Samskipti við Borgarstjóra

Dagur B. Eggertsson tók við embætti borgarstjóra þann 16. júní 2014. Borgarstjórinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður starfsmanna Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri er ráðinn af borgarstjórn og getur verið borgarfulltrúi. Sé hann borgarfulltrúi hefur hann skyldur sem slíkur einnig.

Borgarstjóri gegnir þremur meginhlutverkum. Hann er framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, opinber fulltrúi Reykjavíkurborgar og pólitískur leiðtogi meirihlutans. Öllum þessum hlutverkum fylgja skyldur, bæði fastar og valkvæðar.

Borgarstjóri hefur rétt til setu á fundum nefnda sveitarfélagsins með málfrelsi og tillögurétt. Hann er prókúruhafi borgarsjóðs. Hann undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna borgarinnar, lántökur og aðrar skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki borgarstjórnar þarf til. Borgarstjóra er heimilt með samþykki borgarstjórnar að veita öðrum starfsmönnum borgarinnar prókúru.

Borgarstjóri fer jafnframt með eignarhluta Reykjavíkurborgar í B-hluta fyrirtækjum. Hann er formaður almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins og er fulltrúi borgarinnar í SSH (Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) og SHS (Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu).

  • Borgarstjóri tekur á móti borgarbúum í reglulegum viðtalstímum sínum í Ráðhúsi Reykjavíkur á miðvikudögum.
  • Hægt er að óska eftir viðtali við borgarstjóra með því að fylla út þar til gert eyðublað á síðu borgarstjóra.
  • Hvert viðtal stendur yfir í 15 mínútur. Til að gæta jafnræðis eru borgarbúar vinsamlega beðnir um að virða þau tímamörk.
  • Í því augnamiði að tryggja jafnræði er ekki gert ráð fyrir að úthlutað sé viðtölum vegna sömu erinda með skömmu millibili.

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 1 =