Tilboð í lóðir fyrir milljarð króna

Framkvæmdir

""

Alls bárust 62 gild tilboð í byggingarrétt á lóðum í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási í útboði Reykjavíkurborgar.  Samanlagt nema hæstu tilboð tæpum milljarði króna eða 976.028.666,- krónum og er það er umfram væntingar Reykjavíkurborgar um lóðasölu á árinu.

Haft verður samband við hæstbjóðendur og gengið frá samningum við þá. Þegar tilboðsfrestur rann út síðdegis á mánudag höfðu borist 23 gild tilboð í 19 lóðir Í Úlfarsárdal með byggingarétti fyrir 107 íbúðir eða 49% þeirra íbúða sem boðnar voru. Í lausar lóðir í Reynisvatnsási höfðu borist 39 gild tilboð í  21 lóð með byggingarrétti fyrir 53 íbúðir eða 58% þeirra íbúða sem boðnar voru.

Tilboðin voru í flestum tilvikum nálægt lágmarksverði en hæsta frávik var 21% yfir settu lágmarksverði. Þau skiptast með eftirfarandi hætti milli lóða sem í boði voru:

Úlfarsárdalur
• 3 lóðir fyrir fjölbýlishús með samtals 72 íbúðir. 2 tilboð bárust.
• 10 lóðir fyrir raðhús með samtals 56 íbúðum. 8 tilboð bárust.
• 17 lóðir fyrir parhús með 34 íbúðum. 5 tilboð bárust.
• 56 lóðir fyrir einbýlishús. 8 tilboð bárust.

Reynisvatnsás
• 2 lóðir fyrir raðhús með samtals 13 íbúðum. 7 tilboð bárust.
• 1 lóð fyrir parhús með 2 íbúðum. 6 tilboð bárust.
• 38 lóðir fyrir einbýlishús. 39 tilboð bárust, þar af 13 ógild.

Nánari upplýsingar:

Tilboð sem bárust í útboði sem lauk 1. júlí 2013. Bjóðendur og lóðaverð.  Sem excel skrá.  Sem pdf skrá.

www.reykjavik.is/lodir