Samkeppni um listaverk í almenningsrými í Vogabyggð 2018 | Reykjavíkurborg

Samkeppni um listaverk í almenningsrými í Vogabyggð 2018

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að efna til samkeppni meðal myndlistarmanna og er tilgangur samkeppninnar að fá fram tillögur að útilistaverkum til útfærslu í almenningsrými í Vogabyggð. Í deiliskipulagi Vogabyggðar kemur fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu. Það er í samræmi  við stefnu borgaryfirvalda og hluti af samningsmarkmiðum við núverandi lóðahafa á svæðinu.

Competition for Outdoor Art Works in Public Areas in Vogabyggð 2018.

  • Vogabyggð
  • Vogabyggð
  • Almenningssvæði í Vogabyggð
  • Yfirlitsmynd Vogabyggð

Samkeppnin er haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) – lokuð samkeppni með opnu forvali. Val á listamönnum til þátttöku í samkeppninni er með þeim hætti að áhugasömum er boðið að senda inn nafn sitt ásamt greinargóðum upplýsingum um listferil og myndum af fyrri verkum. Heimilt er að senda inn stuttan texta þar sem fjallað er um forsendur, reynslu, hæfni og áhugasvið umsækjanda. Sérstök forvalsnefnd velur úr innsendum umsóknum allt að átta listamenn til að taka þátt í lokaða hluta samkeppninnar.

Við endanlegt val á listaverki/listaverkum verður haft að leiðarljósi að styrkja þau markmið deiliskipulags Vogabyggðar að myndlist verði veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í hverfinu. Sérstök áhersla er lögð á listaverk á svæðum sem eru skilgreind sem almenn leik- og dvalarsvæði, þ.e. þemavellir og andrými (merkt þemavellir Þ1, Þ2, Þ3 og andrými A1, A2, A3, A4, A5 á korti Vogabyggð - Skýringamynd). Haft skal að leiðarljósi að skapa örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa.

Þeir listamenn sem veljast til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar fá greiddar kr. 600.000 .- hver fyrir tillögugerðina. Listamennirnir munu fá kynningu á skipulagsmarkmiðum Vogabyggðar og þeim hugmyndum sem lagðar eru til grundvallar í hönnun hverfisins. Þeir munu síðan hafa aðgang að upplýsingum og ráðgjöf frá hönnunarteymi arkitekta- og landslagsarkitekta sem útfæra almenningsrými og götur Vogabyggðar. Tilkynnt verður opinberlega hvaða listamenn eru valdir til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar.

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Vogabyggð og stendur að baki samkeppninni auk þess að vera tengiliður við hönnuði, svið og deildir Reykjavíkurborgar en jafnframt er trúnaðarmaður tilnefndur af SÍM til upplýsingar og ráðgjafar fyrir listamenn sem taka þátt í samkeppninni.

 

Forval: 

Þeir sem óska eftir því að taka þátt í forvali vegna samkeppninnar sendi eftirtalin gögn á netfangið vogabyggd.samkeppni@reykjavik.is:

- Ferilskrá með greinargóðum upplýsingum um listferil, nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang.

- Myndir af fyrri verkum

- Texti: Heimilt er að senda inn stuttan texta þar sem fjallað er um forsendur, reynslu, hæfni og áhugasvið umsækjanda (hámark 500 orð). 

Hámarksstærð fylgiskjala er 20 MB samtals.

Tillögu telst ekki skilað nema borist hafi staðfesting á móttöku frá trúnaðarmanni.

Þeir þættir sem forvalsnefnd mun skoða sérstaklega eru forsendur listamanna, reynsla og hæfni til að útfæra varanlegt útilistaverk í almenningsrými.

Athugið: Gögnum vegna umsóknar um þátttöku í forvali skal aðeins skilað rafrænt og í síðasta lagi kl.16.00 þann 2. maí 2018.

Allar fyrirspurnir verða birtar nafnlaust ásamt svörum á vefsíðunni reykjavik.is/listaverk-vogabyggd.

 

Keppnislýsing og skilmálar:

1. Verkefnið

Þátttakandi skal gera tillögu að útilistaverki í Vogabyggð. Lögð er áhersla á að listaverk verði hluti af heildarhönnun almenningsrýma hverfisins einkum á svæðum sem skilgreind eru sem þemavellir og andrými sjá teikningu (merkt þemavellir Þ1, Þ2, Þ3 og andrými A1, A2, A3, A4, A5). Verkið þarf að vera úr varanlegu efni sem þolir íslenska veðráttu.

Fjárhæð sem verja á til framleiðslu og uppsetningar á listaverki eða listaverkum getur numið allt að 140 milljónum króna samtals. Innan þeirrar fjárhæðar skal rúmast undirbúningur, efni, aðkeypt vinna, höfundargreiðsla og vinnuframlag listamanns/listamanna. Gert er ráð fyrir því að listamaður/listamenn taki þátt í eða sjái um framkvæmdir við gerð listaverks og verði gerður sérstakur samningur þar um. Kostnaður vegna samkeppninnar er fyrir utan ofangreinda upphæð.

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að velja fleiri en eitt listaverk til uppsetningar en öll verkin skulu rúmast innan fjárhagsramma samkeppninnar, jafnframt er áskilinn réttur til að hafna öllum tillögum.

Listasafn Reykjavíkur mun boða til fundar með þeim listamönnum sem veljast til þátttöku í keppninni ásamt hönnuðum og trúnaðarmanni. Þar verða þátttakendum kynnt skipulagsmarkmið Vogabyggðar og þær hugmyndir sem lagðar eru til grundvallar í hönnun hverfisins. Safnið verður tengiliður við hönnunarteymi arkitekta, landslagsarkitekta og aðra sem útfæra almenningsrými og götur Vogabyggðar.

 

2. Þátttökuheimild

Þátttökuheimild hafa þeir listamenn sem forvalsnefnd hefur valið úr innsendum umsóknum. Hver þátttakandi skili inn einni til tveimur tillögum. Heimilt er að skila tveimur útgáfum af sömu tillögu.

 

3. Trúnaðarmaður

Trúnaðarmaður samkeppninnar hefur verið tilnefndur af SÍM, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.

 

4. Keppnisgögn

Gögn vegna samkeppninnar, teikningar, ljósmyndir og skilgreiningar, eru aðgengileg á vefsíðunni reykjavik.is/listaverk-vogabyggd.

 

5. Fyrirspurnir

Fyrirspurnir skal senda trúnaðarmanni samkeppninnar á netfangið: vogabyggd.samkeppni@reykjavik.is. Allar fyrirspurnir skulu vera skriflegar og hafa borist eigi síðar en 1. október. Trúnaðarmaður mun senda öllum þátttakendum í tölvupósti yfirlit yfir þær spurningar sem berast, ásamt svörum, jafnóðum og þau berast.

 

6. Keppnistillögur

Hverri tillögu skal fylgja:

a) Líkan og/eða þrívíddarteikning af tillögunni. Útlitsteikningar frá fjórum hliðum eða eins og við á s.s. ef verkið er tvívítt. Heimilt er að setja mynd af tillögunni inn í mynd af framtíðarumhverfi verksins, ef þess er kostur, eða annað umhverfi sem ætla má að gefi mynd af framtíðarumhverfi þess. Teikningar og ljósmyndir skulu settar upp á A3 blöð.

b) Greinargerð um hugmyndina að baki verkinu, efnisval, uppbyggingu og útfærslu fylgi með á einu til þremur A4 blöðum.

c) Áætlaður kostnaður við gerð verksins, þ.m.t. helstu kostnaðarliðir og höfundargreiðsla.

Öllum gögnum skal skilað bæði rafrænt og á útprentuðum blöðum að undanskildum módelum.

Ef þátttakandi getur ekki sökum fjarveru komið því við að afhenda gögn sín eins og um er rætt í liðum a, b og c getur hann sent gögnin rafrænt eingöngu og mun trúnaðarmaður þá prenta gögn á ábyrgð þátttakanda.  

Heimildir um samkeppnina verða varðveittar í Listasafni Reykjavíkur.

 

7. Skil keppnistillagna og skilafrestur

Keppnistillögur skal merkja með einkennistölu tillögunnar, talnarunu sem trúnaðarmaður afhendir hverjum þátttakanda, í hægra horni neðst á hverju blaði. Með tillögunni skal fylgja lokað umslag merkt einkennistölunni og inni í því skal vera rétt nafn höfundar, kennitala, heimilisfang og símanúmer.

Umbúðir um tillögurnar skulu merktar með eftirfarandi hætti:

Samkeppni um gerð listaverks í Vogabyggð
Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhúsi
Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík

Umbúðir skulu einnig merktar með einkennistölu tillögunnar.

Tillögurnar skulu afhendar trúnaðarmanni SÍM skv. samkomulagi fimmtudaginn 15. nóvember 2018. Við afhendingu tillagna fær keppandi kvittun merkta einkennistölu tillögunnar.

Rafræn gögn má afhenda á minnislykli og/eða senda á netfangið vogabyggd.samkeppni@reykjavik.is

Með afhendingu á tillögu í samkeppnina telst þátttakandi samþykkja keppnislýsinguna og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Í samkeppnisferlinu verður farið með öll gögn sem trúnaðarmál.

 

8. Valnefndir

Samkeppnin er lokuð samkeppni með opnu forvali með forvalsnefnd og dómnefnd. Valnefndir eru skipaðar fulltrúum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Forvalsnefnd er skipuð af menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar. Í forvalsnefnd eiga sæti þrír fulltrúar þar af einn án tilnefningar, einn tilnefndur af innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur og einn tilnefndur af SÍM. Stefnt er að því að forvalsnefnd ljúki störfum fyrir 17. maí 2018.

Í dómnefnd samkeppninnar eiga sæti fimm fulltrúar þar af einn skipaður af menningar- og ferðamálaráði og einn af umhverfis- og skipulagsráði, báðir án tilnefningar, einn dómnefndarmaður tilnefndur af innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur og tveir tilnefndir af SÍM. Stefnt er að því að dómnefnd ljúki störfum í desember 2018. 

 

9. Sérfræðiálit

Dómnefnd samkeppninnar er heimilt að leita eftir áliti utanaðkomandi sérfræðinga varðandi einstök atriði telji hún þess þörf.

 

10. Úrslit

Þegar dómnefnd hefur lokið störfum og hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að velja eitt eða fleiri verk til útfærslu birtir hún niðurstöður sínar.

Dómnefnd skal skila skriflegu áliti með rökstuðningi fyrir vali á ákveðinni tillögu/tillögum til trúnaðarmanns. Ef dómnefnd telur enga tillögu koma til greina til útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum innsendum tillögum. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

 

11. Sýning

Haldin verður sýning á tillögum samkeppninnar í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur fljótlega eftir að úrslit liggja fyrir.

 

12. Þóknun

Hverjum þeim allt að átta listamönnum sem veljast til þátttöku í samkeppninni verða greiddar 600.000.- krónur fyrir tillögugerðina, sé hún fullnægjandi samkvæmt keppnislýsingu.

Þegar niðurstaða liggur fyrir verður samið sérstaklega við höfund/höfunda um útfærslu verksins og hans/þeirra hlut í því.

 

13. Samkeppnisreglur

Um keppnina gilda samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna. Keppnislýsing þessi hefur verið samþykkt af stjórn SÍM og menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar.  

 

14. Úrvinnsla

Að því gefnu að verkkaupi sé sáttur við niðurstöðu dómnefndar verður gengið til samninga við höfund/höfunda verks eða verka sem valin hafa verið. Gert er ráð fyrir að samningum verði lokið fyrir áramót. Dómnefnd er heimilt að hafna öllum tillögum.

Aðrir þátttakendur fá gögn sín afhent eða send í pósti.

 

 

Tímaáætlun – 2018 (birt með fyrirvara um breytingar)

2. maí               Síðasti skiladagur umsókna um þátttöku í forvali.

28. maí             Niðurstaða forvalsnefndar kynnt.

28. júní             Fundur með völdum listamönnum, hönnuðum og fulltrúum Reykjavíkurborgar og þeim kynnt verkefnið.  Farið yfir keppnislýsingu og  fylgigögn.

1. október          Síðasti dagur til að senda inn fyrirspurnir

15. nóvember.   Síðasti skiladagur keppnistillagna.

Desember         Dómnefnd lýkur störfum.

Verkið verður unnið í samhengi við framkvæmdahraða valinna svæða í Vogabyggð.

 

Spurningar og svör / Questions and answers

 

Spurning: Can you please clarify what ID number are you looking for please?
A resume with information about art career, name, id-number, address, phone number and email address.

Svar: The ID number we are referring to only applies to Icelandic citizens. Artists from other countries do not need to send this information.

 

Spurning: Can you please send some information or picture that would explain where this neighbourhood is?

Svar: Vogabyggð is a new residential area in Reykjavík. The location of the area has been marked on this map. Please note that the map shows the current layout of the area and not the future residential planning. This map from the local area plan gives a better idea of the future layout. Further information can be found on the website of the architecture firm Teiknistofan Tröð, in English and in Icelandic.

 

Spurning: Would you accept performative proposals? Or are you only looking for permanent visual works?

Svar: There are no restrictions on which media artists can choose for their proposals.

 

Spurning: The project budget is listed as 140 million ISK. If for example 6 works of art are selected, could you please clarify how the budget will be split?

Svar:  The final selection committee can choose one work or concept that uses the whole budget, but does also have the possibility of choosing more works if the total cost does not exceed the budget of 140 million ISK. The division of the budget is depending on the outcome of the second part of the competition.

 

Spurning: Where can I find information about the competition in English?

Svar: The competition description in English can be found here: 

https://reykjavik.is/sites/default/files/competition_description_terms_english.pdf

 

Spurning: Hafa arkitektar þáttökurétt í samkeppninni?

Svar: Í lýsingu samkeppninnar kemur fram að þeir hafi rétt á þátttöku sem forvalsnefnd velur úr innsendum umsóknum. Markmið samkeppninnar er að fá fram tillögu að útilistaverki og ef ferill eða önnur reynsla bendir til þess að viðkomandi geti uppfyllt þau markmið er ekkert því til fyrirstöðu að senda inn umsókn um þátttöku. Forvalsnefnd horfir til listræns ferils, gæða fyrri verka, reynslu og hæfni til að útfæra varanlegt listaverk í almenningsrými.

 

Spurning: Hafa erlendir aðilar rétt til að taka þátt í samkeppninni? Eru upplýsingar um samkeppnina til á ensku?

Svar: Erlendum aðilum er velkomið að taka þátt í samkeppninni. Á vef Listasafns Reykjavíkur er frétt um samkeppnina á ensku með link inn á vefsíðu samkeppninnar þar sem finna má pdf skjal með upplýsingum á ensku. Sjá hér.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 4 =