Óskar eftir stóru skrifstofuhúsnæði fyrir nýja borgarmiðstöð

Elliðaár og Ártúnshöfði. Loftmynd: Sigurður Óli/Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg óskar eftir að taka á leigu rúmgott skrifstofuhúsnæði fyrir nýja og sameinaða borgarmiðstöð fyrir Árbæ, Grafarholt, Grafarvog og Kjalarnes.

Miðað er við að húsnæðið verði tekið á langtímaleigu til 10-15 ára, með mögulegri framlengingu, fullbúið til notkunar og án lauss búnaðar. Gerð er krafa um staðsetningu austan við Elliðaár, helst sem næst Ártúnshöfða.

Húsnæðisþörf Borgarmiðstöðvar Austur er áætluð um 2500 fermetrar. Stærð húsnæðis fer meðal annars eftir möguleikum til samnýtingar með öðrum í húsnæðinu, til dæmis mötuneyti, stórum fundaherbergjum og búningsaðstöðu. 

Við mat á hagkvæmni tilboða verður tekið tillit til leiguverðs, gæða, stærðar, skipulags húsnæðis út frá fyrirhugaðri starfsemi, öryggis, afhendingartíma, almenningssamgagna, staðsetningar, aðkomu og aðgengi.

Áætlað er að húsnæðið verði tekið í notkun eins fljótt og kostur er en eigi síðar en átján mánuðum eftir undirritun leigusamnings.

Fyrirspurnir varðandi auglýsinguna skulu sendar rafrænt í gegnum útboðskerfi Reykjavíkurborgar og verða svör birt þar.

Frekari upplýsingar um þær kröfur sem húsnæðið verður að uppfylla eru aðgengilegar á útboðsvef Reykjavíkurborgar.

Leigutilboðum skal skila rafrænt í útboðskerfinu, eigi síðar en 31. mars 2022 kl. 14. Ekki verður haldinn sérstakur opnunarfundur. Leiga á grundvelli þessarar auglýsingar er undanskilin lögum um opinber innkaup.

Umsjónaraðili er Eignaskrifstofa Reykjavíkurborgar.