Ný lög um þjónustu við fatlað fólk | Reykjavíkurborg

Ný lög um þjónustu við fatlað fólk

Þann 1. október nk. verður notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) að lögfestu þjónustuformi. Þá taka gildi ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Jafnframt taka gildi lög nr. 37/2018 um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Enn er unnið að reglugerðum á grundvelli laganna.

Gert er ráð fyrir að fullri innleiðingu NPA ljúki eigi síðar en á árinu 2022. Jafnframt er tekið fram að fyrirkomulag NPA auk þeirra álitaefna sem upp koma við framkvæmd nýrra laga á tímabilinu skuli endurskoða fyrir 1. október 2021 í ljósi fenginnar reynslu.

Allar eldri umsóknir um félagslega heimaþjónustu og stuðningsþjónustu halda gildi sínu og engin breyting verður á þjónustu gagnvart notendum þar til nýjar reglur taka gildi. Vinna er þegar hafin á velferðarsviði Reykjavíkurborgar við gerð nýrra reglna.

Ákvæði laga um félagsþjónustu gilda um þá einstaklinga sem þurfa minni háttar aðstoð en lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir taka við þegar einstaklingar þurfa umfangsmeiri þjónustu. Í nýju lögunum hefur verið skerpt á eftirliti ráðherra með þjónustu sveitarfélaga og sett sérstök ákvæði um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar. Fjallað er sérstaklega um frístundaþjónustu við fatlaða nemendur og úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Kveðið er á um skyldur sveitarfélaga til að upplýsa einstaklinga um rétt þeirra til þjónustu og hvaða úrræði standa þeim til boða meðan beðið er eftir þjónustu. Í lögunum er einnig ákvæði um sérstaka samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og skyldu ráðherra til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Með breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eru gerðar ýmsar breytingar á skipulagi, stjórn og hlutverki félagsmálanefnda og hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra. Skýrar er kveðið á um feril ágreiningsmála og málskot innan stjórnkerfisins. Þá er fjallað sérstaklega um samráð við notendur félagsþjónustu og um störf notendaráða. Fjallað er um samninga og starfsleyfisveitingar til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu. Loks eru gerðar breytingar á kaflanum sem snúa að félagslegri heimaþjónustu og aksturs­þjónustu.

Nánari upplýsingar varðandi notendastýrða persónulega aðstoð

NPA á vef borgarinnar

 

  • Loftmynd af hluta borgarinnar með áherslu á höfnina og Esjuna.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 2 =