Rafhjól til láns | Reykjavíkurborg

Rafhjól til láns

Áhugasamir einstaklingar geta í sumar fengið lánuð rafreiðhjól í 5 – 6 vikur til að komast ferða sinna.  Reykjavíkurborg vill með þessu framtaki efla sjálfbærara samfélag og hvetja fólk til umhverfisvænni ferðavenja. Einnig vill borgin fá mynd af þörfum þeirra sem nota rafreiðhjól og hvort vandkvæði séu við notkun rafhjóla í Reykjavík.

  • Rafhjól á góðri leið
  • Á leið í vinnuna
  • Veldu þér fallegustu leiðina
  • Hvíldu bílinn í sumar
  • Hjól verða stöðugt tæknilegri

Þeir sem fá lánað rafhjól taka þátt í könnun til að mæla árangurinn hvort rafhjólið hafi hjálpað þeim við að breyta lífsstíl sínum.  Einnig verða þeir beðnir um að benda á það sem mögulega þarf að laga til að notkun rafhjóla gangi vel fyrir sig.

Rafhjól hafa marga kosti bæði fyrir notendur og samfélagið. Þau geta hentað stórum hópi fólks til og frá vinnu eða skóla, sem og í frítíma. Rafhjólin auðvelda að hjóla í mótvindi og brekkum, þannig að síður þarf að fara í sturtu eftir hjólaferðina og auðveldar þannig not hjóla í tengslum við vinnu.

Tilraunaverkefni til að afla þekkingar         

Verkefnið er tilraunaverkefni til að afla þekkingar á breyttum ferðavenjum. Reykjavíkurborg er með 25 rafreiðhjól til afnota fyrir verkefnið og fær fyrsti hópurinn hjólin afhent um miðjan apríl en verkefnið stendur yfir fram í október.  Hjólin eru af gerðinni Kalkhoff og eru þau með pedölum, en rafmótorinn léttir undir. 

Umsækjendur fylla út yfirlýsingu á netinu um áhuga sinn. Leitast verður við að hafa þátttakendahópinn fjölbreyttan með tilliti til aldurs og kyns. Gerð er sú krafa að þátttakendur hjóli minnst þrisvar sinnum í viku til og frá vinnu. Leitað er að þátttakendum 18 ára og eldri. 

Fyrri hluti verkefnisins miðar að því að skoða hvort það að lána út rafmagnshjól geti verið góð leið til að fá fólk til að velja umhverfisvænni ferðamáta. Nokkrar borgir hafa prófað að lána út rafmagnshjól til að kynna þennan ferðamáta fyrir einstaklingum og reyna að flýta innleiðingu rafmagnshjóla. Fyrstu hjólin verða afhent föstudaginn 13. apríl og mælingar hefjast 16. apríl.  

Seinni hluti verkefnisins miðar að því að skoða hvaða þarfir rafhjólamenn hafa sem og hvaða vandamál þeir upplifa við ferðir sínar. Kunnátta um þetta er nauðsynleg til að geta hlúð að þessum ferðamáta og til að fyrirbyggja vandamál og slys í framtíðinni. 

Umsjón með verkefninu      

Umhverfis- og skipulagssvið hefur umsjón með framgangi verkefnisins í samvinnu við Höskuld Kröyer hjá Trafkon AB.  Verkefnisstjóri er Kristinn Jón Eysteinsson hjá umhverfis- og skipulagssviði kristinn.j.eysteinsson@reykjavik.is 

Tengt efni:     

      

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

10 + 3 =