Allt litrófið í Fellaskóla

Skóli og frístund Framkvæmdir

""

Nemendur og starfsfólk í Fellaskóla hafa leikið sér með litrófið og málað grindverk við skólann í öllum regnbogans litum sem tákn um mannbreytileikann í skólasamfélaginu. Sérhver nemandi og sérhver starfsmaður málaði einn staf í grindverkinu í sínum lit. 

Hver stafur í grindverkinu er táknrænn geisli í litrófi skólasamfélagsins í Fellaskóla, þar sem fjölbreytileikinn og fjölmenningin eru alls ráðandi. Daníel Heiðar Guðjónsson list-og verkgreinakennari átti hugmyndina að verkinu og bar hitann og þungann af því að koma því í framkvæmd. Hann segir að líta megi á verkið Litróf sem sameiginlegt ljós allra í Fellaskóla, horfa megi á það sem málverk og skúltúr sem er síbreytilegur eftir því hvaðan á það er horft. 

Allir 318 nemendur skólans máluðu sinn staf í litrófið og 70 starfsmenn. Það gera samtals 388 málaðir stafir enda Fellaskóli stór vinnustaður. Enn eru þó nokkrir stafir ómálaðir og með því verður að sögn Daníels sköpunarpláss fyrir þá sem eiga eftir að koma í skólann. „Þetta er fyrst og fremst táknmynd fyrir okkur hér í skólanum og þörf áminning um hversu fjölbreytt fólk er hér og með margbreytilegan bakgrunn.“

Á undanförnum árum hefur skólalóðin við Fellaskóla tekið gagngerum breytingum. Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt hannaði lóðina sem skiptist upp í leiksvæði fyrir ólík aldursstig. Rauður þráður tengir saman leiksvæðin á myndrænan hátt og býður jafnframt upp á leikmöguleika þar sem hann er mótaður í hæðir og lagður mjúku gúmmíefni. Litir eru notaðir á markvissan hátt, til að lífga upp á svæðið og skapa hlýlegt yfirbragð.  Þá hafa verið útbúnir setstallar, eins konar útileikhús sem nýtist fyrir sýningar og tónleika utandyra, og battavöllur og boltavellir eru komnir á vesturenda lóðarinnar.