Náms og starfsráðgjöf

Námsflokkar Reykjavíkur bjóða Reykvíkingum eldri en 16 ára ókeypis náms- og starfsráðgjöf.

Ráðgjöfin getur falist í eftirfarandi eftir þörfum hvers og eins

  • að meta styrkleika fólks og leggja fyrir áhugasviðspróf
  • að ráðleggja um námsleiðir utan og innan Námsflokkanna
  • að finna leiðir vegna sértækra námsörðugleika til dæmis lestrarörðugleika
  • að finna leiðir til að fjármagna nám
  • að ráðleggja um námstækni
  • að kenna markmiðssetningu
  • að fylgjast með námsframvindu og hvetja til dáða
  • að aðstoða við gerð ferilskrár og starfsval

Grunnnám

Námsflokkarnir bjóða fólki eldra en 16 ára upp á nám í námsefni efstu bekkja grunnskóla í ensku, íslensku og stærðfræði. Áhersla er lögð á að sníða námið að þörfum hvers og eins. Þeir sem vilja geta fengið aðstoð við skipulagningu náms og kennslu í námstækni og prófundirbúningi hjá náms- og starfsráðgjafa. Próf eru í boði, en eru valfrjáls.

Fyrir hver er grunnnámið?

  • Þau sem eru 16-18 ára og hafa ekki lokið grunnskólaprófi (þessi hópur verður að taka próf).
  • Þau sem eru eldri en 18 ára og ekki hafa lokið grunnskólaprófi.
  • Þau sem vilja rifja upp grunnskólanámið.
  • Þau sem vilja geta aðstoðað börnin sín betur við heimanámið.

Námskraftur 

Námskraftur er fyrir ungmenni á aldrinum 16-24 ára. Þetta er samvinnuverkefni Námsflokka Reykjavíkur,  mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Um er að ræða einnar annar námsúrræði á framhaldsskólastigi.

Starfskraftur

Markmiðið er að hjálpa ungu fólki sem stundar hvorki nám né vinnu að finna lífi sínu farveg með starfsþjálfun, sjálfstyrkingu, ráðgjöf og fræðslu um nám og störf. Verkefnið stendur yfir í 16 vikur og er samstarfsverkefni Námsflokka Reykjavíkur og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. 

Kvennasmiðja

Markmiðið með Kvennasmiðju er að veita mæðrum sem ekki hafa verið á vinnumarkaði um nokkurt skeið tækifæri til að bæta menntun sína og verða færari um að komast út á vinnumarkað að nýju og/eða í áframhaldandi nám. Kennt er 4-5 sinnum í viku í 18 mánuði. Námið er þríþætt þar sem það skiptist í að vera bóklegt, skapandi og sjálfstyrkjandi. Verkefnið er í stöðugri þróun.

Kennslan fer fram hjá Námsflokkum Reykjavíkur við Suðurlandsbraut 32, 2. hæð og Hússtjórnarskóla Reykjavíkur.

Atvinnutengt nám

Atvinnutengt nám er fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla í Reykjavík sem, vegna sértækra örðugleika annarra en fötlunar, glíma við verulegar áskoranir í námi eða mikla vanlíðan í skóla. Verkefninu er ætlað að bæta líðan nemenda og gefa þeim tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr. 

Fyrirspurnir og ábendingar

Námsflokkar Reykjavíkur og Þjónustumiðstöð Árbæjar.