samfélagsmiðlum Höfuðborgarstofu og verður kappkostað við að halda þeim vexti á nýju ári. Samfélagsmiðlarnir eru í auknu mæli að verða eitt mikilvægasta markaðstæki borgarinnar og mun Höfuðborgarstofa áfram framleiða vingjarnlegt og spennandi myndefni fyrir þessa miðla.

Gestakort Reykjavíkur

Gestakort Reykjavíkur hefur verið í mikilli sókn á síðustu misserum. Haldið verður áfram með undirbúning á rafrænni lausn fyrir Gestakortið með útboði á Evrópska efnahagssvæðinu en stefnt er að því að innleiðingunni verði að fullu lokið í lok árs 2018. Til viðbótar verður viðskipta- og rekstrarmódel kortsins endurskoðað með það að leiðarljósi að styrkja tekjuöflun, þjónustu, markaðssetningu og stýringu. Í gerð markaðsáætlunar verður lögð áhersla á að efla samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og aðra afþreyingaraðila í Reykjavík sem og að setja fram vöru sem höfðar til stærri og fjölbreyttari markhóps.

Almannatengsl

Blaðamannaheimsóknir verða unnar í nánu samstarfi við Íslandsstofu, Iceland Naturally, Meet in Reykjavík og almannatengslaskrifstofur erlendis. Jafnframt tekur Höfuðborgarstofa á móti fjölda fyrirspurna frá erlendum blaðamönnum sem hafa samband að eigin frumkvæði varðandi samstarf. Eingöngu er miðað við að farið sé í samstarf við blaðamenn frá löndum eða svæðum sem bjóða upp á beint flug til landsins. Til viðbótar mun Höfuðborgarstofa áfram taka á móti heimsóknum erlendra sendinefnda sem vilja kynna sér áfangastaðinn Reykjavík.

B-2-B samskipti

Höfuðborgarstofa mun taka þátt í sýningum og kaupstefnum innanlands, s.s. Mid-Atlantic og VestNorden með það að markmiði að kynna áfangastaðinn Reykjavík fyrir ferðaheildsölum. Einnig verður lögð áhersla á að kynna Reykjavík á vinnustofum í Bandaríkjunum, Evrópu og Skandinavíu í gegnum samstarf við Íslandsstofu og Meet in Reykjavík. Til viðbótar mun Höfuðborgarstofa vinna áfram með Film in Iceland að því að kynna Reykjavík sem tökustað, bæði út frá viðskipta- og kynningarsjónarmiði.

Upplýsingamiðstöð ferðamanna—UMFR

Upplýsingamiðstöð ferðamanna (UMFR) er fjölsóttasta upplýsingamiðstöð landsins með gestafjölda upp á 558 þúsund árið 2017. Höfuðborgarstofa heldur utan umrekstur miðstöðvarinnar sem auk þess er fjármögnuð með framlagi frá Ferðamálastofu og sjálfsaflafé.

Starfsemi UMFR er skráningarskyld samkvæmt lögum um skipan ferðamála nr. 73/2005 auk þess sem ríkisframlag til rekstursins er háð gæða- og umhverfisvottun Vakans.  

UMFR veitir faglegar og hlutlausar upplýsingar en sérstök áhersla er lögð á Reykjavík og höfuðborgarsvæðið undir merkjum Reykjavík loves. Í UMFR má einnig finna víðtækar upplýsingar um náttúru á einstökum svæðum á landinu og um ferðir, gistingu, bílaleigu og samgöngur. Ný áhersla í kynningu í miðstöðinni, er á menningu, listir og borgarlíf/sveitalíf, en haldið verður markvisst áfram að byggja upp þennan þátt í samstarfi við aðila í menningarlífinu í borginni og markaðsstofur landshlutanna. Stefnt er að því að koma upp miðlægri miðasölu á menningarviðburði.

Áfram verður unnið að miðlun öryggisupplýsinga í gegnum samstarf við Safe Travel sem rekur framlínuþjónustu í UMFR og þjónar einnig landsbyggðina í gegnum SKYPE. Þar til viðbótar verður haldið áfram að byggja upp samstarf við bókunar- og söluaðilann Guide to Iceland sem valinn var samstarfsaðili á árinu 2017 að undangengnu útboði.

Upplýsingamiðstöðin flutti í byrjun árs 2017 í Ráðhús Reykjavíkur en fyrst um sinn var þjónusturými hennar sett upp til bráðabirgða með gömlum innréttingum. Til stendur að nýtt margmiðlunarrými verði tekið í notkun á árinu 2018 í takt við nýja Þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. Í notendamiðaðri og snjallvæddri miðstöð verður lögð áhersla á samspil upplýsinga, upplifunar og sjálfsafgreiðslu samhliða hefðbundinni þjónustu.

Heimilisfang: 
Tjarnargata 11
101 Reykjavík
Sími: 
411 6000

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 2 =