Kynfræðsla - yngsta stig

Kynfræðsla fyrir yngsta stig snýst um að byggja grunn að góðu kynheilbrigði, heilbrigðum samskiptum og heilbrigðum samböndum. 

Við fræðum m.a. um líkamann, leggjum áherslu á líkamsvirðingu og notum rétt orð yfir kynfæri. Fjöllum um allskonar fjölskyldur og fjölbreytileika mannlífs. Leggjum áherslu á samskipti, vináttu, virðingu og væntumþykju. 

Hér má finna námsefni og kveikjur í kynfræðslu fyrir yngsta stig grunnskóla og frístundaheimili. 

Vefsíður

Stopp ofbeldi!  Öll börn eiga að fá fræðslu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Það er mikilvægt fyrir kynheilbrigði þeirra og öryggi. Á vefnum Stopp ofbeldi má finna safn af kennsluefni sem hentar hverju aldurstigi fyrir sig. 

Kynfræðsluvefur Hilju er frábær heimasíða þar sem finna má kennsluhugmyndir um öll viðfangsefni alhliða kynfræðslu. Á vefnum má finna efni fyrir öll aldursstig grunnskóla.

Líkamsvirðing fyrir börn er vefur um líkamsvirðingu sem hentar yngsta- og miðstigi

Kynþroski stúlkna er heimasíða sem hjúkrunarfræðingar halda úti og inniheldur ýmislegt sem tengist kynheilbrigði

 

Fræðsla

Að tala við börn um klám - í þessum leiðbeiningum má finna ráðleggingar til starfsmanna í skóla- og frístundastarfi og foreldra um hvernig hægt er að ræða um klám við börn á yngsta stigi.

Hér er kennsluhugmynd sem nýtist vel til að rýna í samskiptin í bekknum/hópnum. Góð samskipti eru afar mikilvæg og þegar kemur að kynheilbrigði skipta samskipti öllu máli. Það er því gott að nota hvert tækifæri til að efla og styðja við góð samskipti. 

Halló heimur - Vinátta Að kunna að rækta og eiga góð sambönd er mikilvæg færni. Að ræða við börn um vináttuna og rýna í hvað einkennir góða vináttu er dýrmætur grunnur að öllum frekari samböndum framtíðarinnar.

 

Kyn, kynlíf og allt hitt

Kyn, kynlíf og allt hitt er kynfræðslubók fyrir börn á aldrinum 7– 10 ára. Hún tekur til barna og fjölskyldna af öllum gerðum, kynjum og kynhneigðum þannig að öll börn og allar fjölskyldur ættu að geta speglað sig í bókinni. Bókin er á myndasöguformi þar sem fylgst er með fjórum börnum fræðast um kyn og kynlíf með virðingu, traust, ánægju og réttlæti að leiðarljósi.
Bókin er mikilvægur leiðarvísir um líkama, kyn og kynverund fyrir börn. Hún veitir nauðsynlegan grunn í kynfræðslu og býður þar að auki upp á samræður milli nemenda og kennara og gerir öllum kleift að koma á framfæri skoðunum sínum og upplifunum um leið og frætt er um virðingu, mörk, öryggi og ánægju. 

Kraftaverkið ég – Kynfræðsla fyrir yngsta stig

Þetta flotta kennsluefni í kynfræðslu er var búið til af Rut Ingvarsdóttur sem hluti af meistaraverkefni hennar í menntunarfræðum við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Efnið skiptist í þrjá hluta, fræðilega greinargerð, kennsluleiðbeiningar og námsbók í kynfræðslu fyrir 5-8 ára nemendur og má finna allt þetta efni hér fyrir neðan.

Myndbönd

Teiknimyndir með hinsegin ívafi - þrjár stuttar teiknimyndir með hinsegin söguhetjum. Myndirnar geta verið kveikjur að umræðum um hinsegin málefni, tilfinningar og ást. Í ævintýrinu um Rósalín er einnig uppbrot á staðalmyndum þar sem prinsessan er sterk og sjálfstæð og þarfnast ekki utanaðkomandi aðstoðar.

Líkami minn tilheyrir mér! Stuttar teiknimyndir sem fræða börn um kynferðisofbeldi, að slíkt sé aldrei þeim sjálfum að kenna og að það sé gagnlegt að segja einhverjum fullorðnum frá sem þau treysta.
Til að samtalið við börnin verði sem gagnlegast þurfa kennarar að kynna sér efnið mjög vel til að geta lagað það að því vinnulagi sem virkar best fyrir hvern barnahóp.
Gefa þarf börnunum gott svigrúm fyrir ígrundun og spurningar, svo þau geti komið í orð því sem þau hafa lært og því sem þau eru að hugsa.

Leyndarmálið – Segjum nei, segjum frá! - er forvarnarfræðsla um kynferðislega misnotkun og réttindi barna. Hér er um að ræða teiknimynd sem upplýsir börn um kynferðislegt ofbeldi og hvernig hægt er að bregðast við slíkri ógn. Stuðningsefni fyrir kennara fylgir þessu kennsluefni. Útgefandi er samtökin Réttindi barna

*Munið ávallt að undirbúa börn vel (gefa þeim váviðvörun) áður en fjallað er um ofbeldi. Verið einnig ávallt með annan fullorðinn aðila með ykkur sem fylgist með líðan barnanna: Ef barni virðist líða illa skal bjóða upp á samtal. Ef barn segir frá ofbeldi skal starfsfólk upplýsa stjórnanda og hann sendir tilkynningu til Barnaverndar. 

Kynhyrningurinn og kynjakakan

Hér eru myndir með útskýringum á hugtökunum kynhneigð, kyntjáning, kynvitund og kyneinkenni. Myndirnar henta vel sem verkfæri til að kenna börnum um muninn á kynvitund, kyntjáningu og hverjum fólk laðast að.

Gott að hafa í huga

Mælt er með því að bjóða upp á fjölbreyttar kennsluaðferðir. 

  • Hópavinna/kynningar
  • Nota post it miða til dæmis í hugmyndavinnu.
  • Glærukynningar
  • Myndbönd / sýna myndbönd / leyfa nemendum að útbúa myndbönd
  • Teikningar - láta nemendur teikna, sauma út, smíða eða leira líkama. Leggja áherslu á að útlit líkama er mjög fjölbreytt.
  • Hafa hugmyndakassa / spurningakassa
  • Fara í leiki
  • Vinna með klípusögur
  • Búa til leikrit, semja lag, taka viðtöl t.d. við foreldra eða ömmu og afa t.d. um ást eða ástarsorg