Skóla- og velferðarþjónusta
Börn eru eins ólík og þau eru mörg. Sum þurfa á stuðningi að halda til að bæta líðan sína og finna farveg fyrir styrkleika sína. Hjá Reykjavíkurborg starfar fjölbreyttur hópur fagaðila sem veitir börnum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki leik- og grunnskóla markvissa ráðgjöf og stuðning.
Á ég rétt á þjónustu?
Öll börn sem ganga í leik- og grunnskóla Reykjavík eiga rétt á skóla- og velferðarþjónustu. Sérfræðiþjónusta við leik- og grunnskóla á sviði faglegrar ráðgjafar og sálfræðiþjónustu er í þjónustumiðstöðvum borgarinnar.
Hvernig sæki ég um þjónustuna?
Teljir þú þörf á stuðningi eða ráðgjöf skalt þú hafa samband við starfsfólk leik- eða grunnskóla sem barnið þitt sækir og eða leita beint til ráðgjafa í þjónustumiðstöð hverfisins og óskað eftir viðtali.

Hvaða þjónusta er í boði?
Börn og foreldrar þeirra geta fengið fjölbreyttan ráðgjöf og stuðning til að vinna með ýmsar áskoranir:
- Hegðun, félagsleg færni og samskipti
- Einbeitingarvandi, námsframmistaða og virkni
- Skólasókn
- Tilfinningavandi
- Þroski, t.d. mál- og hreyfiþroski
- Sjón- og heyrnarskerðingar
- Hreyfihömlun
Leitast er við að börn fái sem mest af þjónustu í nærumhverfi sínu. Þjónustan getur til dæmis verið í formi viðtala, funda og námskeiða fyrir foreldra og börn.
Hluti þjónustunnar fer fram á þjónustumiðstöðvum borgarinnar og í einstaka tilfellum getur ráðgjöfin farið fram á heimili barnsins. Öll ráðgjöf og stuðningur er unnin í nánu samstarfi sérfræðinga, starfsfólks í skóla, barna og foreldra.
Betri borg fyrir börn
Undir verkefninu Betri borg fyrir börn hafa skóla- og frístundasvið og velferðarsvið sameinað krafta sína í þeim tilgangi að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi og færa hana í auknum mæli í nærumhverfi þeirra.
Atvinnutengt nám
Atvinnutengt nám er fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla í Reykjavík sem, vegna sértækra örðugleika annarra en fötlunar, glíma við verulegar áskoranir í námi eða mikla vanlíðan í skóla. Verkefninu er ætlað að bæta líðan nemenda og gefa þeim tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr.
Hvar fæ ég frekari upplýsingar?
Skólaþjónusta er veitt á grundvelli eftirfarandi laga og reglna:
- Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021
- Reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum
Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að hringja í þjónustuver Reykjavíkurborgar í s: 4 11 11 11 eða senda tölvupóst í upplysingar@reykjavik.is.