Móttökuáætlun vegna barna með íslensku sem annað tungumál | Reykjavíkurborg

Móttökuáætlun vegna barna með íslensku sem annað tungumál

Hér er endurskoðuð áætlun um móttöku barna með annað móðurmál en íslensku í grunnskóla og frístundastarf á vegum Reykjavíkurborgar. Áætlunin er sett fram í stikklutexta sem merkir að nánari skýringar er að finna þegar smellt er á feitletruðu orðin í textanum.

 

1. Til upplýsingar

 Samkvæmt lögum eiga allir grunnskólar eða sveitarfélög að hafa móttökuáætlun vegna nemenda sem eru með annað móðurmál en íslensku.  Hver skóli ætti að laga áætlunina að sínum aðstæðum en afar mismunandi er hversu margir nemendur af erlendum uppruna eru í einstökum skólum og aðstæður því margbreytilegar.  Móttökuáætlun vegna nemenda með íslensku sem annað mál skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólann.

Hafa ætti í huga að skólinn er stundum fyrsti og eini tengiliður fjölskyldunnar við íslenskt samfélag.  Vönduð móttaka í skólanum getur því skipt sköpum um nánustu framtíð fjölskyldunnar.

Ástæða er til að vekja athygli á Handbók um innritun og móttöku innflytjenda í grunnskólum Reykjanesbæjar, kennsla í íslensku sem öðru tungumáli, sem gefin er út af Fræðslusviðs Reykjanesbæjar.

 

2. Nýr nemandi með annað móðurmál en íslensku

Nemendur með lögheimili í tilteknu skólahverfi eiga afdráttarlaust rétt á skólavist í hverfisskóla og til þess að njóta náms við hæfi. Allir foreldrar eiga kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni. Meginreglan í grunnskólum Reykjavíkur er að veita nemendum,  sem eru með annað móðurmál en íslensku, skólavist eins skjótt og auðið er.

Foreldrar fá úthlutað tíma fyrir móttökuviðtal við fyrsta tækifæri. Sá sem bókar tímann skráir nafn nemandans, fæðingarár, þjóðerni, tungumál og símanúmer foreldra og kannar hvort þörf er á túlkaþjónustu. Foreldrar eru beðnir um að hafa með sér upplýsingar um fyrri skólagöngu nemandans svo sem einkunnir og greiningar, heilbrigðisvottorð og bólusetningarvottorð. Æskilegt er að barnið hafi fengið kennitölu, en barn hefur rétt til skólagöngu meðan beðið er afgreiðslu kennitölunnar. Þegar börn eru komin inn í grunnskóla í Reykjavík geta þau sótt um á frístundaheimili. Meðan beðið er eftir kennitölu þarf að skrá barnið framhjá kerfinu á Rafrænni Reykjavík og halda utan um það á annan hátt í samstarfi við rekstrarstjóra frístundamiðstöðvarinnar.

Lagt er til að í öllum skólum og frístundastarfi sé einn tengiliður eða ábyrgðarmaður vegna barna með annað  móðurmál en íslensku, það er tvítyngdra eða fjöltyngdra barna.

 

3. Forvinna fyrir móttökuviðtalið

Skipuleggja þarf móttökuviðtalið og ákveða hverjir eigi að taka þátt í því og hver verkaskipting á að vera. Lykilatriði er að umsjónarkennari taki þátt í móttökuviðtalinu. Æskilegt er að fulltrúi frístundaheimilis eða félagsmiðstöðvar  komi á fundinn til að kynna frístundastarf hverfisins og notkun frístundakorts en mikilvægt er að kynna strax fyrir fjölskyldunni hvaða frístundastarf er í boði fyrir börnin í viðkomandi hverfi. Panta þarf túlkaþjónustu ef þörf er á henni. Foreldrum sem ekki tala eða skilja íslensku skal greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu. Velferðarráðuneytið hefur látið gera skýrslu um túlkaþjónustu innflytjenda.

 

4. Innritun, upplýsingar og gögn

 
Markmið móttökuviðtalsins er tvíþætt annars vegar að afla upplýsinga um nemandann og hins vegar að veita upplýsingar um skólann þ.á.m.  um hvað nemandinn skal hafa með í skólann, hvað foreldrar þurfa að útvega s.s.skólatösku, pennaveski, íþróttaföt, sundföt o.s.frv.  um nesti, hádegismat, frístundastarf og foreldrafélagið. Einnig um  hvað skólinn útvegar s.s. nemendabækur, bókasafnsbækur, orðabækur og nemendaskápa. (Sjá nánar)

Veita skal foreldrum upplýsingar um starfshætti skólans, skólareglur og hefðir, næringu og heilsu, samstarf skóla og skólaforeldra, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og annað íþrótta- og æskulýðsstarf í hverfinu. Einnig er mikilvægt að upplýsa foreldra um ábyrgð og skyldur foreldra í íslensku skólakerfi enda getur það verið gerólíkt því sem foreldrarnir hafa vanist. Loks skal upplýsa foreldra um viðbrögð við óveðri. 

Þetta getur einnig átt við um uppeldi og því er lagt til að skólinn prenti út og afhendi foreldrum bæklinginn Við og börnin okkar.

Gera þarf ráð fyrir tíma til að kynna foreldrum Rafræna Reykjavík og Mentor og aðstoða við skráningu.

Áður en viðtalinu lýkur og fjölskyldunni er fylgt um skólann (og frístundaheimilið ef við á) er ákveðið hvenær nemandinn byrjar í skólanum og sagt frá því hvernig skólabyrjunin verður.

Sjálfsagt er að hvetja móður eða föður til að vera með barni sínu í skólanum fyrstu dagana eins og þau hafa tækifæri til og best þykir henta. Þannig geta foreldrarnir stutt barnið sitt um leið og þeir kynnast því samfélagi sem á eftir að hafa svo mikil áhrif á barnið þeirra.  Þá er gott að setja niður áætlun um það hvenær umsjónarkennarinn og foreldrar hittast næst og hvernig samskiptum muni best háttað.

Mikilvægt er að skólinn og foreldar geri samkomulag um væntanlegt samskiptaform þar sem rætt er hvernig foreldrar og starfsfólk álíta heppilegast að eiga samskipti og hvaða leiðir henti best í samskiptum, þ.e. tölvupóstur, símtöl, bréf, samskiptabækur, fundir eða annað.

 

5. Menningarlegur stuðningur

Rétt er að árétta við foreldra að barnið/börnin hafi mikla þörf fyrir stuðning þeirra við tileinka sér nýja menningu og áherslur. Upplýsa þarf foreldra um hvað skólinn leggur að mörkum til að aðlögunin gangi sem best. Hvetja ætti foreldra til að leggja rækt við móðurmál barnsins og einnig má benda þeim á  Móðurmál,  samtök um tvítyngi  sem stendur fyrir kennslu í allmörgum tungumálum. Einnig er rétt að vekja athygli pólskumælandi foreldra á pólska skólanum í Reykjavík.
Hér er að finna nánari upplýsingar um tvítyngi og fjöltyngi.

Hvetja má foreldra til að halda íslensku sjónvarpsefni að börnum sínum og ekki síst að stuðla að því að börn þeirra taki virkan þátt í félags- og tómstundastarfi.

Ef möguleiki er á því ætti að kanna hvort fjölskyldan hefur áhuga á að eignast vinafjölskyldur í hverfinu.

Í þjónustumiðstöðvum starfa sérfræðingar sem geta verið fjölskyldum innan handar með alögun að íslensku samfélagi.

 

6. Fyrstu skrefin í skólanum

Huga þarf vel að undirbúningi og móttöku í bekknum. Félagsleg aðlögun skiptir sköpum varðandi líðan og nám nýja nemandans og það getur skapað mörg ný tækifæri að fá nýjan nemanda í bekkinn. Hvetja þarf alla starfsmenn skólans til að hafa sérstakt auga með nýja nemandanum, t.d. í frímínútum og íþróttum og styðja hann eftir þörfum. Jafnfram þarf að leita leiða til að foreldrar tengist foreldrasamfélaginu. 

Hlutverk umsjónarkennara er mikilvægt varðandi nám, félagstengsl og samstarf við foreldra.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku þurfa í upphafi námsins að vera með  einstaklingsáætlun sem byggir á stöðumati.  Árið 2013 mun liggja fyrir staðlað málkönnunarpróf í íslensku sem gott er að styðjast við til að meta kunnáttu og skilning nemandans í íslensku sem öðru máli. Niðurstöðuna er hægt að leggja til grundvallar við gerð einstaklingsáætlunar.

Nauðsynlegt er að byrja á að kenna og þjálfa nemandann í almennum orðaforða og samskiptum á íslensku og innleiða einnig eftir bestu getu skólamál og flóknari hugtök í námsbókum en nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

 

7. Fyrstu skrefin í frístundastarfinu

Mikilvægt er að skólinn og frístundaheimilið og/eða félagsmiðstöðin séu í góðu samstarfi og að forstöðumaður og umsjónarkennari hjálpist að við hvetja barnið/unglinginn til þátttöku í frístundastarfinu.

Hér er að finna Handbók um móttöku barna með annað móðurmál en íslensku í skipulagt frístundastarf

 

8. Foreldrasamstarf

Góð samvinna heimilis og skóla hefur afgerandi þýðingu fyrir námsframvindu og líðan nemanda.  Þetta á ekki síst við um fjölskyldur sem koma úr framandi menningarsamfélagi.  Í sumum þjóðfélögum er lítil hefð fyrir samstarfi skóla og foreldra.  Skólinn þarf því að leggja ríka áherslu á að ávinna sér traust foreldra og stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu.

Meðal þess sem getur skilað góðum árangri er að hvetja foreldra til að taka þátt í aðlögun barns síns að skólanum, m.a. með því að vera með barninu í skólanum  fyrstu dagana og kynnast því starfi sem þar fer fram. Skólinn ætti að leita allra leiða til að vekja áhuga foreldra á að koma í skólann og kynnast starfinu sem virkir þátttakendur. Hér má benda á morgunkaffi, kynningar nemenda/fjölskyldunnar á sérstökum verkefnum og Menningarmót sem Borgarbókasafnið hefur kynnt í skólum.

Það ætti líka að hvetja bekkjarfulltrúa til að leggja sérstaka áherslu á að bjóða foreldrana og barnið velkomin í samfélagið. Ef þess er kostur getur verið gott að nýja fjölskyldan fái sérstaka tengiliði í foreldrahópnum eða vinafjölskyldur.

Það skiptir  miklu máli að skóli og foreldrar komi sér saman um hvernig best hentar að eiga samstarf og deila upplýsingum. Aldrei ætti að láta börn túlka fyrir foreldra sína. Þegar senda þarf skriflegar upplýsingar á heimili þar sem er lítil eða engin íslenskukunnátta er stundum hægt að styðjast við myndmál og einnig getur Google translate komið að notum. Til eru listar með helstu hugtökum á ýmsum tungumálum og loks má benda á Skilaboðaskjóðuna þar sem foreldrar geta m.a. fengið þýðingar á boðsbréfum í afmæli o.fl.

 

1. Til upplýsingar fyrir skóla

Samkvæmt lögum

Í 16. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir m.a.:

Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.

Aðstæðum

Hér má sjá dæmi um móttökuáætlanir skóla þar sem hlutfall nemenda með annað móðurmál en íslensku er hátt t.d. Fellaskóli.
Hér er líka fjölmenningarstefna Ingunnarskóla en þar er hlutfall nemenda með annað móðurmál en íslensku fremur lágt.

Hér má finna mat á færni nemenda í stærðfræði og lestri á nokkrum tungumálum .

Íslenskt samfélag:

Mikið af upplýsingum um íslenskt samfélag er á vefnum www.island.is
Fyrstu skrefin, bæklingur um íslenskt samfélag á 10 tungumálum

Við og börnin okkar, bæklingur um réttindi og skyldur foreldra í íslensku samfélagi

Aftur upp ↑

2. Réttur á skólavist

Í 17. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir:

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.

Eins skjótt og auðið er

Ekki er beðið eftir því að nemendur fái dvalarleyfi og/eða kennitölu, heldur er áhersla lögð á að umsóknarferli um dvalarleyfi sé hafið. Meðan á umsóknarferlinu stendur eru nemendur utan þjóðskrár. Ástæður fyrir töfum geta m.a. verið þær að foreldrar hafi ekki skilað umbeðnum göngum til Útlendingastofnunar svo sem ljósriti af vegabréfi, forsjárgögnum eða þýðingu löggilts skjalaþýðanda á erlendum vottorðum. Í þessum tilvikum gæti skólinn þurft að fylgja málinu eftir í samskiptum við foreldra eða aðra þá aðila sem tengjast málinu.  Útlendingastofnun www.utl.is

Túlkaþjónusta

Í 16. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir m.a.

Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu. Túlkaþjónusta skal vera til staðar svo lengi sem  foreldrar hafa þörf fyrir hana.

Kynntu þér siðareglur túlka og þagnarskyldu.

Ellefu góð ráð sem vert er að hafa í huga þegar mál þitt er túlkað:

1.   Líttu á túlk sem brú á milli menningarheima og undirbúðu hann undir fundarefnið.  
2.  Skipuleggðu fyrirfram meginlínur samtalsins þannig að ljóst sé um hvað eigi að ræða og hver sé tilgangur samtalsins.  
3.  Taktu tillit til þess að samtal með túlk tekur lengri tíma en samtöl á íslensku.  
4.  Byrjaðu helst samtalið með stuttri samantekt sem gefur yfirlit yfir hvað þú hafir hugsað þérað verði rætt og gefðu viðmælendum færi til að gera athugasemdir.  
5.  Vertu ekki feimin(n) við að nýta líkamstjáningu til að leggja áherslu á mál þitt, viðbrögð þín og að umræðu sé lokið.  
6.   Vertu nákvæmari í orðavali en þú átt venju til.  
7.  Tjáðu þig á einfaldan og skýran hátt. Taktu tillit til túlksins því hann þarf að skilja þig og fá tíma til þess að flytja skilaboðin jafnóðum til þriðja aðila.  
8.  Mundu að gera hlé á málið þínu svo túlkurinn fái ráðrúm til að yfirfæra eða meðtaka það sem þú ert að segja.  
9.  Mikilvægt er að þú snúir beint að nemanda og foreldrum og horfir í augu þeirra þegar þú talar.  
10.  Horfðu beint á viðmælendur þína þegar þeir tala. Snúðu þér ýmist að túlknum eða viðmælenda eftir því hvor þeirra talar.  
11.  Farðu yfir niðurstöður og upplýsingar sem komu fram á fundinum þannig að viðmælendur þínir séu sammála um hvað var sagt og ákveðið á fundinum.  

Hér má prenta skjal (músamottu) með leiðbeiningum um nýtingu þjónustu túlka.

Fjölbreyttar leiðir í samskiptum við foreldra sem ekki tala íslensku. Sjá nánar.

Heilbrigðisvottorð og bólusetningarvottorð

Samkvæmt verklagsreglum sóttvarnarlæknis skulu þau börn sem koma til landsins frá eftirtöldum svæðum gangast undir læknisrannsókn vegna sóttnæmra sjúkdóma:

 • Mið- og Suður-Ameríku, þ.m.t Mexíkó
 • Evrópu utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES)
 • Asíu
 • Afríku

Innflytjendur sem koma frá eftirtöldum löndum þurfa aftur á móti ekki að framvísa læknisvottorði:

Íbúar frá löndum evrópska efnahagssvæðisins (annarra en Rúmeníu og Búlgaríu), Sviss, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Ísrael.

Eftirfarandi ríki Evrópusambandsins og EFTA mynda evrópska efnahagssvæðið (EES):

 • Austurríki
 • Belgía
 • Bretland (hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands)
 • Búlgaría
 • Danmörk
 • Eistland
 • Finnland
 • Frakkland
 • Grikkland
 • Holland
 • Írland
 • Ísland
 • Ítalía
 • Kýpur (gríski hlutinn)
 • Lettland
 • Liechtenstein
 • Litháen
 • Lúxemborg
 • Malta
 • Noregur
 • Portúgal
 • Pólland
 • Rúmenía
 • Spánn
 • Slóvakía
 • Slóvenía
 • Svíþjóð
 • Tékkland
 • Ungverjaland
 • Þýskaland

Milli ofangreindra landa gilda almannatryggingareglur EES samningsins. Á milli Íslands, Noregs, Lichtenstein og Sviss er í gildi Vaduz-samningur sem hefur þau áhrif að nánast sömu reglur gilda gagnvart Sviss.

Sjá verklagsreglur um læknisrannsókn fyrir fólk sem flyst til landsins. Heilsufarsrannsókn  á börnum sem eru nýkomin til landsins fer fram á göngudeild smitsjúkdóma á Barnaspítala Hringsins.

Kennitala

Til að geta sótt um kennitölu fyrir barn sem er innflytjandi verður a.m.k. annað foreldrið að hafa dvalarleyfi og vera skráð í þjóðskrá. Ekki nægir að vera skráður í utangarðsskrá. Framvísa þarf fæðingarvottorði barnsins til Þjóðskrár, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Foreldri verður að sækja um kennitölu fyrir barnið. Umsókninni þarf að fylgja:

√ Ljósrit af vegabréfi barnsins
√ Ljósrit af frumriti af fæðingarvottorði barnsins
√ Ljósrit af fæðingarvottorði barnsins þýddu á íslensku af löggiltum skjalaþýðanda
   (ef það er á öðru máli en ensku).

Liggja þarf fyrir að sótt hafi verið um dvalarleyfi fyrir barnið hjá Útlendingastofnun.

Þyki  það dragast óeðlilega lengi að nemandi fái kennitölu ætti að byrja á því að hafa samband við foreldra og  kanna hvað veldur og hvort þeir þarfnist upplýsinga eða stuðnings vegna umsóknar kennitölunnar en  bið eftir kennitölu getur verið 5 – 9 vikur.  Nægi þetta ekki ætti skólinn að senda Útlendingastofnun fyrirspurn um stöðu málsins.

Tengiliður

Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að halda utan um málefni viðkomandi barna, með því m.a. að annast ráðgjöf, upplýsingar og fræðslu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf,  ásamt því að tryggja að fyrir hendi séu gagnvirk samskipti á milli foreldra og þeirra aðila sem starfa með börnunum. Þá er mikilvægt að slíkur sérhæfður aðili geti stutt kennara til að fylgjast með framförum barna í námi og frístundastarfi þannig að hægt sé að veita viðeigandi stuðning á hverjum tíma. Mikilvægt er að tengiliður í frístundaheimili/félagsmiðstöð upplýsi foreldra barna með annað móðurmál en íslensku um annað frístundastarf í hverfinu og hvað sé í boði fyrir börnin og unglingana í hverfinu yfir sumartímann.

Aftur upp ↑

3. Verkaskipting

Ákveða þarf hver á að stýra fundinum og hvernig á að byggja hann upp. Hver á að sýna fjölskyldunni skólann og frístundastarfið? Er hugsanlega annar nemandi  eða starfsmaður í skólanum sem talar sama mál sem gæti tekið þátt í að sýna skólann? Hver skráir niður upplýsingar, hvar eru þær geymdar og hverjir hafa aðgang að þeim.

Umsjónarkennari

Þegar væntanlegur umsjónarkennari fær upplýsingar um komu nemandans leggur hann drög að starfinu með honum fyrstu dagana á grunni þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Umsjónarkennarinn ber ábyrgð á því að aðrir kennarar og starfsmenn sem vinna í skólanum með nýja nemandanum fái að vita um komu hans.  Sérstaklega er mikilvægt að íþrótta- og sundkennarar fái upplýsingar um nemandann. Hagnýtt efni varðandi móttöku og undirbúning er að finna á Fjölmenningarvef barna.

Túlkaþjónusta

Í 16. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir:

Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.

Fjölbreyttar leiðir í samskiptum við foreldra sem tala ekki íslensku: www.reykjavik.is
Fyrirtæki sem sinna túlkaþjónustu: Inter cultural Iceland: www.ici.is
Alþjóðasetur: www.ahus.is
Í Fjölmenningarsetri www.mcc.is er jafnframt svarað í síma á 7 tungumálum.

Aftur upp ↑

4. Upplýsingar

Hér á eftir er gátlisti yfir grunnupplýsingar um skólastarfið, þjónustu skólans, samskipti við skólann, skólareglur og fleira, sem gott getur verið að styðjast við. Hver og einn þarf að vega og meta hversu miklum upplýsingum er komið á framfæri í einu, en tryggja þarf að upplýsingunum sé komið á framfæri eins fljótt og kostur er.

Benda má á að oft þarf að endurtaka og rifja upp upplýsingar og setja fram á mismunandi hátt.

Helstu starfshættir skólans:

 • Nemanda og foreldrum afhentir þýddir bæklingar og upplýsingar, s.s. Í skólanum,  www.xxx skólareglur grunnskóla í myndrænum búningi www.xxx  Frístundastarf og  Íþróttastarf í Reykjavík xxx Efni bæklinganna kynnt lítillega.  
 • Fjölmenningarlegar áherslur í starfsemi skólans og markmið.  
 • Upplýsingar um þjónustu sem stendur nemendum sem eru innflytjendur sérstaklega til boða.  
 • Nemanda og foreldrum er afhent skóladagatal, innkaupalistar, stundaskrá og önnur gögn eftir því sem við á. Efni þessara gagna útskýrt eftir þörfum, sérstaklega er sagt frá starfsdögum, skertum dögum, foreldradögum og hefðum sem tengjast frídögum, svo sem bolludegi og öskudegi.
 • Upplýsingar um hvað nemandi skal hafa með í skólann, hvað foreldrar þurfa að útvega s.s.skólatösku, pennaveski, íþróttaföt, sundföt o.s.frv. og hvað skólinn útvegar s.s. nemendabækur, bókasafnsbækur, orðabækur og nemendaskápa.
 • Hvernig dagurinn gengur fyrir sig (innihald skóladagsins og hvernig frístundastarfið tekur við, ef við á).  
 • Kennsluhættir og námsmat.  
 • Hvernig kennslu verður háttað í stórum dráttum.  
 • Venjur tengdar bekkjarstarfi, umsjónarmaður, nemandi dagsins, o.s.frv.  
 • Nauðsynleg símanúmer í skólanum og frístundastarfinu, upplýsingar um viðtalstíma og netföng.  
 • Hvernig á að tilkynna forföll og biðja um frí.  
 • Aðstoð við heimanám.  
 • Hvert á nemandinn að snúa sér ef vandamál koma upp.  
 • Ýmsar hefðir tengdar kristinni trú og íslenskri þjóðkirkju.  
 • Möguleikar á að sækja um undanþágu frá kennslu í ákveðnum fögum, svo sem kristinfræði eða tungumáli. Reglur www  
 • Reglur um úthlutun strætisvagnamiða ef við á.  
 • Heilsugæsla á vegum skólans.  

Helstu reglur og venjur varðandi:

Skólasókn.  
Umgengni og agamál (t.d. PBS).  
Klæðnað.  
Notkun farsíma.  
Reykingar og áfengi.  
Útivist (m.a. í frímínútum).  
Skemmtanir (í skóla- og frístundastarfi).  
Afmæli og ferðir Hér er gott að vekja athygli á skilaboðaskjóðunni:  foreldrafelag.austurbaejarskoli.is  
Útivistarreglur barna: www.bb.is  

Aftur upp ↑

5. Menning og áherslur

Tvítyngi og fjöltyngi

Börn sem eiga eitt eða fleiri móðurmál og eru að læra íslensku sem annað (þriðja/fjórða) tungumál eru tvítyngd/fjöltyngd. Um 70% jarðarbúa eru tvítyngdir og nota fleiri en eitt tungumál í daglegu lífi. Sum börn tileinka sér tvö tungumál frá unga aldri en önnur læra nýtt mál eftir að hafa fyrst lært móðurmál sitt. Rannsóknir sýna að öll börn geta orðið tvítyngd ef aðstæður eru jákvæðar og hvetjandi. Tvítyngd börn með eðlilegan tvítyngdan málþroska geta verið á eftir eintyngdum jafnöldrum í þroska annars hvors málsins en standa jafnfætis eða framar eintyngdum börnum þegar allt er talið. Tvítyngi hefur jákvæð áhrif á nám þegar báðum tungumálum er viðhaldið. Ef nemandi hefur náð góðum tökum á lestri á móðurmáli sínu, flyst sú færni á milli tungumála svo fremi þau séu með sama ritkerfi.
Stefnt skal að virku tvítyngi nemenda með annað móðurmál en íslensku svo þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.

Málskipti

Talað er um málskipti þegar barn hættir að tala móðurmál sitt og skiptir yfir í nýtt tungumál. Slík málskipti hafa bæði slæm áhrif á málþroska barnanna og sjálfsmynd þeirra. Ef málumhverfi barna breytist á viðkvæmu skeiði í málþroska þeirra þarf nauðsynlega að halda móðurmálinu við og þróa það áfram. Áherslan ætti því að vera á virkt tvítyngi en ekki málskipti. Það getur tekið nemendur mjög skamman tíma, 2-3 ár eða jafnvel skemur, að tapa niður móðurmáli sínu sé því ekki viðhaldið.
Hvers vegna er mikilvægt að halda móðurmálinu við?
Markviss örvun móðurmálsins eykur fremur en hindrar framfarir í beitingu annars tungumáls. Góður grunnur í móðurmálinu er góð undirstaða fyrir lærdóm á öðru máli. Móðurmál er nátengt sjálfsvitund nemenda. Tapi nemandi móðurmálinu tapar hann hluta af sjálfum sér og færninni til að eiga þroskuð samskipti við foreldra og ættingja.

Viðurkenna kunnáttu í móðurmáli:

Tungumálaverið í Laugalæk, Tungumálatorg og Móðurmál, samtök um tvítyngi eru gagnlegar leiðir í verkfærakistu.

Vinafjölskyldur

Sjá á heimasíðu Vesturbæjarskóla.

Aftur upp ↑

6. Móttaka

Í nútímasamfélagi er mikilvægt að vinna með þau tækifæri sem bjóðast í skólastarfi til að vinna með fjölbreyttan nemendahóp. Þá þarf að huga að gagnvirkri aðlögun þeirra sem fyrir eru og þeirra sem eru nýkomnir til landsins. Verkefnið Menningarmót sem Kristín R. Vilhjálmsdóttir verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni stýrir getur verið mjög góð leið til að vinna með fjölbreyttan menningarbakgrunn allra nemenda, kennara, starfsfólks og foreldra. Borgarbokasafn.is

Auk þess að huga að íslenskunámi er ekki síður mikilvægt að ákvarða hvernig best verður staðið að því að tengja nemandann félagslega í bekknum. Því betri sem samskiptin verða við skólafélagana því meiri líkur eru á því að öll aðlögun og nám gangi vel. Samvinnunám getur skilað góðum árangri fyrir alla nemendur. Sjá dæmi um samvinnunám og fjölmenningarlega kennsluhætti hér. Og hér

Mikilvægt er að undirbúa bekkinn vel áður en nýi nemandinn kemur og finna fjölbreyttar leiðir til að virkja nemendurna  í þessu sameiginlega verkefni að taka vel á móti nýjum félaga.  Gott getur verið að skoða hvaðan nemandinn kemur og kanna hvort hægt sé að finna landið á landakorti eða afla einhverra upplýsinga um landið, tungumálið sem talað er eða brot úr sögu landsins. Varast skal þó að ræða um upprunaland nýrra nemenda þannig að það ýti undir staðalmyndir og fordóma nemenda gagnvart því sem nýtt er og ókunnugt. Betra er að leitast við að draga fram þætti sem eru sameiginlegir og taka kannski umræðuna um það hvort einhverjir nemendur í hópnum hafi verið nýir nemendur áður í nýju landi og hvernig hver og einn vill láta taka á móti sér þegar hann er nýr og þekkir engan.

Ein leið gæti verið að setja upp vinakerfi innan bekkjarins og/eða í frístundastarfinu þar sem hver og einn nemandi í bekknum hefði ákveðið hlutverk gagnvart nýja nemandanum, s.s. eins og að sýna honum skólann, leikvöllinn, fara með honum í matartíma, o.fl. Nemendur gætu verið með litla bók þar sem þeir skrifa íslensku orðin yfir það sem verið er að sýna nýja nemandanum, s.s. eins og matsalur, klósett, skólastjóri, kennarastofa eða ritari, og nýi nemandinn skrifar í bókina sömu orð á móðurmáli sínu. Slík jafningjafræðsla felur í sér tækifæri til gagnvirkra samskipta á milli nýja nemandans og þeirra sem fyrir eru.
Hægt er biðja nemendur um aðstoð við að merkja helstu hluti í skólastofunni/frístundastarfinu, ræða leiðir til að kenna nýja félaganum íslensku og meta hvað vegi þungt þegar börn eru að setjast að í nýju umhverfi. Leggja ber áherslu á að börnin tali frekar íslensku en ensku við nemandann. Það getur hjálpað nýja nemandanum að læra nöfn bekkjarfélaga sinna ef ljósmyndir merktar nöfnum þeirra eru í kennslustofunni/frístundastarfinu. Hér má styðjast við: Við kunnum að kenna íslenskumottur og Við kunnum að læra íslenskumottur.

Þegar nýi nemandinn kemur í skólann þarf að leggja áherslu á að allir læri að skrifa og bera nafn hans fram á réttan hátt. Heimamenningu hans má t.d. gera sýnilega í kennslustofunni með ljósmyndum og/eða fána. Hægt er að nota tækifærið til að samþætta menningu og áhugamál nýja nemandans bekkjanámskránni. Loks má benda á að leikir og verkefni sem ekki reyna á tungumálið geta verið góð leið til að brjóta ísinn og tryggja samskipti nemenda fyrst um sinn. Eftir nokkra mánuði gæti verið gagnlegt að vinna sérstök verkefni um heimamenningu allra nemenda eða halda menningarmót í samvinnu við Borgarbókasafn Reykjavíkur borgarbokasafn.is  Einnig geta nemendur og kennarar nýtt sér vefinn: fjolmenningarvefurbarna.net

Leggja ætti sérstaka áherslu á að finna út hverjir eru styrkleikar nýja nemandans og byggja á þeim í samskiptum og námi og finna leiðir til að nemandinn geti nýtt móðurmál sitt í náminu.  Þá er rétt að leggja áherslu á það að oft ná nemendur meiri árangri ef lögð er áhersla á að kenna nýja tungumálið (íslensku) í gegnum námsgreinar og daglegt starf í samstarfi við jafningja í stað þess að vera með sérsniðnar aðferðir þar sem ofuráhersla er á íslenska málfræði. Verkfærakistan tungumalatorg.is

Æskilegt er að kennarinn tilkynni einnig foreldrum bekkjarins um komu nýja nemandans, jafnframt mætti senda út fyrirspurn um það hvort einhverjir foreldrar í bekknum hafi áhuga á að verða vinafjölskylda nýju fjölskyldunnar, hafi hún áhuga á því.
Íþróttakennarar og baðverðir þurfa að vera sérstaklega vakandi fyrir því að oft er mikill menningarmunur á viðhorfi til líkama og nektar. Ef spurningar um ólík viðhorf og menningu vakna getur verið gott að leita ráða hjá foreldrum nýja nemandans eða öðrum sem þekkja menningu, trú og tungumál nýja nemandans.

Umsjónarkennari

Umsjónarkennari heldur utan um nám nemandans og fylgist með framförum hans. Hann annast samskipti við foreldra nema annað sé ákveðið. Aðrir kennarar miðla reglulega upplýsingum um gengi nýja nemandans til umsjónarkennara. Leggja skal áherslu á að sérhver kennari setji fram námsmarkmið og kennsluaðferðir við hæfi (einstaklingsnámskrá) og styðji nemandann til að ná markmiðum sínum. Það sama á að sjálfsögðu við um alla nemendur, sama hver bakgrunnur
þeirra er.

Stöðumat

Meta ætti stöðu nemenda í stærðfræði, ensku, íþróttum og  list- og verkgreinum, einkum íþróttum og sundi. Æskilegt er að meta stöðu nýja nemandans í móðurmáli með aðstoð tvítyngds kennara eða túlks ef því verður við komið. Matstæki sem gefa til kynna stöðu nemenda í lestri og stærðfræði á móðurmáli þeirra: tungumalatorg.is

Hafa skal í huga að allir í skólanum eru íslenskukennarar nemenda með íslensku sem annað tungumál.

Eðlilegt er að umsjónarkennari beri ábyrgð á því að námsmat fari fram.

Íslensku

Í aðalnámskrá grunnskóla í íslensku 2007 segir m.a.

ÍSLENSKA SEM ANNAÐ TUNGUMÁL

Inngangur

Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við um nemendur af íslenskum og erlendum uppruna.

Nám í greininni er ekki eingöngu tungumálanám heldur miðar að því að nemendur með annað móðurmál en íslensku fylgi jafnöldrum sínum í öllu námi eftir því sem kostur er. Þetta þýðir að viðfangsefni íslensku sem annars tungumáls tengjast öllum námsgreinum og er samþætting því nauðsynleg.

Íslenskunám er innflytjendum mikilvægt til þátttöku í samfélaginu. Það er meðal annars hlutverk skóla að hjálpa börnum frá öðrum menningarsvæðum að verða virkir þátttakendur í nýju samfélagi.

Í reglugerð er kveðið á um að allir nemendur í grunnskólum, er hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi, eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Framkvæmd og eðli slíkrar kennslu í íslensku tekur einnig mið af alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að, s.s. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 29. gr., sem segir að menntun allra barna skuli stuðla að því að móta virðingu fyrir foreldrum barnsins, menningararfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í og þess lands er það kann að vera upprunnið frá og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.

Mikilvægt er að nemendur í grunnskólum með annað móðurmál en íslensku viðhaldi móðurmáli sínu eftir því sem kostur er. Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd þeirra að tekið sé tillit til þekkingar þeirra á eigin móðurmáli en ekki eingöngu einblínt á færni þeirra í íslensku. Æskilegt er að þeir viðhaldi móðurmáli sínu með námi í heimaskóla eftir því sem kostur er eða í fjarnámi. Heimilt er að viðurkenna slíkt nám í móðurmáli í stað náms í erlendu tungumáli. Skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda enda er góð kunnátta í móðurmáli undirstaða læsis, góðrar færni í seinna máli og eðlilegrar framvindu í námi almennt.

Með kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er stefnt að því að nemendur verði hæfir til að taka fullan þátt í íslensku samfélagi sem tvítyngdir einstaklingar með rætur og innsæi í tvo eða fleiri menningarheima og auðgi með því íslenskt mannlíf. Markmiðin fela í sér að íslenska sem annað tungumál sé lykill að:

 • íslensku skólastarfi  
 • íslensku samfélagi  
 • virku tvítyngi  
 • tveimur menningarheimum  

Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Mikilvægt er að skólar leiti allra leiða til að bjóða foreldrum og forráðamönnum af erlendum uppruna að taka þátt í foreldrastarfi og styðja þannig menntun barna sinna.

Í námsgreininni íslensku sem öðru tungumáli felst meira en tungumálakennsla. Saman fara markmið þar sem leitast er við að þjálfa nemendur í íslensku máli og menningarfærni, viðhalda og þróa þekkingargrunn og læsi og örva námsgetu og námstækni og stuðla að félagslegri vellíðan nemandans. Mikilvægt er að gæta þess að nemendur með annað móðurmál en íslensku fylgi jafnöldrum sínum í öllum námsgreinum. Með því að huga að öllum þáttum þroska barnsins eru minni líkur á að nemandi með annað móðurmál verði á eftir í náminu meðan hann leitast við að læra íslenskt mál og öðlast menningarfærni. Með því að taka mið af þessum markmiðum samhliða markmiðum annarra námsgreina verður kennslan markvissari og betur er hugað að öllum þáttum sem áhrif hafa á framvindu í námi barna sem læra á öðru máli en móðurmálinu.

Markmiðunum má ná með því að:

 • greina stöðu og þarfir einstakra nemenda áður en námsáætlun er gerð  
 • stuðla að viðhaldi og ræktun móðurmáls og læsi á móðurmáli, sérstaklega á yngri stigum  
 • brúa bil milli móðurmáls og menningar annars vegar og íslensks máls og menningar hins vegar  
 • þjálfa markvisst mál sem tengist skólastarfi  
 • huga að menningar- og námslegum forsendum sem liggja að baki góðri námsframvindu  
 • stuðla að áframhaldandi þróun námsþroska og eflingu læsis með sérstakri áherslu á lesskilning  
 • byggja á þekkingu og undirstöðu sem fyrir er í einstökum námsgreinum og því er nauðsynlegt að athuga hvort þekkingargrunnur sé sambærilegur og hjá öðrum nemendum  
 • gera lokamarkmið allra annarra námsgreina að lokamarkmiðum íslensku sem annars tungumáls  
 • leggja áherslu á að nemendur öðlist sambærilega þekkingu og jafnaldrar þeirra samtímis því sem þeir læra íslensku, m.a. með því að laga allt námsefni að námsgetu og málfærni hvers einstaklings hverju sinni  

Sjá nánar Aðalnámskrá grunnskóla.

Aftur upp ↑

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

6 + 6 =