Orkuveita Reykjavíkur, stjórn

""

Orkuveita Reykjavíkur sf. starfar skv. lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 139/2001, sbr. einnig reglugerð nr. 297/2006, en þann 12. desember 2001 var undirritaður sameignarsamningur eignaraðila. Núverandi eignaraðilar eru Reykjavíkurborg, Akranesbær og Borgarbyggð.

Tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur er vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og dreifing og sala afurða fyrirtækisins. Jafnframt gerð og rekstur fráveitukerfa ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir og þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi, skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum, sbr. 2. gr. laganna.

Stjórn fyrirtækisins er skipuð sex mönnum, fimm kjörnum af Borgarstjórn Reykjavíkur og einum kjörnum af Bæjarstjórn Akraness. Borgarstjórn Reykjavíkur kýs formann og varaformann stjórnarinnar úr hópi fulltrúa Reykjavíkurborgar. Á stjórnarfundum vegur atkvæði formanns tvöfalt. Aðsetur stjórnarinnar er í húsi Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 1.

Kjörtímabil stjórnar er eitt ár miðað við aðalfund.

Borgarstjórn kaus fimm fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar á fundi sínum 16. júní 2020. Brynhildur Davíðsdóttir var kosin formaður stjórnarinnar.