Ungbarnaleikskólar og ungbarnadeildir í leikskólum

Tveir ungbarnaleikskólar eru starfræktir af borginni í Bríetartúni og á Hallgerðargötu fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 3 ára. Í nokkrum leikskólum borgarinnar eru ungbarnadeildir. Þar eru betri aðstæður fyrir umönnun yngstu leikskólabarnanna, til dæmis hiti í gólfum, betri skiptiaðstaða og afmarkað leiksvæði.

Innritun

Ungbarnaleikskólinn Bríetartún og Hallgerðargata taka inn börn á aldrinum 12 til 24 mánaða. Ef foreldrar fá ekki úthlutað plássi fyrir barn sitt áður en það nær 24 mánaða aldri færist umsókn í annan leikskóla sem foreldrar hafa valið. Börn geta verið í ungbarnaleikskóla til 3 ára. Í upphafi þess árs sem börn í ungbarnaleikskólum verða þriggja ára er foreldrum þeirra skylt að sækja um flutning í aðra leikskóla fyrir komandi skólaár.

Innritun á ungbarnadeildir í leikskólum er með sama hætti og almenn innritun í leikskóla þar sem börnum er boðið pláss í kennitöluröð inn í leikskólann. Yngstu börnin sem tekin eru inn dvelja á ungbarnadeildunum.