Til foreldra barna í skólum vestan Kringlumýrarbrautar

Foreldrar sem eiga börn í skólum vestan Kringlumýrarbrautar geta farið að huga að því að sækja börn sín í skóla, en aðeins ef þeir komast auðveldlega frá heimili eða vinnustað að skólanum. Foreldrar sem eiga börn í skólum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eru beðnir að bíða átekta.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu og almannavörnum á höfuðborgarsvæðinu. Þar er ítrekað mikilvægi þess að verði ekki sótt í skólana fyrr en tilkynning þess efnis hefur verið send út frá lögreglu. Sem fyrr segir verða börnin áfram í skólunum og verður hugsað vel um þau uns hægt er að sækja þau eða flytja heim. 

Unnið er í því að opna stofnbrautir og í kjölfarið opna út í hverfin.  Gert er ráð fyrir að stofnbrautir verði ruddar á næstu tveimur tímum.  Afar mikilvægt er að fólk sé ekki á ferli á meðan til þess að auka ekki álag á göturnar. 

Þeir sem nauðsynlega þurfa að fara til eða frá Grafarvogi eru beðnir um að fara um Gullinbrú þar sem Víkurvegur er enn ófær.

 Reykjanesbraut við Kaplakrika er einnig ófær.  Almennt gildir það að suður- og austurbyggðir á höfuðborgarsvæðinu eru illa færar eða ófærar.