Háaleitisskóli fær Grænfána

Umhverfi Skóli og frístund

""

Börnin í Háaleitisskóla drógu stolt Grænfána að húni í morgun, á Degi jarðar, en fáninn er viðurkenning á umfangsmiklu umhverfisstarfi.  

Fulltrúi Landverndar kom í Háaleitisskóla og færði börnum og starfsfólki umhverfisviðurkenningu í formi Grænfána, en hann er uppskera af markvissri umhverfisfræðslu og starfi í skólanum.  Þar með er Háaleitisskóli kominn í hóp margra leik-, grunn- og framhaldsskóla sem þegar flagga Grænfánanum og enn eitt skrefið tekið að bættri umhverfisvitund.

Í Háaleitisskóla eru 470 nemendur, en skólinn er með tvær starfsstöðvar, í Álftamýri og í Hvassaleiti. Báðar starfsstöðvar flagga því stoltar Grænfánanum á Degi jarðar.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.