Tilraunaverkefnið - Fyrr í frístundaheimili

Sumarið 2024 verður áframhald á tilraunaverkefninu „Fyrr í frístundaheimili“ sem var í þremur grunnskólum, þremur frístundaheimilum og sex leikskólum sumarið 2023. Verkefnið í sumar verður stærra, fleiri skólar og frístundaheimili taka þátt og í lengri tíma. 

Markmiðið með verkefninu er að stuðla að því að þetta stóra skref barns frá leikskóla yfir í frístunda- og grunnskólastarf verði sem ánægjulegast með því að börn og foreldrar kynnist starfinu í næði áður en starf grunnskólanna hefst af fullum krafti. Eins gefst færi á að hefja aðlögun nýrra barna í leikskóla fyrir næsta skólaár fyrr og getur meðal annars hluti barna hafið aðlögun í júní. 

Börn sem hefja grunnskólagöngu haustið 2024 í nokkrum grunnskólum í tveimur hverfum borgarinnar býðst að taka þátt í verkefninu.    

Skólar og frístundaheimili sem taka þátt?

Grunnskólar: Borgaskóli, Breiðholtsskóli, Engjaskóli, Foldaskóli, Hamraskóli, Húsaskóli, Norðlingaskóli, Seljaskóli, Ölduselsskóli og Rimaskóli.

Frístundaheimili: Hvergiland, Bakkasel, Brosbær, Regnbogaland, Simbað, Kastali, Klapparholt, Vinasel, Vinaheimar og Tígrisbær.

Leikskólar: Hamrar, Hulduheimar, Bakkaborg, Borg, Engjaborg, Sunnufold, Funaborg, Klettaborg, Brekkuborg, Rauðhóll, Hálsaskógur, Jöklaborg, Seljaborg, Seljakot, Lyngheimar, Laufskálar og Fífuborg.

Spurt og svarað

Verða börn á biðlista til að komast í „Fyrr í frístundaheimili“?

Öllum börnum sem hefja grunnskólagöngu í viðkomandi skóla og sótt er um fyrir áður en skráningarfresti lýkur stendur til boða að taka þátt í verkefninu og það verða ekki biðlistar.  

Hvernig er undirbúningi starfsins háttað?

Unnið er að ráðningu starfsfólks í verkefnið í þátttökufrístundaheimilunum og undirbúningur hafinn í viðkomandi hverfum. Í flestum tilfellum er um að ræða starfsfólk sem unnið hefur á frístundaheimilunum yfir veturinn. 

Haldinn verður fræðslu- og starfsdagur með þeim sem koma til með að taka þátt í verkefninu. Þar verður fræðsla frá þeim sem hafa starfað með elstu börnum í leikskóla og frá starfsfólki úr bæði Reykjavík og nágrannasveitarfélögum sem hafa reynslu af sumarstarfi fyrir þennan aldurshóp á frístundaheimilum. Einnig verður fræðsla um söng og farið verður í umræðuhópa þar sem starfsfólk lærir hvert af öðru, skiptist á hugmyndum um viðfangsefni við hæfi aldurshópsins, ígrundar hvernig markmiðum verkefnisins verður náð og þróar verkefnið saman.  

Verður einhver aðlögun fyrir börnin áður en þau fara í „Fyrr í frístundaheimili“?

Í öllum þátttökuleikskólunum hafa verið reglulegar heimsóknir elstu barna í grunnskólann yfir veturinn. Einnig hafa verið farnar heimsóknir í frístundaheimilið, eða verða farnar áður en skólaárið er liðið.  

Starfsfólk leikskólanna mun vinna með starfsfólki frístundaheimilanna fyrstu dagana í verkefninu til að börnunum líði vel og þau aðlagist nýjum aðstæðum. Reynslan af verkefninu sumarið 2023 sýnir að vel tókst til með þetta og flest börnin þurftu ekki á leikskólastarfsfólkinu að halda nema rétt fyrstu dagana. 

Hvenær hefst „Fyrr í frístundaheimili“?

Tvö tímabil eru í boði 10. júní – 5. júlí og 6. ágúst – 20. ágúst. Hægt er að skrá barnið á annað tímabilið eða bæði. 

Verður boðið upp á mat í „Fyrr í frístundaheimili“?

Nei, það verður ekki boðið upp á mat heldur verður fyrirkomulagið eins og í öðru sumarstarfi frístundaheimila að börnin koma með nesti yfir daginn enda oft á ferðinni.

Ef sumarlokun leikskólans er á öðrum tíma en „Fyrr í frístundaheimili“ getur barnið þá farið aftur í leikskólann, þar til hann lokar?

Öll börn fædd 2018 í þátttökuleikskólunum fá uppsögn á leikskólaplássinu frá og með 10. júní. Þau geta því ekki farið aftur á leikskólann þegar frístundaheimilið lokar.

Þarf ég að segja upp leikskólaplássinu?

Nei, öll börn í þátttökuleikskólunum fædd 2018 fá uppsögn frá og með 10. júní.

Er skylda að taka þátt í verkefninu „Fyrr í frístundaheimili“?

Það er val foreldra að skrá börnin í „Fyrr í frístundaheimili“. Hins vegar fá öll börn fædd 2018 í þátttökuleikskólunum uppsögn frá og með 10. júní og geta ekki komið í leikskólanum eftir það. Undantekning eru börn sem eru með úthlutaðan stuðning í leikskólanum og fer þá fram samtal milli leikskólastjóra, sérkennslustjóra og foreldra varðandi þarfir barnsins. 

Verða leikskólabörnin með öðrum árgöngum á frístundaheimilinu?

  • Nei. Leikskólabörnin verða líklega í öllum tilfellum í öðru rými. Við viljum skapa þeim rólegra rými meðan þau eru að kynnast nýju umhverfi. Hins vegar þegar þau verða orðin öruggari er alveg möguleiki á að starfið verði eitthvað brotið upp, hópum blandað saman og þau fái að taka þátt í sameiginlegum viðfangsefnum.

Geta börn með úthlutaðan stuðning haldið áfram í leikskólanum?

Þegar börn eru með úthlutaðan stuðning mun fara fram samtal milli leikskólastjóra, sérkennslustjóra og foreldris varðandi tilhögun stuðnings. Ef aðilar eru sammála að barninu sé fyrir bestu að vera áfram í leikskólanum verður tekið tillit til þess. 

Hvernig verður stuðningi við börn sem eru með úthlutaðan stuðning háttað í „Fyrr í frístundaheimili“?

  • Vegna barna með úthlutaðan stuðning mun fara fram samtal milli leikskólastjóra, sérkennslustjóra og foreldris varðandi tilhögun stuðnings. Starfsmaður leikskóla mun fylgja barninu í frístundaheimilið og sinna sömu verkefnum þar eins og hann hefði gert í leikskólanum. 

Get ég notað Frístundakortið til að greiða fyrir „Fyrr í frístundaheimili“?

  • Nei, hvorki hægt að nýta Frístundakortið í „Fyrr í frístundaheimili“ né í sumarfrístund frístundaheimila.

Hvað kostar að skrá barnið sitt í „Fyrr í frístundaheimili“?

Vegna 20 daga fyrir sumarlokun 10.júní – 5. júlí

Flokkur 1: 31.400.kr.
Flokkur 2: 20.724 kr.

Vegna 11 daga í ágúst 6. ágúst – 20.ágúst

Flokkur 1: 17.300 kr.
Flokkur 2: 11.418 kr

Hvernig skrái ég barnið mitt í „Fyrr í frístundaheimili“?

Skráning hefst 23. apríl kl. 10 á skráningarvefnum http://sumar.fristund.is 

Af hverju er ekki sama sumarlokun í leikskólum og „Fyrr í frístundaheimili“?

Sumarlokun hvers leikskóla var ákveðin við gerð starfsáætlana þeirra fyrir skólaárið 2023-2024 sem voru samþykktar í skóla- og frístundaráði í október 2023. Endanleg ákvörðun um fyrirkomulag verkefnisins „Fyrr í frístundaheimili“ var tekin í borgarráði 14. mars síðastliðinn. Ekki hefur verið gerð krafa um að sumarlokun leikskólanna sé samræmd og því erfitt að sníða sumarstarf frístundaheimila að lokun hvers og eins leikskóla. 

Af hverju var verkefnið ekki kynnt foreldrum fyrr?

Undirbúningur verkefnisins hófst ekki fyrr en í byrjun árs 2024 og fór svo á fullt eftir að tillaga var samþykkt í borgarráði þann 14. mars eftir umfjöllun í skóla- frístundaráði 12. febrúar. Áður en verkefnið var kynnt foreldrum fór fram mat á þátttökuskólum og frístundaheimilum, kostnaðargreining, kynning og samtal við stjórnendur sem taka þátt í verkefninu og leitað umsagna hagsmunaaðila. 

Leitað var umsagna foreldraráða leikskólanna og skólaráða grunnskólanna sem fyrirhugað er að taki þátt í verkefninu. Einnig var leitað eftir umsögnum framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, Félags fagfólks í frístundaþjónustu, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda í leikskóla, samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík, Félags skólastjórnenda í Reykjavík, Kennarafélags Reykjavíkur og Samfok. Þessir aðilar og stjórnendur viðkomandi starfsstaða fengu því kynningu á verkefninu áður en það var kynnt öðrum foreldrum í viðkomandi skólum. Unnið hefur verið úr innsendum umsögnum og þær verða kynntar skóla- og frístundaráði. Umsagnirnar verða hafðar til hliðsjónar við skipulag verkefnisins.

Fyrir páska var unnið upplýsingabréf til foreldra sem ákveðið var að þýða á ensku, pólsku, filippseysku og arabísku áður en það yrði sent til foreldra, sem þótti mikilvægt með tilliti til tungumálakunnáttu foreldra í viðkomandi leikskólum. Bréfið var sent foreldrum strax eftir páska.

Hvernig er opnunartími „Fyrr í frístundaheimili“? Er möguleiki á ,,gæslu” frá kl. 8:00-8:30?

Eins og í sumarfrístund er opnunartíminn kl. 8:30-16:30. Bent hefur verið á að erfitt gæti verið fyrir foreldra sem hafa verið með leikskóladvöl frá kl. 8:00 eða fyrr að geta ekki komið með börnin fyrr en kl. 8:30. Verið er að skoða hvort hægt sé að bregðast við þessari athugasemd. 

Verður systkinaafsláttur af „Fyrr í frístundaheimili“?

Ef barnið á systkini í leikskóla (lögheimili/lögheimilistengsl) er veittur 100% systkinaafsláttur af dvalargjaldinu í Fyrr í frístundaheimili, eins og ef barnið væri enn í leikskóla.  

Ef barnið á systkini (lögheimili/lögheimilistengsl) í ,,Fyrr í frístundaheimili“, sumarfrístund fyrir 6-9 ára eða sértæku félagsmiðstöðvastarfi 10-16 ára á sama tíma, er veittur 20% systkinaafsláttur af dvalargjaldi eldra systkinis. 

Af hverju kostar „Fyrr í frístundaheimili“ jafn mikið og leikskóladvöl þar sem börnin fá mat allan daginn?

Við ákvörðun á gjaldskrá fyrir „Fyrr í frístundaheimili“ var ákveðið að fara milliveginn á milli gjalds í leikskóla og sumarfrístundar. Verið er að skoða hvort hægt sé að bregðast við þessari athugasemd. 

Hvenær er sumarlokun í „Fyrr í frístundaheimili“?

Sumarlokun verður frá og með 8. júlí til og með 5. ágúst. Bent hefur verið á að leikskólar sem taka þátt í verkefninu eru ekki allir með sumarlokun á sama tíma og foreldrar hafa margir hverjir gert ráðstafanir út frá sumarleyfistíma leikskólans. Verið er að skoða hvort hægt sé að bregðast við þessari athugasemd. 

Hvernig er mönnun tryggð í „Fyrr í frístundaheimili“?

Starfsfólk ,,Fyrr í frístundaheimili” mun fyrst og fremst koma frá frístundaheimilunum. Í flestum tilfellum er um að ræða reynt starfsfólk sem hefur starfað þar yfir veturinn og mun væntanlega starfa þar áfram inn í næsta vetur. Starfsfólki frístundaheimila hefur venjulega fækkað á sumrin, en með þessu verkefni gefst tækifæri til að heilsársráða fleiri og stuðla að auknum stöðugleika í starfsmannahaldi frístundaheimila. 

Starfsmaður leikskóla mun fylgja börnum sem eru með úthlutaðan stuðning. 

Hver verður aðkoma starfsfólks leikskólanna að verkefninu „Fyrr í frístundaheimili“?

Gert er ráð fyrir að starfsfólk leikskóla fylgi börnunum eftir í einhverja daga inn á frístundaheimilin í upphafi. Í ágúst er gert ráð fyrir sambærilegri þátttöku starfsfólks grunnskóla við aðlögun í grunnskólana. 

Starfsfólk leikskóla mun fylgja börnum sem eru með úthlutaðan stuðning í samræmi við þeirra stuðningsþörf. 

Barnið mitt er að fara í grunnskóla sem er með í tilraunaverkefninu en er í leikskóla sem tekur ekki þátt. Get ég skráð það í þetta tilraunaverkefni?

Já, öll börn sem eru að fara í 1. bekk í þeim grunnskólum sem taka þátt í verkefninu geta tekið þátt í ,,Fyrr í frístundaheimili” sem starfar við grunnskólann.