Fræðst um læsi í lok Lestrarhátíðar

Skóli og frístund

""

Á annað hundrað manns sátu málþingið Læsi í hólkvíðum skilningi sem haldið var í Laugalækjarskóla í dag. Þar voru haldin mörg skemmtileg og fróðleg erindi um læsi og lestrarnám og m.a. kynnt rannsókn á málskilningi og orðaforða ungra barna sem gerð var við menntavísindasvið HÍ.  

Hrafnhildur Ragnarsdóttir prófessor við Hí kynnti rannsókn sem sýnir m.a. annars að beint samhengi er á milli orðaforða og málþroska barna  við fjögurra ára aldur og lestrarfærni þeirra og námsárangur þegar líður á grunnskólagönguna. Mælingar á orðaforða ungra barna í leikskólanum geta því haft forspárgildi og nýst til að styðja þau í lestrarnámi. 

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur lagði í sínu erindi áherslu á að íslenskunám væri svo miklu meira en stagl um flokkun orða og setningarfræði, það snerist ekki síst um tjáningu og sköpun sem leggja þyrfti meiri rækt við. Úlfhildur Dagsdóttir sagði frá gildi myndlæsis og myndasagna og skemmtileg samstarfsverkefni um læsi og lestur voru kynnt, s.s. Ljóðaorminn í Vesturbæ, verkefni í lýðræðislæsi í frístundaheimilum Kamps og náttúrulæsi í útinámi á vegum Náttúruskólans. 

Óhætt er að segja að málþingið, sdem haldið var í tilefni af lokum Lestrarhátíðar í Reykjavík,  hafi tekist vel og blásið starfsfólki skóla- og frístundasviðs og öðrum gestum anda í brjóst til skemmtilegra læsis- og lestrarverkefna fyrir börn og unglinga.