Norðlingaskóli fær viðbótarhúsnæði

Skóli og frístund

""

Nemendaspá í Norðlingaholti kallar á viðbótarhúsnæði en gert er ráð fyrir að nemendum þar muni fjölga í rösklega 600 fram til ársins 2019. 

Þrjú ár eru síðan nýr Norðlingaskóli var að fullu tekinn í notkun í þessu barnmarga hverfi.  Skólinn var byggður fyrir 450 nemendur en þar eru nú þegar 520 nemendur.

Til að leysa tímabundinn húsnæðisvanda skólans næstu árin verður tekið á leigu húsnæði við Norðlingabraut 4 sem þykir betri kostur en færanlegar kennslustofur á nýrri og glæsilegri skólalóð.  Borgarráð samþykkti því á fundi sem haldinn var í Árbæ að gera 10 ára leigusamning við BS eignir ehf.  sem mun hefja byggingarframkvæmdir nú í vor.  1155 fermetra húsnæði verður aðlagað að þörfum skólans og mun Reykjavíkurborg taka það á leigu frá og með 1. Janúar 2016.

Gert er ráð fyrir að 60 íbúðir verðir byggðar í Norðlingaholti á næstu tveimur árum sem þýðir að nemendum muni fjölga meira en fyrri spár gerðu ráð fyrir.  Nemendakúrfan mun síðar lækka og því þykir tímabundið leiguhúsnæði hentugri lausn en viðbygging við skólann.