Menningar- og ferðamálaráð | Reykjavíkurborg

Menningar- og ferðamálaráð

Formaður ráðsins er Elsa Hrafnhildur Yeoman.

Menningar- og ferðamálaráð starfar í umboði borgarráðs samkvæmt samþykkt fyrir ráðið, samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001, með síðari breytingum, og eftir því sem lög mæla um, sbr. einnig heimild í 1. mgr. 41. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998.

Ráðið mótar stefnu í menningar-, ferða- og markaðsmálum, tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs hvað varðar verksvið þess. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun þess sé fylgt og fer með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður.

Menningar- og ferðamálaráð fer með hlutverk stjórnar Borgarbókasafns Reykjavíkur skv. bókasafnalögum nr. 150/2012 og stjórnar Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns Reykjavíkur skv. safnalögum nr. 141/2011.  Þá fer ráðið með málefni menningararfs, menningarminja og minjavörslu og mótar stefnu um húsavernd. Ráðið veitir umsagnir um deiliskipulafstillögur er snerta svæði þar sem standa hús og mannvirki er falla undir ákvæði 18., 29., 30., og 31. greinar laga um menningarminjar nr. 80/2012 og 37. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 12/2010 og breytingar á skipulagi þar sem sömu ákvæði gilda. Sjá einnig ákvæði laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og safnalaga nr. 141/2011.

Menningar- og ferðamálaráð fer m.a. með eftirtalin verkefni:

1. Gerir tillögur til borgarráðs um menningarstefnu Reykjavíkurborgar.

2. Hefur eftirlit með rekstri og gerir tillögur til borgarráðs um stefnumörkun eftirtaldra stofnanna: Borgarbókasafns Reykjavíkur, Listasafns Reykjavíkur, og Borgarsögusafns Reykjavíkur.

3. Hefur eftirlit með framkvæmd starfssamninga Reykjavíkurborgar við Leikfélag Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listahátíð í Reykjavík, og gerir tillögur til borgarráðs þar um.

4. Vinnur að eflingu menningarstarfsemi í Reykjavík í samræmi við menningarstefnu borgarinnar með því m.a. að virkja menningarstofnanir borgarinnar, örva listræna sköpun og gefa almenningi tækifæri til að njóta listar og menningar.

5. Veitir styrki til menningarstarfs í borginni og umsagnir um menningartengd erindi að beiðni borgarráðs, skipar dómnefnd um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og útnefnir borgarlistamann Reykjavíkur.

6. Fylgist með söfnun örnefna, útgáfu örnefnaskrár og merkingu fornleifa og náttúruminja, sem Minjasafn Reykjavíkur annast.

7. Gerir tillögu til borgarráðs um staðsetningu hvers konar myndverka á almannafæri að fenginni umsögn Listasafns Reykjavíkur og umhverfis- og skipulagsráðs.

8. Fer með málefni Höfuðborgarstofu í samræmi við ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar og gerir tillögu til borgarráðs um endurskoðun hennar.

9. Vinnur að því að efla og samræma kynningar- og markaðsmál Reykjavíkur  til að styrkja stöðu höfuðborgarinnar í alþjóðlegri samkeppni á sviði ferðamála. Ráðið hefur samvinnu við aðra lykilaðila sem sinna ferðaþjónustu og markaðsmálum sem falla innan ramma sviðsins.

10. Skipar í verkefnisstjórnir borgarhátíða sem haldnar eru á vegum Höfuðborgarstofu s.s. Vetrarhátíðar í Reykjavík, Barnamenningarhátíðar og Menningarnætur í miðborginni að fenginni tillögu sviðsstjóra.

Menningar- og ferðamálaráð er skipað sjö fulltrúum kjörnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann og skal hann vera borgarfulltrúi eða varaborgafulltrúi. Ráðið kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar.

Framboðslista sem á fulltrúa í borgarstjórn er heimilt skv. 61 gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, að tilnefna borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa til að sitja fundi með málfrelsi og tillögurétt, eigi hann þar ekki fulltrúa. Þá er Bandalagi íslenskra listamanna heimilt að tilnefna tvo áheyrnarfulltrúa listamanna ásamt varamönnum til setu í ráðinu með málfrelsi og tillögurétt.

Menningar- og ferðamálaráð heldur að jafnaði tvo fundi í mánuði. Ráðsfundur skal að jafnaði haldinn fyrir luktum dyrum og þá óheimilt að greina opinberlega frá ummælum sem fram koma hjá einstökum fundarmönnum.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

6 + 0 =