Menntastefna til 2030 í mótun | Reykjavíkurborg

Menntastefna til 2030 í mótun

Í upphafi árs 2017 hófst þverfagleg og þverpólitísk vinna við mótun nýrrar menntastefnu fyrir borgina fram til ársins 2030. Var það gert eftir einróma samþykkt í borgarráði. Útgangspunktur stefnumótunarinnar var barnið sjálft. Menntastefnan var mótuð í víðtæku samráði allra hagsmunaaðila í skólasamfélaginu og með ráðgjöf færustu sérfræðinga innlendra sem erlendra. Þá átti almenningur beina aðkomu að stefnumótuninni í gegnum samráðsvefinn Betri Reykjavík.  

 

 

 

 

  • Menntastefnukynning
  • Grunnskólanemendur ræða nýja menntastefnu.
  • Menntastefna merki
  • Leikskólabörn móta menntastefnu.
  • Kennarar vinna að nýrri menntastefnu borgarinnar fram til ársins 2030.
  • Starfsfólk frístundamiðstöðvanna fundar um menntastefnu.

Markmiðið var að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmið til lengri og skemmri tíma og brýnustu aðgerðir í menntamálum með áherslu á hag barna og ungmenna í reykvísku skólasamfélagi. Er stefnunni ætlað að vera hvatning og innblástur fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar borgarinnar, þar sem þessar stofnanir mynda samverkandi heild fyrir börnin í borginni.

Samráð um stefnumótun
Á vormisseri 2017 fór  fram hugmyndasöfnun með hugarflugsfundum stjórnenda og starfsfólks í skóla- og frístundastarfinu í borginni, svo og með  börnum og foreldrum. Alls var fundað á 96 starfsstöðum um áherslur í menntastefnunni. Jafnframt fór fram opið samráð á samráðsvettvangnum Betri Reykjavík á tímabilinu 9. maí - 6. júní. Í því samráði komu fram 56 nýjar hugmyndir að stefnumiðum í menntamálum og hátt í 300 manns settu fram rök með og á móti hugmyndum og forgangsraðað þeim. Alls skoðuðu um 6000 manns fram komnar hugmyndir. Spurt var um meginfærniþætti sem leggja bæri áherslu á í skóla- og frístundastarfinu. Niðurstaðan var að leggja bæri megináherslu á fimm þætti í formlegri og óformlegri menntun barna og ungmenna; félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.

Seinni hluti samráðsins fór fram í nóvember 2017 með fundum á öllum starfsstöðum SFS, með stjórnendum, starfsfólki, börnum og foreldrum. Einnig á samráðsvefnum Betri Reykjavík. Leitað var eftir hugmyndum að aðgerðum til að framfylgja meginniðurstöðum úr fyrri hluta víðtæks samráðs um stefnumótunina sem fram fór á vormisserinu meðal barna, foreldra, starfsfólks og á samráðsvefnum Betri Reykjavík.

Látum draumana rætast!
Ný menntastefna byggir á grunngildum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess með það að markmiði að búa það undir að lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi, í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar. Stefnan hverfist um börnin, námsþarfir þeirra og velferð. Í drögum að menntastefnunni sem lágu fyrir á vormisseri 2018 er aðgerðaáætlun sem fylgir lykilfærniþáttunum fimm sem urðu að niðurstöðu í fyrsta hluta samráðsins.  

Sjá drög að menntastefnu vorið 2018 sem borgarráð samþykkti í maíbyrjun 2018 að senda til umsagnar hjá skólasamfélaginu. 
Sjá kynningu um menntastefnuna vor 2018. 

Samráðsvettvangur
Til að ná sem víðtækastri samstöðu um markmið, úrbætur og aðgerðir í menntamálum var settur á laggirnar samráðsvettvangur undir forystu borgarstjóra. Þar áttu fulltrúa stjórnendur, kennarar og foreldrar sem tengjast skóla- og frístundastarfi borgarinnar, auk kjörinna fulltrúa og fulltrúa framhalds- og háskóla. Með vettvangnum starfaði einnig hópur ráðgjafa – þau Arna Hólmfríður Jónsdóttir, Jón Torfi Jónasson og Vanda Sigurgeirsdóttir, ásamt finnska menntafræðingnum Pasi Sahlberg. Þá veitti bandaríski fræðimaðurinn Andy Hargreaves ráðgjöf við mótun stefnunnar. 

Stýrihópur skipaður kjörnum fulltrúum leiðir verkefnið og ber ábyrgð á framkvæmd þess, en dagleg umsýsla er í höndum verkefnisstjórnar sem í sitja valdir stjórnendur og starfsmenn miðlægrar skrifstofu skóla- og frístundasviðs , auk formanns stýrihóps og verkefnisstjóra vinnunnar.

Stefnt er að því að samþykkja nýja menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 á haustið 2018.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

9 + 3 =