Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

6. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1996, mánudaginn 7. október, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 6. fundur ráðsins.
Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Árni Sigfússon, Guðmundur Gunnarsson, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og Finnbogi Sigurðsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Valgerður Selma Guðnadóttir frá Félagi skólastjóra og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri og Steinunn Stefánsdóttir, deildarstjóri almennrar skrifstofu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. september 1996, vegna erindis frá Myndbæ um 300.000 kr. fjárstuðning við gerð fræðslumyndarinnar: Náttúruhamfarir á Íslandi - eldvirkni og veðurvá.

Formaður lagði fram eftirfarandi bókun:

Reykjavíkurborg hefur nú nýlega auglýst eftir umsóknum um almenna styrki til menningar-, félags- og uppeldismála á fjárhagsárinu 1997. Fræðsluráð bendir aðstandendum Myndbæjar á að sækja um styrk samkvæmt þessari auglýsingu.

Samþykkt.

2. Lagt fram til kynningar erindi aðstandenda Waldorfskólans til menntamálaráðherra varðandi fjárstuðning til skólans.

Formaður lagði fram eftirfarandi bókun:

Forráðamönnum Waldorfskólans er bent á að sækja um rekstrarstyrk vegna einstakra nemenda til þeirra sveitarfélaga, annarra en Kópavogsbæjar, sem nemendur skólans hafa lögfesti í.
Fræðslumiðstöð er falið að koma á fundi með fræðsluráði Reykjavíkur og fræðsluyfirvöldum Kópavogs vegna Waldorfskólans og Suðurhlíðarskóla þar sem hátt hlutfall nemenda er úr Kópavogi.

3. Lagt fram erindi frá skólastjóra Rimaskóla vegna leigu á sal í eigu Máttar hf.
í nágrenni við skólann sem nýst gæti yngstu nemendum skólans.
Vísað til Fræðslumiðstöðvar að ganga til samninga við Mátt hf. um leigu á salnum frá áramótum. Athuguð verði tilhögun íþróttakennslu þar sem hún dreifist þá á fleiri staði.

Guðmundur Gunnarsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

4. Lögð fram tillaga að leiðbeinandi vinnureglum um launalaus leyfi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla, frá starfsmannahaldi Reykjavíkurborgar.
Umfjöllun frestað og óskað eftir frekari upplýsingum um reglur sem gilda fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar almennt. Einnig vísað til lögfræðideildar Reykjavíkurborgar um álit á því hvort fræðsluráð eigi að fjalla um slík kjaramál.

Lögð fram eftirfarandi bókun frá fulltrúum kennara:

Við undirrituð, fulltrúar kennara í fræðsluráði Reykjavíkur, förum fram á að allar ákvarðanatökur varðandi leyfi kennara verði settar í ákveðinn farveg, umræðum frestað og málinu vísað í nefnd sem hefði það hlutverk að forma reglur sem allir hlutaðeigandi geti sætt sig við. Í nefndinni sætu fulltrúar skólastjóra, kennara, Fræðslumiðstöðvar, starfsmannahalds Reykjavíkurborgar og fræðsluráðs.

5. Lagt fram erindi Fræðslumiðstöðvar varðandi lausa stofu fyrir heilsdagsskóla Vesturbæjarskóla.
Samþykkt að setja niður lausa stofu um áramót. Fræðslustjóra falið að kanna hjá skólastjóra Vesturbæjarskóla hvort þörfin sé svo brýn að ástæða sé til að flýta framkvæmdum.

6. Fræðsluráð samþykkti eftirfarandi umsögn um Tillögur um skipulag og starfsemi reynsluhverfis í Grafarvogi (1996):

Fræðsluráð telur mjög mikilvægt að gera tilraun með að samræma og tengja betur þjónustu ýmissa opinberra aðila sem sinna þjónustu við íbúa borgarinnar. Tillaga framkvæmdanefndar Reykjavíkur um reynslusveitarfélög um ,,reynsluhverfi” í Grafarvogi er því merkileg tilraun til að auka samstarf aðila sem vinna að málefnum fjölskyldna og barna.

Fræðsuráð leggur áherslu á að verkefni og stjórnunarleg ábyrgð skarist ekki milli hverfisstjórna og einstakra fagnefnda og telur að skýra þurfi betur verkefni einstakra fagnefnda, hverfisstjórnar og stofnana.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið hörðum höndum við að skipuleggja starfsemi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, sem tók til starfa 1. ágúst s.l., m.a. hefur verið endurskipulagt starf sálfræðinga og kennsluráðgjafa. Fræðslumiðstöðinni er því nauðsynlegt að fá tíma til að vinna nánar með framkvæmdanefndinni um ,,reynsluhverfi” að skipulagi skólaþjónustunnar (þ.e.a.s. sérfræðinganna) í Grafarvogi.

Þá viljum við vekja athygli á að aðeins fimm kennsluráðgjafar starfa á Fræðslumiðstöð og sinna þeir ákveðnum sérsviðum, s.s. á sviði unglingastigs, yngri barna stigs, tengsla skóla og atvinnulífs, sérkennslu og fjölmiðlafræðslu.

Niðurstaða: Fræðsluráð fagnar tilraun til að koma á samræmdri þjónustu við íbúa Grafarvogs, en vill ítreka að vegna mikilla breytinga að undanförnu í skólamálum borgarinnar verði starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar gefinn tími til að vinna í nánari samvinnu við framkvæmdanefndina að skipulagi kennsluráðgjafar- og sálfræðiþjónustunni í Grafarvogi.

Jafnframt var lögð fram greinargerð fræðslustjóra um sama mál.

7. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu:

Fræðsluráð samþykkir að beina því til allra grunnskóla borgarinnar að þeir geri vímuvarnaráætlun fyrir sinn skóla. Jafnframt verði í samvinnu við vímuvarnarnefnd borgarinnar unnið að íhlutunarreglum sem gilda skulu þegar vart verður neyslu hjá nemanda.

Greinargerð:
Borgarráð samþykkti í nóvember 1994 að skipa starfshóp til að vinna að tillögum um aðgerðir og stefnumótun á vegum borgarinnar í vímuefnavörnum.
S.l. haust lögðu fulltrúar kennara í skólamálaráði fram bréf þar sem fram komu áhyggjur af ástandi vímuefnamála í grunnskólum borgarinnar. Í framhaldi af því og að áeggjan borgarstjóra ákvað vímuvarnarnefnd Reykjavíkur að beina kröftum sínum að grunnskólum borgarinnar.
,,Nefndin hrindi í framkvæmd áætlun um vímuefnalausan grunnskóla. Hluti þeirrar áætlunar verði m.a. að skólar setji sér innri markmið. Áætlunin beinist að öllum aldurshópum. Foreldrum og samtökum þeirra verði með formlegum hætti ætlað hlutverk við framkvæmd áætlunarinnar. Mjög mikilvægt er að áætlunin tengi saman skólastarf og frístundir nemenda.”

Niðurstaðan var sú að farið var af stað með Vímuvarnarskólann í alla skóla borgarinnar s.l. vor.
Að mati stjórnenda Vímuvarnarskólans eru það einkum tveir þættir sem brýnast er að hrinda í framkvæmd og það eru þeir sem tillagan tekur til: að undirbúa vímuvarnaráætlun við hvern grunnskóla og vinna að íhlutunarreglum sem gilda þegar vart verður við neyslu hjá nemanda.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Einnig lögð fram fyrirspurn frá Valgerði Selmu Guðnadóttur, svohljóðandi:

Fyrirhugað var að halda námskeið fyrir kennara sem tóku að sér að vera í forsvari fyrir vímuvarnir í skólum. Námskeið þetta átti að halda í ágúst s.l. en varð ekki af. Hvað veldur? Hvað varð um það fjármagn sem ætlað var til námskeiðsins? Ætlar Reykjavíkurborg að setja fjármagn í þetta verkefni?

8. Lögð fram beiðni frá Kristínu Rós Jónsdóttur, kt. 220464-2299, Foldaskóla, um launalaust leyfi í kjölfar barnsburðarleyfis frá 01.03.97 til 31.07.97.
Samþykkt.

9. Lögð fram beiðni frá Erlu Björk S. Steinarsdóttur, kt. 021155-3579, Foldaskóla, um breytingu á stöðustærð úr 2/3 í 1/1.
Samþykkt.

10. Lögð fram greinargerð frá forstöðumanni rekstrarsviðs um kennsluafslátt vegna framhaldsnáms KHÍ.

Einnig lagt fram bréf frá KÍ og HÍK þar sem ítrekuð er krafan um að kennarar og skólastjórnendur við grunnskóla Reykjavíkur, sem stunda framhaldsnám við Kennaraháskóla Íslands, njóti kennsluafsláttar á sama hátt og þeir gerðu fyrir flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga.

Vísað til Fræðslumiðstöðvar að kanna hversu margir kennarar í Reykjavík séu í umræddu framhaldsnámi og hversu margir kennarar hafi sótt um kennsluafslátt á yfirstandandi skólaári og hvernig skólastjórnendur, þar sem kennarar eru í framhaldsnámi, hafi brugðist við.
Frekari umfjöllun frestað.

11. VSG gerði grein fyrir því að hún lætur af störfum sem fulltrúi skólastjóra í fræðsluráði á næsta aðalfundi Félags skólastjóra sem haldinn verður fyrir næsta fund fræðsluráðs. Formaður kvaddi VSG og þakkaði samvinnuna.

Fundi slitið kl. 13.50

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Guðmundur Gunnarsson
Hulda Ólafsdóttir Svanhildur Kaaber