Borgarbókasafn - Menningarhús Grófinni | Reykjavíkurborg

Borgarbókasafnið í Grófarhúsi við Tryggvagötu 15 var opnað þann 8. september árið 2000. Safnið er í sambýli við Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Við hliðina á okkur er Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Borgarbókasafnið er 2.894 fermetrar og sameiginlegt svæði með Ljósmyndasafni og Borgarskjalasafni er 975 fermetrar. Borgarbókasafnið í Grófinni  er á 1., 2. og 5. hæð Grófarhúss. Þar  getur almenningur lesið og leitað sér upplýsinga og afþreyingarefnis. Á safninu er einnig fjöldi tölva ætlaður gestum og heitir reitir.

1. hæð
Afgreiðsla safnsins og sjálfsafgreiðsluvélar eru á fyrstu hæðinni. Þar er einnig upplýsingaþjónusta fyrir fyrirspurnir. Artótekið er á 1. hæð þar sem hægt er að leigja eða kaupa listaverk eftir samtímalistamenn. Á Reykjavíkurtorgi er tilvalið að skoða sýningar, m.a. á verkum listamanna Artóteksins eða setjast niður yfir kaffibolla og lesa bækur og tímarit.

2. hæð
Á annarri hæðinni er hægt að nálgast íslensk og erlend skáldrit og hljóðbækur auk upplýsinga um þau. Barnadeild safnsins er á annarri hæð. Þar geta yngstu gestir safnsins lesið bækur, spilað og spjallað saman í plássi sem er sérstaklega hannað með þarfir þeirra í huga. Frá september fram í maí er dagskrá fyrir börn alla sunnudaga kl. 15.00. Hægt er að panta sögustundir og safnkynningar fyrir hópa í barnadeildinni. Á annarri hæðinni eru jafnframt teiknimyndasögur, tímarit og annar bókakostur sem höfðar til ungs fólks á íslensku og erlendum málum. Á sumrin stendur safnið fyrir ritsmiðjum þar sem ungu fólki er leiðbeint við að skrifa og yrkja.

5. hæð
Fræðibækur og fræðitímarit eru á fimmtu hæðinni ásamt aðalupplýsingaþjónustu safnsins. Tón- og mynddeild er á fimmtu hæð safnsins  þar sem hægt er að fá geisladiska, hljómplötur, nótur, myndbönd og mynddiska að láni auk fjölda bóka og tímarita um tónlist og kvikmyndir. Þar er einnig að finna handbækur um efnið sem hægt er að nota á staðnum. Einnig er ágæt aðstaða til að hlýða á tónlist í safninu auk þess sem þar er aðgangur að tölvum og prenturum. Fyrirlestra- og sýningarsalur er á sjöttu hæð þar sem Ljósmyndasafnið er með sýningaraðstöðu.

Afgreiðslutími

Mánudaga - fimmtudaga 10:00 - 19:00,
Föstudaga 11:00 - 18:00,
Laugardaga og sunnudaga 13:00 - 17:00.

Safnstjóri er Sólveig Arngrímsdóttir