Íbúar í Árbæ vilja betri hverfakjarna

Skipulagsmál

""

Íbúafundur um hverfisskipulag í Árbæ var haldinn í gær og mættu um 40 manns á fundinn. Fram kom að íbúar í Árbæ eru almennt sáttir og ánægðir með hverfið sitt.

Fundir um hverfisskipulag eru haldnir til að draga fram hugmyndir um hvað megi bæta til að gera hverfinu gott. Í Árbæ fannst fundarmönnum brýnt að bæta göngu- og hjólastíga vegna aukinnar umferðar um þá. Fundarmenn voru á því að nauðsynlegt væri að aðgreina umferð gangandi og hjólandi um stígana. Þá væru sums staðar vandamál vegna vatnsaga og ísmyndunar á göngustígum Breiðholtsmegin þar sem þeir lægju í gegnum mýrlendi. Hugmynd kom fram um að bæta lýsingu á stígum í Elliðaárdal og skiptar skoðanir voru um nýja byggð sem fyrirhuguð er í Ártúnsholti.

Fundarmönnum fannst kjarninn í hverfinu ósamstæður þar sem veitingasala Skalla – bókasafnið og kirkja eru. Þyrfti að tengja kjarnann betur saman.

Á fundinum kom fram að gatnamótin við verslun Bónus séu hættuleg og þurfi að laga. Þá vanti einnig veitingastaði í hverfið.

Atvinnusvæðið er sérstakt hverfi að mati fundarmanna og vilji var meðal þeirra að bæta byggð í kringum Rauðavatn inni í hverfið.

Einnig kom fram að hraðahindranir í hverfinu séu orðnar of margar og rætt var um að almennt mætti bæta viðhald og umhirðu í hverfinu.

Viðhaldi göngustíga á milli gatna í Rofabæ er ábótavant og kölluðu fundargestir eftir aðstoð borgarinnar til að gera úrbætur þar.

Þá kom fram ósk um að merkja heiti gatna og botnlanga á göngustígnum Elliðaármegin, hugmynd um að koma fyrir örnefnaskiltum í Elliðaárdal. Einnig þyrfti að einfalda strætókerfið og fjölga strætóskýlum í Árbæ.