Reglur um niðurgreiðslu vegna daggæslu | Reykjavíkurborg

Reglur um niðurgreiðslu vegna daggæslu

 • Hjá dagforeldri

Gildissvið

Reglur þessar gilda um niðurgreiðslur skóla- og frístundasviðs til dagforeldra vegna daggæslu reykvískra barna í heimahúsum. Niðurgreiðsla er greidd til dagforeldra til lækkunar daggæslugjöldum foreldra. Niðurgreiðslan fylgir barninu og gera dagforeldri og foreldrar samning um að niðurgreiðsla skóla- og frístundasviðs fari til dagforeldris að nánari skilyrðum uppfylltum. Í ákveðnum tilfellum geta foreldrar sótt um hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldris hjá skóla- og frístundasviði.

1. Reglur og upplýsingar um dagforeldra

1.a. Starfsleyfi dagforeldra og reglur sem dagforeldrum ber að fara eftir

Dagforeldrar starfa sjálfstætt en skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar veitir dagforeldrum starfsleyfi og sinnir lögbundnu eftirliti með starfsemi þeirra, sbr. reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum. Nánari upplýsingar um eftirlit með dagforeldrum má sjá í 35. gr. framangreindrar reglugerðar og í bæklingi skóla- og frístundasviðs um daggæslu í heimahúsum.

Dagforeldri er fær niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs vegna daggæslu ber að fara eftir reglum þessum. Dagforeldri ber að kynna foreldrum barna í daggæslu reglur þessar og ber dagforeldri að kanna hvort skilyrðum niðurgreiðslu sé fullnægt.

Starfsleyfi dagforeldris kveður á um hámarksfjölda barna í daggæslu. Ekki er niðurgreitt með fleiri börnum en þar er kveðið á um. Fái dagforeldri niðurgreiðslu frá öðrum sveitarfélögum vegna daggæslu eða ef dagforeldri er með börn sem ekki er niðurgreitt með, fækkar börnum sem skóla- og frístundasvið greiðir með um sama fjölda, þannig að barnafjöldi í daggæslu sé ekki umfram þann fjölda sem dagforeldri hefur starfsleyfi fyrir.

1.b. Upplýsingar um dagforeldra

Á vefsíðu skóla- og frístundasviðs www. skolarogfristund.is er listi yfir starfandi dagforeldra í Reykjavík. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkur eru einnig með lista yfir dagforeldra í hverju hverfi og veitir daggæsluráðgjafi auk þess allar nánari upplýsingar um starfsemi og vinnutíma dagforeldra og laus pláss.

Daggæsluráðgjafar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkur veita dagforeldrum og foreldrum ráðgjöf.

2. Að velja dagforeldri og bið eftir leikskólaplássi

2.a Val foreldra á dagforeldri

Vistun barns hjá dagforeldri er ætíð á ábyrgð foreldra, sjá nánar reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu í heimahúsum. Réttarsamband dagforeldris og foreldra er einkaréttarlegs eðlis. Skóla- og frístundasvið hefur engu að síður eftirlit með starfsemi dagforeldra sbr. 35. gr. reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu í heimahúsum.

Í kjölfar ákvörðunar foreldris um dvöl barns hjá dagforeldri undirrita dagforeldri og foreldrar samning um niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs, sjá nánar í gr. 3.b. og einnig dvalarsamning. Gerð dvalarsamnings dagforeldris og foreldra fer samkvæmt samkomulagi aðilanna og er án aðkomu skóla- og frístundasviðs.

Foreldrar er njóta lækkunar daggæslugjalda vegna niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs skulu lúta reglum þessum.

2.b. Tilkynning um leikskólapláss

Skóla- og frístundasvið áskilur sér rétt til að upplýsa dagforeldri með rafrænum hætti um að barn í daggæslu hafi fengið úthlutað plássi á leikskóla Reykjavíkurborgar. Tilkynningin er eingöngu til upplýsinga fyrir dagforeldri (Tekur gildi með nýja leikskólakerfinu Völu þegar unnt verður að senda tilkynningu rafrænt.). Segja ber upp samningi um niðurgreiðslu með formlegum hætti, sjá 10. gr. reglnanna. Uppsögn dvalarsamnings foreldra og dagforeldra er samkvæmt ákvörðun þeirra þar um.

3. Skilyrði niðurgreiðslu til dagforeldris vegna daggæslu

3.a. Skilyrði um aldur, lögheimili barns og fasta búsetu

Skilyrði niðurgreiðslu til lækkunar daggæslugjalda er að skráð lögheimili barns í þjóðskrá og föst búseta þess sé í Reykjavík.

Foreldrar barna sem eru tímabundið án kennitölu og lögheimilis eða þau skráð utangarðs í þjóðskrá geta fengið niðurgreidda daggæslu  í Reykjavík. Það er skilyrði að foreldrar og barn séu með fasta búsetu í Reykjavík, skv. skilgreiningu laga um lögheimili nr. 21/1990, og að gera megi ráð fyrir, að lögheimili þegar það er fengið, verði í Reykjavík

Farið er fram á staðfestingu  um búsetu í Reykjavík með eftirfarandi gögnum:

Ríkisborgarar EES og EFTA ríkja og útlendingar sem heimilt er að dvelja á Íslandi án dvalarleyfis skv. lögum um útlendinga nr. 96/2002, þurfa að leggja fram staðfestingu á beiðni um skráningu lögheimilis í Reykjavík.  

Ríkisborgarar ríkja sem ekki eiga aðild að EES eða EFTA samningnum og er óheimilt að dvelja á Íslandi án dvalarleyfis, skv. lögum um útlendinga nr. 96/2002, þurfa að leggja fram staðfestingu á umsókn um dvalarleyfi og þarf að koma fram í umsókn að viðkomandi sé skráður með heimilisfang í Reykjavík.   

Hælisleitendur skv. lögum um útlendinga nr. 96/2002, þurfa að leggja fram skráningarskírteini  hælisleitanda  frá Útlendingastofnun og þarf Útlendingastofnun að hafa gert samning við Reykjavíkurborg um að framfærsla og húsnæði hælisleitanda verði í höndum Reykjavíkurborgar.

Flóttamannahópar og flóttamenn, skv. lögum um útlendinga nr. 96/2002, sem fengið hafa dvalarleyfi og Útlendingastofnun hefur gert samning um þjónustu vegna þeirra við Reykjavíkurborg þurfa að leggja fram staðfestingu þessa efnis. 

Niðurgreitt er fyrir börn hjóna og sambúðarfólks frá 9 mánaða aldri og fyrir börn einstæðra foreldra og námsmanna frá 6 mánaða aldri. Greiðslur vegna barna frá 6 mánaða aldri eru háðar sömu skilyrðum og gerð eru til að fá greidda hærri niðurgreiðslu vegna hjúskaparstöðu eða náms, sjá grein 6.a. og 6.b. í reglum þessum. Niðurgreitt er þar til barn hefur grunnskólagöngu um 6 ára aldur, ef öllum skilyrðum niðurgreiðslu er fullnægt.

Þegar barn hefur nám í grunnskóla fellur niður réttur til niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs.

3.b. Skilyrði um samning milli dagforeldris og foreldra um niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs

Það er skilyrði fyrir niðurgreiðslu að dagforeldri og foreldrar undirriti samning um niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs vegna dvalar barns hjá dagforeldri. Fyllt skal í alla reiti samningsins og foreldrum afhent eintak af honum. Þegar barn hættir í daggæslu ber að fylla út viðeigandi eyðublað um uppsögn á samningi um niðurgreiðslu, sjá nánar 10. grein reglnanna. Það sama gildir um breytingar á samningi um niðurgreiðslu, sjá nánar 5. gr. reglnanna.

Nýjum samningum um niðurgreiðslu ber að skila til þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar í hverfi dagforeldris eigi síðar en 15. dag hvers mánaðar.

3.c. Skilyrði um auglýstan opnunartíma

Ekki er greitt fyrir fjölda dvalarstunda umfram auglýstan fjölda dvalarstunda dagforeldris á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

3.d. Skilyrði um staðfestingarblað dagforeldris

Það er skilyrði niðurgreiðslu að dagforeldri skili þjónustumiðstöð staðfestingarblaði dagforeldris eða skrái upplýsingar í upplýsingakerfið Völu eigi síðar en 15. dag mánaðar. Niðurgreiðsla verður greidd í næsta mánuði þar á eftir.

Greitt er í samræmi við upplýsingar sem fram koma á staðfestingarblaði eða upplýsingar í leikskólakerfinu Völu, þar sem dagforeldri skráir upplýsingar um öll börn sem uppfylla skilyrði um niðurgreiðslu. Veita þarf m.a. upplýsingar um nöfn allra barna, kennitölur, lögheimili, fasta búsetu, tímabil vistunar barns í viðkomandi mánuði og fjölda dvalarstunda skv. dvalarsamningi. Sérstaklega skal taka fram ef breytingar verða frá fyrra mánuði, s.s. ef nýtt barn byrjar, barn hættir eða fjölda dvalarstunda er breytt.

Skrá þarf upplýsingar vegna hærri niðurgreiðslu á staðfestingarblað eða í upplýsingakerfið Völu, s.s. vegna systkina, námsmanna, öryrkja og einstæðra foreldra. Skráning skal eingöngu gerð þegar öll skilyrði eru uppfyllt, auk þess sem viðeigandi vottorð, umsóknir eða staðfestingar þurfa að hafa borist þjónustumiðstöð eða skóla- og frístundasviði eftir því sem við á.

Fái dagforeldri niðurgreiðslu frá öðrum sveitarfélögum vegna daggæslu eða ef dagforeldri er með börn sem ekki er niðurgreitt með fækkar börnum sem skóla- og frístundasvið greiðir með um sama fjölda þannig að heildarfjöldi barna í daggæslu sé ekki umfram það sem dagforeldri hefur starfsleyfi fyrir. Því er gerð krafa um að veittar séu upplýsingar um önnur börn í daggæslu.

4. Niðurgreiðsla

Niðurgreitt er mánaðarlega. Greitt er fyrirfram fyrir hvern mánuð, fyrsta virkan dag í hverjum mánuði. Ef upplýsingum er skilað eftir 15. dag mánaðarins getur það leitt til þess að ekki sé unnt að greiða fyrirfram vegna næsta mánaðar á eftir.

5. Breytingar á vistunartíma barns

Ef breyting verður á vistunartíma barns ber dagforeldri og foreldrum að fylla út þar til gert eyðublað. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur vegna breytinga er einn mánuður og skal breyting miðast við 1. og 15. hvers mánaðar. Eyðublaðinu ber að skila til þjónustumiðstöðvar eigi síðar en 15. dag mánaðar áður en breyting á sér stað.

6. Fjárhæð niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs

Skóla- og frístundasvið greiðir hluta af kostnaði við vistun barna í hlutfalli við þann tíma sem þau dvelja hjá dagforeldri.

Fjárhæð niðurgreiðslu og hámarksfjöldi niðurgreiddra dvalarstunda fer eftir ákvörðun borgarstjórnar hverju sinni og er birt á heimasíðu sviðsins í yfirliti um niðurgreiðslu vegna barna hjá dagforeldrum.

Fjöldi niðurgreiddra dvalarstunda skal vera í samræmi við fyrrgreinda ákvörðun og dvalarsamning foreldra við dagforeldri.

Foreldrar geta sótt um hærri niðurgreiðslu til skóla- og frístundasviðs sjá nánar gr. 6.a., 6.b., 6.c., 6.d. og 6.e. Ef hærri niðurgreiðsla er veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga foreldra er hægt að endurkrefja þá um ofgreidda niðurgreiðslu samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.

Hærri niðurgreiðsla skv. reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum er veitt, að öllum skilyrðum uppfylltum, til þess foreldris sem, samkvæmt þjóðskrá, hefur sama lögheimili og fjölskyldunúmer og barn hjá dagforeldri.

Hærri niðurgreiðsla samkvæmt þessum reglum er ekki veitt afturvirkt og miðast það við þann dag sem gögnum er skilað til skóla- og frístundasviðs. Þó er heimilt að leiðrétta niðurgreiðslu einn mánuð afturvirkt ef foreldri hefur t.d. láðst að sækja um hærri niðurgreiðslu og öllum skilyrðum hærri niðurgreiðslu var fullnægt á þeim tíma.

Hærri niðurgreiðsla fellur niður án fyrirvara uppfylli foreldrar ekki skilyrði hærri niðurgreiðslu.

Ef veitt hefur verið hærri niðurgreiðsla á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga sem stafa frá dagforeldri er hægt að endurkrefja dagforeldri samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Það sama á við vegna ofgreiðslu sem verður vegna breytinga sem ekki voru fyrirséðar þegar niðurgreitt var vegna viðkomandi mánaðar.

6.a Hærri niðurgreiðsla vegna barna námsmanna

Hærri niðurgreiðsla er greidd vegna barna hjóna og sambúðarfólks sem bæði uppfylla eftirtalin skilyrði:

 1. Eru í háskólanámi og skráð í að lágmarki 22 ECTS einingar á önn. Taka þarf fram á vottorði frá skóla að um fullt nám sé að ræða.
 2. Eru í framhaldsskóla og skráð í fullt nám að lágmarki 15 einingar á önn. Taka þarf fram á vottorði frá skóla að um fullt nám sé að ræða.

Skila skal skólavottorðum fyrirfram fyrir hverja önn þar sem koma fram upplýsingar um einingafjölda og staðfesting á því að um fullt nám sé að ræða.

Nám sem tekið er gilt er það sama og nám sem er lánshæft hjá LÍN.

Eignist hjón eða sambúðarfólk, er notið hafa hærri niðurgreiðslu vegna náms, barn, geta þau sótt um að fá hærri niðurgreiðslu vegna náms á meðan fæðingarorlof stendur, þó að hámarki í 9 mánuði þrátt fyrir að annað foreldrið uppfylli ekki framangreind skilyrði um lágmarksfjölda eininga á önn enda fylgi umsókn staðfesting frá fæðingarorlofssjóði um að það foreldri sem ekki uppfyllir skilyrði um hærri niðurgreiðslu vegna náms sé í fæðingarorlofi.

Hærri niðurgreiðsla er greidd frá þeim degi sem skólavottorðum er skilað til skóla- og frístundasviðs. Hærri niðurgreiðsla er ekki veitt afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr.

6.b. Hærri niðurgreiðsla vegna barna einstæðra foreldra

Hærri niðurgreiðsla er veitt að fenginni umsókn foreldris sem staðfest er af dagforeldri. Umsókn skal endurnýjuð árlega, fyrir 15. ágúst ár hvert og send skóla- og frístundasviði.

 1. Hærri niðurgreiðsla er greidd til dagforeldris vegna barna einstæðra foreldra sem skráðir eru einstæðir í Þjóðskrá.
 2. Skóla- og frístundasvið getur óskað eftir frekari staðfestingu á því að foreldrar séu einstæðir, s.s. að foreldri undirriti staðfestingu þess efnis.
 3. Ef foreldrar skilja/slíta sambúð er greidd hærri niðurgreiðsla frá þeim degi sem upplýsingar eru skráðar í Þjóðskrá.

Hærri niðurgreiðsla er veitt frá þeim degi er framangreindum skilyrðum er fullnægt. Hærri niðurgreiðsla er ekki veitt afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr.

Unnt er að sækja um undantekningu frá framangreindu þegar foreldri getur tímabundið ekki fengið hjúskaparstöðu sína skráða í þjóðskrá sem einstætt foreldri.

Það er skilyrði að foreldri sæki um hærri niðurgreiðslu á þar til gerðu eyðublaði og afhendi þjónustumiðstöð og Þjóðskrá síðan staðfesti með skráningu sinni að foreldrið hafi verið einstætt á þeim tíma sem um ræðir. Skóla- og frístundasvið leiðréttir niðurgreiðslu afturvirkt frá dagsetningu umsóknar sé öllum skilyrðum afsláttar til einstæðra fullnægt en þó að hámarki í sex mánuði.

6.c. Hærri niðurgreiðsla vegna örorku foreldra

Niðurgreiðsla er hærri vegna barna 75% öryrkja og til þeirra er geta framvísað gildu endurhæfingarlífeyrisskírteini.

 1. Sækja þarf um hærri niðurgreiðslu vegna örorku foreldra eða endurhæfingar og skal umsókninni fylgja afrit af örorkuskírteini sem staðfestir að lágmarki 75% örorku eða gilt endurhæfingarlífeyrisskírteini.
 2. Niðurgreiðsla er hærri frá þeim degi sem foreldri skilar umsókn og afriti af örorkuskírteini til skóla- og frístundasviðs.

Hærri niðurgreiðsla er veitt frá þeim degi er framangreindum skilyrðum er fullnægt. Hærri niðurgreiðsla er ekki veitt afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr.

6.d. Hærri niðurgreiðsla vegna systkina

Ef systkini eru hjá dagforeldri greiðist viðbótargreiðsla skv. ákvörðun borgarráðs. Fjárhæðin er birt á heimasíðu sviðsins í yfirliti yfir niðurgreiðslu vegna barna hjá dagforeldrum.

6.e. Hærri niðurgreiðsla til starfsmanna leikskóla Reykjavíkurborgar

Hærri niðurgreiðslu fá starfsmenn leikskóla Reykjavíkurborgar sem:

 1. Sækja um hærri niðurgreiðslu á þar til gerðu eyðublaði.
 2. Eru að lágmarki í 70% starfi til að fá hærri niðurgreiðslu fyrir barn í heilsdagsvistun.
 3. Eru að lágmarki í 50% starfi til að fá hærri niðurgreiðslu fyrir barn í hálfsdagsvistun.
 4. Leikskólastjóri í leikskóla starfsmanns hefur staðfest réttmæti umsóknar.

Hærri niðurgreiðsla er greidd frá því að umsókn berst skóla- og frístundasviði. Hærri niðurgreiðsla er ekki veitt afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr.

Hærri niðurgreiðsla fellur niður þegar starfsmaður hættir störfum hjá leikskóla Reykjavíkurborgar eða fer í launalaust leyfi. Hærri niðurgreiðsla fellur þó ekki niður þegar starfsmaður fær launalaust leyfi vegna náms sem nýtist í starfi á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um launalaust leyfi starfsmanna. 

Þegar starfsmaður hættir störfum hjá leikskóla Reykjavíkurborgar eða fer í launalaust leyfi án þess að leyfið sé vegna náms sem nýtist í starfi á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um launalaust leyfi ber biðkomandi að tilkynna skóla- og frístundasviði það með útfyllingu þar til gerðs eyðublaðs. Þegar starfsmaður kemur úr launalausu leyfi án þess að leyfið sé vegna náms sem nýtist í starfi á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um launalaust leyfi ber starfsmanni að sækja um afslátt að nýju. 

Starfsmanni ber einnig að tilkynna skóla- og frístundasviði ef starfshlutfall breytist þannig að það hafi áhrif á niðurgreiðslu til daggæslu.

Starfsmenn leikskóla Reykjavíkur með lögheimili utan Reykjavíkur með börn í vistun hjá dagforeldri fá greidda hærri niðurgreiðslu, enda uppfylli starfsmaður skilyrði hærri niðurgreiðslu til starfsmanna leikskóla Reykjavíkurborgar og sæki um hærri niðurgreiðslu á þar til gerðu eyðublaði. Fjárhæð niðurgreiðslunnar er mismunur á gjaldaflokki I og II á niðurgreiðslu vegna barna hjá dagforeldrum. Starfsmaður skal að lágmarki einu sinni á ári skila dvalarsamningi barnsins og greiðslukvittunum vegna daggæslugjalda. Hærri niðurgreiðsla gildir frá því umsókn berst skóla- og frístundasviði. Hærri niðurgreiðsla er ekki veitt afturvirkt, sjá þó undanþágu í 6. gr.

Hafi starfsmaður fengið hærri niðurgreiðslu vegna barns hjá dagforeldri þegar ekki var réttur til hærri niðurgreiðslu áskilur skóla- og frístundasvið sér rétt til að krefjast greiðslu ofgreiddrar niðurgreiðslu afturvirkt.

7. Niðurgreiðsla skóla- og frístundasviðs og lokun daggæslu

Dagforeldrum er greidd niðurgreiðsla vegna dvalar barna með lögheimili og fasta búsetu í Reykjavík mánaðarlega í 11 mánuði á ári að hámarki. Ekki er niðurgreitt í júlí mánuði. Gert er ráð fyrir að öll börn taki sumarleyfi í einn mánuð.

Dagforeldri er heimilt að loka daggæslu vegna námskeiðsdags einn dag á ári og einnig vegna tilfallandi veikinda eða sérstakra skammvinnra forfalla án þess að niðurgreiðsla skerðist. Sama gildir óski dagforeldri, í fullri samvinnu við foreldra, að taka allt að fimm daga frí á ári. Loki dagforeldri umfram framangreint lækkar niðurgreiðsla hlutfallslega.

Dagforeldri er heimilt að loka daggæslu á fjögurra ára fresti, sem samsvarar einum degi, á meðan það sækir námskeið í slysavörnum sem lið í endurnýjun starfsleyfis.

Dagforeldri ber að tilkynna foreldrum og þjónustumiðstöð um lokun umfram framangreinda daga eigi síðar en 15. dag mánaðar áður en leyfi hefst þannig að til lækkunar niðurgreiðslu komi í þeim mánuði er umframlokun á sér stað.

8. Leiðrétting niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs að beiðni dagforeldris

Niðurgreiðsla verður ekki greidd lengra aftur í tímann en 3 mánuði frá umsóknardegi. Ef skóla- og frístundasvið hefur niðurgreitt fyrir barn, t.d. vegna annarrar vistunar, verður niðurgreiðsla lækkuð um sömu fjárhæð.

Ef dagforeldri verður vart við mistök í niðurgreiðslu ber því að tilkynna skóla- og frístundasviði það án tafar.

9. Ofgreidd niðurgreiðsla

Komi í ljós að skóla- og frístundasvið hafi ofgreitt niðurgreiðslu af einhverjum ástæðum, t.d. vegna rangra upplýsinga frá dagforeldri, mun skóla- og frístundasvið lækka niðurgreiðslu til dagforeldris við næstu greiðslu sem því nemur eða krefjast endurgreiðslu. Heimilt er að krefjast endurgreiðslu þrátt fyrir að barn sé hætt í daggæslu. Ef ekki reynist unnt að skuldajafna fer krafan í innheimtu sem hefur í för með sér vaxta- og innheimtukostnað. Dagforeldri getur óskað eftir að endurgreiðslu verði skipt niður á þrjá mánuði.

10. Uppsögn

Dagforeldri og foreldrum ber að segja upp samningi um niðurgreiðslu vegna daggæslu barns á þar til gerðu eyðublaði. Skóla- og frístundasvið niðurgreiðir á meðan uppsagnarfrestur er í gildi, þó að hámarki í einn mánuð og skal uppsögn miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Fyllt skal í alla reiti eyðublaðsins. Segi foreldrar upp samningi um niðurgreiðslu fyrir t.d. 15. dag mánaðarins getur greiðsla með barni hafist á nýjum stað 15. dag næsta mánaðar á eftir.

Dagforeldri ber að skila eyðublaði með uppsögn á niðurgreiðslu til þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar eða skrá upplýsingar um uppsögn á niðurgreiðslu í upplýsingakerfið Völu þegar uppsögn á sér stað til að unnt sé að vista barn í aðra vistun en einnig til að tryggt sé að ekki verði niðurgreitt vegna barns eftir að uppsagnarfrestur er liðinn, sbr. framangreinda fresti. Foreldrar geta kynnt sér hvort dagforeldri hafi skilað uppsögn á samningi um niðurgreiðslu í Rafrænu Reykjavík.

Uppsögn dvalarsamnings dagforeldris og foreldra sætir sjálfstæðri uppsögn í samræmi við ákvæði viðkomandi dvalarsamnings.

Einungis er niðurgreitt með barni vegna vistunar á einum stað í einu, þ.e. í leikskóla eða hjá dagforeldri.

Mikilvægt er að uppsagnarfrestur hjá dagforeldri sé virtur því niðurgreiðsla fyrir barn sem byrjar í vistun á nýjum stað hefst ekki fyrr en að uppsagnarfresti liðnum.

Fyrsti mánuður barns hjá dagforeldri er reynslumánuður foreldra og dagforeldris. Ákveði foreldrar eða dagforeldri að barn hætti daggæslu innan fyrsta mánaðarins er fyrirvaralaus uppsögn heimil. Dagforeldri á rétt á niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs fyrir þennan mánuð. Hefji barn daggæslu hjá öðru dagforeldri innan sama mánaðar verður sú dvöl ekki niðurgreidd af hálfu skóla- og frístundasviðs nema til komi samþykki fyrra dagforeldris um endurgreiðslu niðurgreiðslu.

11. Eftirlit með niðurgreiðslu skóla- og frístundasviðs

Skóla- og frístundasvið áskilur sér rétt til að kanna hvort farið er að reglum þessum, t.d. með skoðun gjaldskrár, dvalarsamninga og reikninga til foreldra ásamt staðfestingu á að þeir séu greiddir, heimsóknum til dagforeldra og með annarri upplýsingagjöf frá dagforeldrum.

12. Niðurfelling niðurgreiðslu til dagforeldris

Skóla- og frístundasvið áskilur sér rétt til að fella niður greiðslur skv. þessum reglum, t.d. ef um meiriháttar brot er að ræða á reglunum, dagforeldri missir leyfi Reykjavíkurborgar til daggæslu í heimahúsi eða barn byrjar á leikskóla.

13. Gildistaka

Reglur þessar taka gildi 1. september 2010.

Breytingar:
6.gr. 1. mgr. um að gjaldflokkur II þar sem annað foreldri er í námi falli út tekur gildi 1. janúar 2011.
7. gr. 2. mgr. um að dagforeldri sé heimilt að taka 5 daga frí á ári tekur gildi 16. desember 2010.
4. mgr. í gr. 1.a varðandi yfirlýsingu dagforeldris fellur brott 1. febrúar 2011.
Gr. 2.c varðandi upplýsingar um börn á biðlista og upplýsingar um boð um vistun fellur brott 1. apríl 2011.
5. og 6. mgr. 6. gr. taka gildi 1. febrúar 2011.
Orðin „í dagskóla“ í gr. 6.a falla brott 1. febrúar 2011.
2. mgr. í gr. 6.a um að nám sem tekið sé gilt sé það sama og nám sem er lánshæft hjá LÍN tekur gildi 1. febrúar 2011.
4. og 5. mgr. í gr. 6.b tekur gildi 1. febrúar 2011.
Orðin „t.d. með skoðun dvalarsamninga, heimsóknum til dagforeldra og með annarri upplýsingagjöf frá dagforeldrum“ í 11. gr. falla brott 1. febrúar 2011.

Samþykkt í borgarráði 3. febrúar 2011.

Breytingar:
Í stað orðsins „framlag“ kemur orðið „niðurgreiðsla“ eða „niðurgreitt“ og breytist beyging setninga til samræmis við það.
Í stað orðsins „Leikskólasvið“ kemur orðið „skóla- og frístundasvið“Í stað þess að vísað sé í veffang Leikskólasviðs er vísað í veffang skóla- og frístundasviðs.
Felld er út í gr. 3.d tilvísun til þess að unnið sé að gerð nýs upplýsingakerfis fyrir Leikskólasvið.
Fellt er út orðið „Nýja“ í 2. mgr. í gr. 3.d.
Síðasta setning 1. mgr. í gr. 2.a breytist og orðast svo:
Skóla- og frístundasvið hefur engu að síður eftirlit með starfsemi dagforeldra, sbr. 35. gr. reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu í heimahúsum.
Gr. 2.c fellur brott.
Til verður ný 3. mgr. 7. gr. sem orðast svo:
Dagforeldri er heimilt að loka daggæslu á fjögurra ára fresti, sem samsvarar einum degi, á meðan það sækir námskeið í slysavörnum sem lið í endurnýjun starfsleyfis.
Í 1. mgr. 8. gr. falla niður orðin „ eða þjónustutryggingar“.
Í 2. mgr. 10. gr. falla niður orðin „eða óska eftir þjónustutryggingu“.
Í 4. mgr. 10. gr. falla niður orðin „eða þá að foreldrar fá greidda þjónustutryggingu.
11. gr. orðast svo:
Skóla- og frístundasvið áskilur sér rétt til að kanna hvort farið er að reglum þessum, t.d. með skoðun gjaldskrár, dvalarsamninga og reikninga til foreldra ásamt staðfestingu á að þeir séu greiddir, heimsóknum til dagforeldra og með annarri upplýsingagjöf frá dagforeldrum.
Í 12. gr, falla niður orðin „ eða þjónustutrygging er greidd vegna tímabilsins“.

Allar framangreindar breytingar taka gildi 1. mars 2012.

Breytingar samþykktar í skóla- og frístundaráði 1. febrúar 2012 og í borgarráði 9. febrúar 2012.

Breytingar:
2. mgr. 6. gr. a um hærri niðurgreiðslu í fæðingarorlofi tekur gildi 15. mars 2013.
6. gr. c um hærri niðurgreiðslu vegna endurhæfingar tekur gildi 15. mars 2013.
6. e um hærri niðurgreiðslur vegna barna starfsmann í leikskóla Reykjavíkur með lögheimili utan Reykjavíkur tekur gildi 15. mars 2013.

Breytingar samþykktar í skóla- og frístundaráði 6. mars 2013 og í borgarráði 14. mars 2013.

Breytingar:

2. til 6. mgr. í gr. 3.a varðandi niðurgreiðslu daggæslu vegna barna sem eru tímabundið án kennitölu og lögheimilis tekur gildi 1. janúar 2015. Samþykkt í skóla- og frístundaráði 3. desember 2014 og í borgarráði 11. desember 2014.

Breytingar:

4. mgr. 6.gr  síðasti málsl. árétting um sama lögheimili og fjölskyldunúmer.

Gr. 6e, 4. og 5. mgr. varðandi hærri niðurgreiðslu til starfsmanna í launalausu leyfi tekur gildi 12.01.2015. Samþykkt í skóla- og frístundaráði 5. nóvember 2014 og borgarráði 8. janúar 2015.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 1 =