Umferðarljós

Reykjavíkurborg sér um rekstur umferðarljósa í samstarfi við Vegagerðina og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem má skipta annars vegar í hefðbundin umferðarljós á gatnamótum og hins vegar gönguljós. Umferðarljós eru á 216 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Umferðarljós samanstanda af misunandi einingum, s.s. stjórnkassa, ljóskerjum, skynjurum og hnappaboxum. Einingarnar eru tengdar saman með köplum sem liggja í ídráttarrörum og brunnum neðanjarðar.

Markmið kerfisins

  • Að stýring umferðarljósa samræmist umferðinni hverju sinni.
  • Að veita Strætó og neyðarakstri forgang.
  • Að safna umferðarupplýsingum í rauntíma og lágmarka umferðartafir.
  • Að vakta og senda sjálfvirkar tilkynningar ef bilanir koma upp.

 

Tenging við MSU

Rúmlega helmingur allra umferðarljósa er tengdur við miðlæga stýritölvu umferðarljósa (MSU), sem er af gerðinni Sitraffic Scala og er markmiðið að tengja öll umferðarljós við MSU.

Einn af kostum þess að tengja umferðarljós við MSU, er að bilunartilkynningar berast um leið og bilunar verður viðvart, þannig að hægt er að bregðast skjótt við.

 

Sjálfvirkni

Núverandi kerfi er keyrt á sjálfvirkri stýringu sem kallast TASS (e. Traffic-Actuated Selection of Signal Programs) og er helsti ávinningur þess að kerfið velur ljósastillingar út frá umferðarmagni hverju sinni fyrir hvert TASS-svæði.

Höfuðborgarsvæðinu er skipt upp í fimm TASS-svæði:

  1. Sæbraut
  2. Miklabraut-Kringlumýrarbraut-Hringbraut-Suðurlandsbraut
  3. Hafnarfjarðarvegur
  4. Bústaðavegur
  5. Breiðholtsbraut-Nýbýlavegur

 

Umferðarstýring

Stýringu umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu má skipta í þrennt:

  • Fortímastillt (e. pre-timed)
  • Hálfumferðarstýrð (e. semi-actuated)
  • Alumferðarstýrð (e. fully-actuated)

Flest umferðarljósin eru umferðarstýrð og stýrast út frá skynjurum.

Á fortímastilltum umferðarljósum eru engir skynjarar til staðar. Lengd grænu, gulu og rauðu ljósanna er fyrirfram skilgreind og breytist ekki eftir umferðarmagni.

Á hálfumferðarstýrðum gatnamótum logar grænt á aðalstefnu ef umferð er ekki skynjuð á hliðargötum eða ekki er ýtt á hnapp á gönguþverun yfir aðalstefnu.

Á alumferðarstýrðum gatnamótum logar rautt á alla umferðarstrauma ef engin vegfarandi er skynjaður.

 

Græn bylgja

Græn bylgja kallast þegar umferðarljós eru samstillt þannig að ökumenn geti ekið á jöfnum hraða án þess að lenda á rauðu ljósi. Jafn hraði er stilltur á u.þ.b. 80-100% af leyfilegum hámarkshraða.

Sjaldnast er hægt að hafa grænar bylgjur í báðar áttir samtímis vegna legu og staðsetningu gatnamóta. Því er reynt að samstilla ljós í ríkjandi akstursstefnu hverju sinni. Umferðarljós á stofnbrautum er samstillt þannig að umferð eigi sem greiðasta leið í átt að miðborginni á morgnanna, en í átt frá miðborginni síðdegis og utan annatíma.

Markmið með samstillingu umferðarljósa er að bæta umferðarflæðið og lágmarka tafir. Hins vegar geta ýmsir þættir haft áhrif á samstillinguna og er ávinningur hennar lítill þegar umferðarmagn er mikið.

 

Forgangur fyrir neyðarbíla og Strætó

Miðlæg stýritölva umferðarljósa sér um að keyra forgangskerfi fyrir neyðarbíla og Strætó. Búnaði er komið fyrir í slökkviliðsbílum og sjúkrabílum sem kallar sjálfkrafa eftir forgangi á umferðarjósum þegar bifreiðarnar aka á forgangsljósum. Strætó á greiðari leið um gatnamót með stýringunni, þó það sé ekki forgangsstýring eins og hjá slökkviliðinu. Stýringin virkar þannig hjá Strætó að tæki í vagninum skynjar þegar vagn nálgast gatnamót og þá framlengist tíminn sem grænu ljósin loga í akstursstefnu þeirra.

Markmið forgangskerfisins er að tryggja aukið öryggi í neyðarakstri, bæði fyrir þá sem eru í neyðarakstrinum en ekki síður almenna umferð sem neyðaraksturinn snertir hverju sinni. Einnig er lykilatriði þegar fólk er í lífshættu að stytta viðbragðstíma, ekki síst þegar umferð er mikil. Reynslan af kerfinu er mjög góð.

 

Talningastaðir

Söfnun umferðarupplýsinga er grundvallaratriði í miðlægri stýringu umferðar. Til að skynja og meta magn umferðar hefur umferðarskynjurum verið komið fyrir á nokkrum talningastöðum. Skynjararnir eru tengdir við MSU og þar eru upplýsingar úr skynjurum notaðar til að velja hentugasta ljósaforritið hverju sinni.

 

Tegund stjórnkassa

Stjórnkassinn sér um að stýra umferðarljósunum og samanstendur hann af nokkrum einingum. Öll ljósker, hnappabox og skynjarar tengjast í stjórnkassann og sér öryggiskerfi kassans um að umferðarljósin virki rétt, ásamt því að bregðast rétt við truflunum.

Sífellt er unnið að endurnýjun umferðarljósa, en notast er við átta mismunandi tegundir stjórnkassa og eru nokkrir orðnir yfir 30 ára gamlir. Við endurnýjun er forgangsatriði að tengja umferðarljósin við MSU svo hægt sé að vakta umferðarljósin og bregðast skjótt við bilunum.

 

Tegund ljóskerja

Við endurnýjun umferðarljósa er eingöngu notast við LED. Auk þess að vera orkusparandi, eru LED ljósin mun áreiðanlegri og með lægri bilanatíðni en hefðbundnar glóperur. Meira en helmingur umferðarljósa er með LED ljósum.

 

Síðan var uppfærð 17.01.2024